föstudagur, nóvember 03, 2006

Egill - taka 2

Hér kemur svarbréfið mitt til Egils - eftir póstana 4 sem hann sendi. Honum er greinilega mikið niðri fyrir. Kannski ég setji bara bréfið hans hérna líka - þetta sem hann bað mig um að senda inn á póstlistann. Það er opinbert bréf. Djö... væri nú gaman ef einhver færi svo vandlega yfir þáttinn hans með hliðsjón af frambjóðendum, kynjahlutfalli, hversu margir kk og kvk frambjóðendur koma oftar en einu sinni og hversu langan tíma þau fá. Það kom nefnilega innlegg inn á póstlistann til að véfengja aðeins þessa upptalningu hjá honum. Hann ku víst hafa gleymt nokkrum körlum...

Hér er hans bréf:

Sælt veri fólkið

Ég þarf ekki að standa upp til að mótmæla ofbeldi. Ég er á móti morðum en ég er ekki að mótmæla þeim á reglulegum basís.

Ég er alveg á móti nauðgunum. Ég vil að þeim sé fremja slíka glæpi sé komið bak við lás og slá og þeir geymdir þar lengi.

Ég er á móti stríði en ég fer ekki reglulega í mótmælagöngur gegn stríði. Ég beiti ekki sjálfur ofbeldi - finn enga hvöt hjá mér til þess - reyni að ala barnið mitt upp þannig að það fái skömm á ofbeldi.

Ég hef aldrei viljað umgangast ofbeldismenn, forða mér ef ég verð var við eitthvað slíkt.
Ég lifi lífi mínu þannig að ofbeldi á þar engan þátt. Það er besta aðferðin til að vera á móti ofbeldi.

Ekki alls fyrir löngu tók ég þátt í atriði á V-deginum. Ég var beðinn um það - gott og vel. Það var ekkert mál. Þetta er gott málefni. Myndi ábyggilega gera það aftur ef ég væri beðinn um. Væri kannski ekki viss um að það gerði mikið gagn - myndi samt vona það.

Mér finnst hins vegar að Þórunn Sveinbjarnardóttir þingkona hafi komist óheppilega að orði í grein sinni sem bar yfirskriftina "Takið ykkur á strákar". Ég fer ekki ofan af því. Að gera mig að einhvers konar kóara með nauðgunum fyrir vikið er náttúrlega fráleitt.

Það er líka allsendis ómaklegt sem kemur fram í bréfi Önnu Katrínar Guðmundsdóttur að ég hleypi ekki kvenkyns frambjóðendum í þáttinn, þvert á móti. Á sunnudag er 5. þáttur Silfurs Egils á þessum vetri, að honum meðtöldum hafa þá eftirtaldir í prófkjörum komið í þáttinn:

Anna Sigríður Guðnadóttir
Dögg Pálsdóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Þórhildur Þorleifsdóttir
Valgerður Bjarnadóttir
Ragnheiður Ríkharsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Sæunn Stefánsdóttir
Bryndís Ísfold
Ásta Möller
Helga Vala Helgadóttir
Sigríður Andersen
Kristrún Heimisdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Guðfinna Bjarnadóttir
Illugi Gunnarsson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Gísli Tryggvason
Magnús Norðdahl
Glúmur Baldvinsson
Borgar Þór Einarsson
Paul Nikolov
Árni Páll Árnason
Guðmundur Steingrímsson
Bjarni Harðarson
Ellert Schram
Árni Johnsen
Eins og sjá má eru þetta fleiri konur en karlar, það hefur beinlínis verið meðvituð ákvörðun hjá mér. Ég hef líka heldur miðað við að hleypa í þáttinn frambjóðendum sem sitja ekki á þingi, sækjast eftir sæti fremur en þeim sem eru þar fyrir.

Með bestu kveðju
Egill Helgason

Hér er mitt bréf:

Sæll Egill.

Missti því miður af símtalinu þínu. Ég las pistilinn hennar Þórunnar og ég las pistilinn þinn. Skilaboðin hennar Þórunnar eru skýr. Hún tekur skýrt fram að það sé fjarri því að allir karlmenn séu ofbeldismenn - en skorar á alla karlmenn að hefja upp raust og mótmæla. Allir sæmilega læsir menn sjá hver skilaboðin eru enda fátt að misskilja í þessu: "Takið ykkur á , strákar! Hvort sem þið eruð 16, 46 eða 76 ára gamlir, skora ég á ykkur að mómæla ofbeldi gegn konum hvar sem þið hafið tækifæri til. Það er mikið í húfi fyrir ykkur sjálfa ekki síður en eiginkonur ykkar, mæður og dætur." Minni á í þessu samhengi að rannsóknir sýna að allt að þriðjungi íslenskra kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi.

