fimmtudagur, mars 06, 2008

Við lifum á tímum mesta þrælahalds í sögunni


Nútímamaðurinn stærir sig af stöðugri framþróun, siðmenntuðu samfélagi og auknum gáfum umfram forfeðurna. Ekkert af þessu stenst nánari skoðun, en er kannski skiljanlegt viðhorf sbr við það að manneskjan hefur ríka þörf fyrir að upplifa sig góða, skynsama og siðmenntaða. Gallinn er sá að manneskjan hefur að sama skapi til að réttlæta allt sem ekki fellur undir þessi skilyrði og snúa því einhvern veginn upp í að uppfylla skilyrðin. Þannig verður ofbeldisfullt, gróft klám þar sem konur eru niðurlægðar, beittar ofbeldi og kallaðar hórur og druslur bara merki um kynlífsfantasíur karla... :-| og algjörlega er litið fram hjá öllu sem heitir valdbeiting og kúgun.

Í dag kemur út bók um þrælahald nútímans. Á meðan okkar samtími hristir hausinn yfir þrælahaldi forfeðranna og afgreiðir forfeðurna á þeirri forsendu að þeir hafi hreinlega ekki vitað betur - ekki búnir að taka þessum siðferðislegu stökkbreytingum sem sumir virðast halda að hafi átt sér genetískt stað í kringum 1980 á gjörvöllu mannkyninu... err... meina á vesturlöndunum! Í bókinni er áætlað að fjöldi þræla í dag sé í kringum 27 milljónir, sem þýðir hreinlega að við lifum á tímum mesta þrælahalds í sögunni. Reyndar er erfitt að áætla nákvæmar tölur en þær áætlanir sem ég hef séð eru frá 12 milljónum og upp í 27 milljónir. En viti menn (og konur). Maðurinn hefur ótrúlegan hæfileika til að líta fram hjá þessu öllu og réttlæta. Maðurinn heldur fast í fullyrðingar um framþróun, siðmenntun og auknar gáfur en er samt engu betur í stakk búinn til að berjast gegn þessu en forfeðurnir. Hér á landi eru t.d. eintómar réttlætingar í kringum mansal og margir sem trúa því í alvörunni að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem þrælahalda viðgengst ekki! Í alvöru!

Ég veit að það verður hlegið að okkur í sögubókum framtíðarinnar. Við verðum kynslóðin sem hafði nánast allt - tæknina, olíuna, samgöngumátann, peningana, nægan mat til að fæða allan heiminn - en við erum jafnframt þau sem erum á hellisbúastiginu varðandi hvernig á að umgangast allar þessar breytingar sem hafa orðið á lífskjörum mannkynsins. Þar af leiðandi erum við á álíka siðferðislegu stigi og hellisbúinn... við vitum hreinlega ekki betur! Eða þykjumst allavega ekki vita betur - það er svo auðvelt að snúa grænu hliðinni upp.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvaða bók er þetta sem þú talar um?

katrín anna sagði...

Sorrý - man ekki hvað hún heitir. En það eru fréttir um hana sama dag og bloggið er póstað þannig að þú ætti að geta gúgglað henni inn á mbl.is.