mánudagur, nóvember 27, 2006

Frá konum til karla

Fór á málþingið Frá konum til karla á laugardaginn og á mótmælastöðuna fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur. Málþingin voru bæði frábær og ég skil ekki af hverju mætingin var ekki meiri. Sérstaklega finnst mér athyglisvert að þetta var auglýst sérstaklega til karla en fáir þeirra létu sjá sig. Það er auðvelt að mæla hvort kynið er að standa sig betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi - og það er ekki strákarnir. Sem betur eru þeir strákar sem láta sig málið varða þó framúrskarandi frábærir :)

Fyrra málþingið var haldið af konum. Fókusinn þar var á sektarkennd og skömm þeirra kvenna sem verða fyrir kynferðisofbeldi og mikil áhersla lögð á að þolendur verða að losna við þessar tilfinningar. Sá sem ber ábyrgð á ofbeldinu er sá sem beitir því. Sú (eða sá) sem fyrir því verður ber ekki ábyrgð á því, hefur ekkert til að vera með samviskubit yfir eða skammast sín fyrir. Sektarkenndin og skömmin eru samfélagslega tilbúin fyrirbæri og tilfinningar þolandans mótast af þeim skilaboðum sem samfélagið sendir henni (honum). Gott dæmi til dæmis fréttaflutningur af nauðgununum fyrir nokkrum vikum. Konur í öllum tilfellum einar á ferð og hún þáði far hjá ókunnugum manni. Ekki má gleyma í sumar þegar einhver bareigandinn lýsti því yfir í fjölmiðlum að konur ættu bara að hætta að þiggja glas af karlmönnum! Á Stígamótum hangir upp á vegg blað sem á standa ýmsar setningar um það sem konur eiga að hætta að gera - listinn endar á því að til að sleppa við nauðganir verði konur einfaldlega að hætta að vera til. Lestur listans setur málið vonandi í samhengi hjá þeim sem vaða í þeirri villu og svíma að það sé á ábyrgð kvenna að loka sig inni, hætta að tala við karlmenn o.s.frv. til að koma í veg fyrir að vera nauðgað. Nær væri að senda út skilaboð til þeirra sem nauðga - og þeirra sem skapa það umhverfi sem nauðganir þrífast í.

En aftur að málþinginu. Seinni hlutinn fjallaði um ábyrgð karla. Karlarnir sem sagt tóku við kyndlinum frá konum og gerðu málið að sínu. Þeir voru auðvitað æði - rétt eins og allar konurnar í málþinginu á undan. Mér fannst samt afar forvitnilegt að hlusta á sálfræðinginn sem vinnur með kynferðisbrotamönnum. Hann var með tilbúinn prófíl af þeim... sem er í andstöðu við skilaboðin sem hafa verið að koma frá Stígamótum um að þetta séu alls konar menn, í öllum stéttum þjóðfélagsins og ekki sé hægt að þekkja þá af útliti og karakter einu saman. Man ekki heildarprófílinn sem kæri sálinn skellti upp en hluti af honum var svona: 80% kynferðisbrotamanna eiga við einhvers konar geðveilu að stríða, 40-80% þeirra hafa sjálfir verið beittir kynferðisofbeldi, þeir eru feimnir og ná yfirleitt betra sambandi við börn en fullorðna. Þekkir þú einhvern svona mann???? Við vorum nokkrar að velta því fyrir okkur hvort það gæti verið að þetta ætti bara við þá menn sem eru sakfelldir - sem kannski segir okkur eitthvað um bias í dómskerfinu? Það er spurning.

Engin ummæli: