fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Bréfið til Ölgerðarinnar...

Góðan dag.

Ég má til með að senda ykkur póst vegna auglýsingu fyrir Egils Lite sem ég sá á Skjá 1 í gærkvöldi. Auglýsingin samanstendur af skjáskotum af fjölmörgum afturendum, mismunandi mikið klæddum. Ég sé ekki að auglýsingin sé í samræmi við þau gildi sem þið setjið fram á heimasíðu ykkar þar sem segir meðal annars (undir fyrirsögninni Heiðarleiki):

* Hegðun og framkoma okkar styrkir orðspor fyrirtækisins.
* Við virðum viðskiptavini okkar og væntum þess að þeir geri það sama gagnvart okkur.

Mig langar líka til að benda ykkur á 18. grein jafnréttislaga þar sem segir:

18. gr. Auglýsingar.Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

Í kjölfarið á þessari auglýsingu frá ykkur höfum við á mínu heimili ákveðið að hætta að versla vörur frá Ölgerðinni. Okkur líkar ekki það viðhorf sem fram kemur í auglýsingunni og teljum hana lítilsvirðandi fyrir Ölgerðina og þá sem að henni standa. Okkur þykir miður að Ölgerðin hafi valið þessa leið þar sem jólablandið hefur verið ómissandi partur af jólahefðinni hingað til. Mest keypta vínið hér hefur verið frá Rosemount sem við sjáum á heimasíðu ykkar að þið eruð með umboð fyrir. Einnig hefur Egils Kristal verið það vatn sem hér hefur verið keypt - enda er Vífilfell á lista yfir þau fyrirtæki sem við sniðgöngum eftir að þau gerðu svipaða auglýsingu og þá sem hér um ræðir, nema að þá voru brjóst í aðalhlutverki í staðinn fyrir bossa.
Ég mun hér eftir beina mínum viðskiptum til aðila sem ekki stunda sömu leiðir í markaðssetningu. Ég tel að það sé hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja að stuðla að auknu jafnrétti og virðingu í okkar samfélagi en að Ölgerðin hafi ákveðið að fara í þveröfuga átt með þessari markaðssetningu.

Með kveðju,
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Ps. Ég tel skylt að geta þess að ég er talskona Femínistafélagsins - þó þetta bréf sé ekki sent í nafni félagsins heldur mínu eigin.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gat ekki betur séð en að það hafi verið vaðandi JAFNRÉTTI í þessari auglýsingu, fullt af karlarössum líka! Get heldur ekki séð neitt svona kynferðislegt við þetta. Kannski bara þinn hugsunarháttur þegar þú sér rassa.

Flottir rassar og ekkert meira um það að segja :)

katrín anna sagði...

Já ef þú skilgreinir jafnrétti sem svo að í því felist að troða öllum í sömu skítaholuna! Annars er bossinn hjá Ölgerðinni sammála þér og sér ekkert athugavert við auglýsinguna...

Nafnlaus sagði...

Ég hugsa að vörumerkjavirði Ölgerðarinnar aukist til muna, sniðgangi feministar vörur fyrirtækisins í náinni framtíð

katrín anna sagði...

Já sumum þykir fínt að vera karlrembur... Sumum þykir líka fínt að vera rasistar eða með hommafóbíu.

En sem betur fer er líka til fullt af fólki sem þykir flott að vera femínistar... sitthvor smekkurinn og fólk verður bara að velja í samræmi við sínar hugsjónir og framtíðarsýn.

Nafnlaus sagði...

Skemmtileg grein Katrín Anna. Ég er karlmaður.

Gæti verið að það sé langt síðan þú hefur notið ásta?

Vona að leitin beri árangur sem fyrst.

Gangi þér vel í lífinu.

Kveðja,
Stefán Anna

katrín anna sagði...

Já þú meinar - að ástin finnist í bossaauglýsingunni frá Ölgerðinni???? Kannski eftir nokkra bjóra? :-o

En hafðu engar áhyggjur - ég er bara með eilífðartúrverki.

Nafnlaus sagði...

Ég sé ekki að þessir rassar séu neinu kyni til minnkunar eða með þeim sé verið að lítilsvirða einhvern. Mér finnst þessi afstaða þín lykta af púritanisma sem mér hefur fundist nokkuð landlægur í femínistahreyfingunni. Hvers vegna er rangt að nota kynferðislegar tilvísanir í auglýsingum? Annars óska ég þér góðs gengis að finna þér eitthvað að drekka um jólin.

katrín anna sagði...

En það er ekki púritanismi að vera með rassa eða bert hold á heilanum???? Finnst miklu meiri púritanismi yfir því að vera í sífelldri leit að mismunandi berum líkamshlutum... Sú yfirgengilega þráhyggja af líkamspörtum sem er allsráðandi í dag er í sama anda og á Viktoríutímanum. Munurinn er sá að núna sést meira í þessa líkamshluta en viðhorfið gagnvart þeim eru sláandi lík... Þetta eru viðhorf sem ég hef mest lítinn áhuga á að taka þátt í. Finnst manneskjan frábær fyrir að vera mennsk - ekki sem hlutgerðir líkamspartar notaðir í þeim tilgangi að selja bjór, súkkulaði, bíla og þar fram eftir götum.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst manneskjan líka frábær fyrir það að vera mennsk. Það útilokar samt ekki að ég geti haft gaman af því að horfa á flotta rassa. Þá myndi ég halda að áhugi á beru holdi einstaklinga af hinu kyninu (eða því sama fyrir samkynhneigða) væri eðlilegur hluti af kynhvöt manna. Þess vegna er nekt og kynferðislegar tilvísanir algengar í auglýsingum því þær eru áhrifarík ( en vissulega ódýr) leið til að fanga athygli áhorfandans. Og ég sé ekkert siðferðislega rangt við það, að ég tali nú ekki um þegar jafnvægis er gætt í kyni rassa eins og í umræddri auglýsingu.

Heklurnar sagði...

Djöfull er ég ánægð með þetta bréf hjá þér Katrín Anna!
-stella