laugardagur, apríl 01, 2006

Til hamingju með daginn!

Femínistafélagið á afmæli í dag! Eiginlega er annar í afmæli því fyrsti stofnfundurinn var haldinn 14. mars og framhaldsstofnfundur þann 1. apríl 2003. Ég er því búin að vera talskona í 3 ár... tíminn er fljótur að líða!

Í dag var ungliðahópurinn með workshop. Sjá www.ungfem.blogspot.com. Framundan er svo síðasta Hitt vetrarins - endilega að mæta!


"Jafnréttið utan landhelginnar"

Þriðjudaginn 4. apríl kl 20 á Thorvaldsen bar

Síðasta Hitt Femínistafélagsins á þessu starfsári verður haldið á Thorvaldsen bar, hliðarsal, þriðjudaginn 4. apríl kl. 20:00 – 22:00. Umræðan verður að þessu sinni helguð alþjóðlegum straumum í jafnréttismálum og munum við heyra um það sem fram fór á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW) sem haldinn var í marsbyrjun. Ísland á sæti í kvennanefndinni nú um stundir en helsta hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd Pekingáætlunar SÞ um málefni kvenna. Þrjú félagasamtök áttu sæti í sendinefnd Íslands á fundinum og munu fulltrúar þeirra segja frá því sem bar hæst í New York, nýjum áherslum jafnt sem gömlum ágreiningsefnum.

Framsöguerindi

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fjölmiðlakona.
Sóley Tómasdóttir, deildarstýra barnasviðs í Miðbergi.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi.

Á eftir erindum verður opnað fyrir umræður. Aðgangur er ókeypis.

Hittið er staður og stund…
…til að fá umræðu af stað
…til að varpa fram spurningum
…til að vera í góðum félagsskap
…til að bjóða nýliða Femínistafélags Íslands velkomna
…til að kynna niðurstöður rannsókna sem snúast um jafnréttismál
…til að kynna útskriftarverkefni sem snúast um jafnréttismál
…til að flytja ræður um femínisma og jafnrétti hér heima og erlendis
…þar sem femínistum er velkomið að tjá sig
…þar sem fólk úr stjórnmálum og viðskiptalífi getur komið og kynnt sér mál sem snúast um jafnrétti og femínisma
…þar sem okkur gefst tækifæri til að sjá andlitin á bak við nöfnin á netinu
…fyrir starfandi hópa innan félagsins til að hittast, kasta fram hugmyndum og bralla eitthvað skemmtilegt og bráðnauðsynlegt

Engin ummæli: