miðvikudagur, mars 12, 2008

Veröld sem ég vil

Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara gætir þú endað einhvers staðar allt annars staðar. Það skiptir máli að hafa framtíðarsýn og vita hvert beri að stefna. Þetta er það sem ég vil:

Siðmenntað samfélag
Jafnrétti
Frelsi

Vændi samræmist engu af þessu. Þess vegna mun ég alltaf berjast gegn vændi með kjafti og klóm. Það samræmist ekki þeim mannlegu gildum sem við viljum tileinka okkur. Það er ekki flóknara en það!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Katrín Anna.
Ég held (og er nánast viss um) að megin þorri þjóðarinnar sé sammála þér og þínum hugrenningum um vændi. Við sem erum sæmilega upplýst höfum fylgst með rannsóknum, blaðagreinum og umfjöllun í fréttum sem skjóta fótum undir þá fullyrðingu að mjög stór hluti vændiskvenna eigi að baka miður fallega sögu um ofbeldi eða kúgun.
Mér persónulega býður við mönnum sem nýta sér vændisþjónustu með einum eða öðrum hætti og finnst þessir menn (sem það gera) ekki síður vera að smána sig en konurnar sem þeir riðlast á eins og rjúpa við staur.
Ég er sammála þér og Sóleyju þess efnis að skemmtilegra hefði verið að draga upp mynd af þeirri baráttu sem háð er í Danmörku gegn vændi en að finna "hamingjusömu" hóruna sem fann lífsfyllinguna í hórdómnum.
Þessi blessaða kona (hvort sem maðurinn hennar gerir hana út eða ekki) er greinilega ekki að kljúfa atóm í frístunum sínum. Hún stígur ekki í vitið og virðist ekki bera snefil af virðingu fyrir sjálfri sér og sínum nánustu.
En...... þó svo að ég sé ötull stuðningsmaður jafnréttis á Íslandi (sem og annars staðar) þá á ég í ákveðnum vandræðum. Þó ég glaður vildi þá get í ekki skráð mig í Feministafélagið. Í gegnum árin hef ég horft upp á þig og fleiri úr félaginu fara hreinlega hamförum í sjónvarpsþáttum og blaðagreinum þar sem umræðan einkennist af ýkjum, bjánalegum samlíkingum og öfgum í alla staði. Ég get ekki lagt nafn mitt við það sem forystukonur (og menn) Feministafélagsins hafa að segja í mörgum tilfellum því öfgarnar eru hróplegar. ég gæti komið með langa upptalningu á ummælum forsvarsmanna félagsins sem mér hefur fundist hreinlega bjánaleg.
Hitt er svo annað mál að megin hugmyndum félagsins er þorri þjóðarinnar samþykkur. Við viljum auðvitað öll jafnrétti og sjálfur vil ég að dóttir mín eigi sömu möguleika í lífinu og sonur minn. Þetta er svo einfalt einhvern veginn. Þið eruð forsvarsmenn málstaðs sem allir vitibornir menn myndu kvitta undir en eitthvað eruð þið að gera vitlaust. Af hverju ætli það séu ekki fleiri skráðir í félagið? Ég held að það eru fleiri eins og ég sem geta ekki kvittað undir aðild að félagasamböndum þar sem forsvarsmenn þess ganga hreinlega af göflunum í hvert skipti sem þeir koma fyrir almenningssjónir!!!

Hugsaðu út í það..... af hverju er talað um "helvítis feministana" þegar í raun allir sem eitthvað vita sjá að það er ekki heil brú í því að mismuna einstaklingum eftir kynjum.

Gæti verið að það sé eitthvað sem forsvarsmenn Feministafélagsins gætu gert betur?

kv Kári

katrín anna sagði...

Er þetta Kári = Kári Geir?

Annars er ekki hægt að svara gagnrýni þar sem engin dæmi eru nefnd. Ég kannast ekki við að hafa farið hamförum í fjölmiðlum, heldur þvert á móti - hef frekar verið of stillt ef eitthvað er. Ef þú ert ósáttur við málefnin þá er það annað mál og þá finnur þú vonandi þinn vettvang. Ég breyti ekki minni sannfæringu bara vegna þess að það hentar þér betur.

Varðani ímynd femínisma og femínista þá er hún bara algjörlega í takt við þá ímynd sem súffragetturinar sem börðust fyrir kosningaréttinum höfðu og rauðsokkurnar. Aðferðirnar virðast ekki skipta máli, sama ímynd fellur á málstaðinn sama hvert málefnið er (t.d. kosningaréttur, launamunur eða að berjast gegn klámvæðingu) og sama hvaða aðferðir eru notaðar (mótmælagöngur, blaðaskrif, fræðsla - æsingur, rólegheit, rannsóknartilvísanir eða ekki...).
Það sem öll kvennabarátta á sameiginlegt eru öflugir og hatrammir andstæðingar og ég skrifa þessu neikvæðu ímynd að mestu leyti á þá. Ég er allavega ekki á því að konurnar sem börðust fyrir kosningarétti hafi gert eitthvað vitlaust til að uppskera sína ímynd heldur voru þetta varnarviðbrögð þeirra sem vilja óbreytt ástand og eru andsnúnir meira jafnrétti.

Hringbrautin sagði...

KGB:)

Ég vona að Kata verði óþekkari og háværari með hverju árinu sem líður. Ég er svo þakklát fyrir allt sem frá henni kemur.