Þess vegna er pistillinn þinn eins ósanngjarn og hann getur verið þar sem þú snýrð út úr og gerir henni upp skoðanir - nokkrum dögum fyrir prófkjör. Ég ætla þér að teljast til sæmilegra læsra manna og tek því þínum pistli sem vísvitandi útúrsnúningum. Ef þú skoðar þau áhrif sem þinn pistill mun hafa þá er hann ekki til þess fallinn að styðja við málstað þeirra sem berjast gegn nauðgunum. Hann er hins vegar til þess fallinn að þagga niður í þeim og breiða út andúð gegn þeim hópi. Þú getur síðan spurt sjálfan þig að því hvaða hópi slíkt er í hag.

Baráttan gegn nauðgunum snýst um að koma ábyrgðinni þangað sem hún á heima - á gerendur. Hún snýst líka um að skoða hvað það er í samfélaginu sem gerir það að verkum að svona glæpir gerast og þrífast. Í því sambandi bendi ég þér á stórgóða grein Guðrúnar Margrétar "Af hverju nauðga karlar?" sem þú getur nálgast hér: http://www.kistan.is/efni.asp?n=2952&f=3&u=43

Það er mjög mikilvægt að karlar taki opinbera afstöðu gegn nauðgunum - og eins er það mikilvægt að karlar taki ekki afstöðu gegn þeim sem berjast gegn nauðgunum. Mér finnst mjög áhugavert að spá í af hverju í ósköpunum þú ert í svo mikilli vörn að þú stekkur upp þegar karlar eru hvattir til að mótmæla ofbeldi - er það ekki sjálfsagt mál að mótmæla? Getur líka íhugað að ástæðan fyrir því að svona margar konur eru að kalla eftir mótmælum karla eru vegna þess að opinberar raddir karla gegn ofbeldi eru svo fáar og svo lágar að þær heyrast varla. Þess vegna er synd og skömm að lesa þinn pistil - þú gætir gert svo miklu betur.

Kær kveðja
Katrín Anna
ps. búin að senda bréfið frá þér inn á póstlistann

Eftir þetta bréf fékk ég þetta frá honum:

VAR ÞETTA KOMIÐ INN Á PÓSTLISTANN? ÉG BAÐ ÞIG UM AÐ SETJA ÞETTA Á PÓSTLISTANN, MÉR FINNST ÞAÐ MIKILVÆGT. KV EGILL - og á eftir fylgdi sama bréfið og áður frá honum, þ.e. opinbera bréfið.

Ætli hann hafi vísvitandi öskrað eða bara óvart? Eins og sjá má er Egill ekki í uppáhaldi í dag. Vill einhver veðja um hvort ég poppi upp í pistli hjá honum sem source of all evil?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það ætlast enginn til þess að hver einasti karlmaður gangi um gjallarhorn og gangi mótmælagöngur hvern einasta dag, þó svo að það væri ekkert nema frábært. Það ætlast heldur enginn til þess að hver einasti karlmaður mótmæli nauðgunum í fjölmiðlum, þó það væri frábært.
Það er hinsvegar ætlast til þess að karlmenn sýni stuðning við baráttunni gegn nauðgunum. Í raun má segja að með því að skrifa opinberlega á þann hátt sem Egill gerir er hann kominn í baráttu gegn þeim sem berjast gegn nauðgunum. Það má samt ekki misskiljast sem svo að ég sé að saka Egil um að vera hlyntur nauðgunum.

Ég skal segja þér útfrá eigin reynslu að Egill á ekki eftir að gefa sig núna. Þú ert hinsvegar búin að vekja hann til umhugsunar um þetta. Þegar hann er svo hættur að hugsa um að verja mál sitt fyrir einhverjum á hann eftir að hugsa málið upp á nýtt, og vonandi taka aðra afstöðu. Þannig hefur að minnstakosti margt virkað á mig. Þó svo að ég sé alls ekki tilbúinn að kalla mig feminista hafa skoðanir mínar á nokkrum málum orðið æ feminiskari með tímanum.

kókó sagði...

akkúrat