fimmtudagur, apríl 06, 2006

Be careful what you wish for - your wish might come true!

Árið 2003 skrifaði Gunnar Smári Egilsson pistil í Fréttablaðið um launamun kynjanna. Seinni hlutinn af pistlinum er svohljóðandi:

"Vandinn liggur ekki í samfélaginu - eða þeim hluta þess sem ekki er kvenkyns- heldur hjá konunum sjálfum.Þær fá minni laun af því þær sætta sig við minni laun. Það er síður hlustað á þær vegna þess að þær sækjast síður eftir því að á þær sé hlustað. Það er síður tekið tillit til þeirra vegna þess að þær sætta sig við það. Það er velþekkt staðreynd að konur gera vægari launakröfur en karlar. Það má sjá þess merki í starfsstéttum sem áður vou mest megnis karlar en sem konur hafa fjölmennt í. Við innkomu kvennanna hrynja starfskjör þessara stétta - og karlarnir flýja eitthvað annað.Áhrif kvenna á þessar stéttir eru því sambærileg viðáhrif innflytjenda á launakjör stétta víða um heim. Viðmiðun innflytjendanna er mun lægri en þeirra sem áður sinntu þessum störfum og með því verðfella þeir í raun endurgreiðslu fyrir vinnuaflið. En hver á sökina? Hvort er líklegra að vinna megi gegn þessu með því að halda launakjörum ákveðinna stétta uppi með handafli eða með því að efla sjálfsmat þeirra hópa sem sækja inn í stéttina? Það mætti auðveldlega svara þessumeð því að segja að lausnin sé samspil hvors tveggja. En sá sem tilheyrir hópnum sem getur valdið launalækkun ætti fyrst og fremst að velta fyrir sér sinni eigin sök. Það er ekki aðeins alvarlegt mál fyrir hann að þiggja lægri laun en áður tíðkuðust heldur er hann
með því að lækka laun fjölda annarra - og sérstaklega þeirra sem hægt er að fella í sama hóp og hann sjálfan."

Stundum finnst mér gaman að velta því fyrir mér ef konur tækju Gunnar Smára, og aðra sem flytja þennan sama boðskap, á orðinu og neituðu hreinlega að sætta sig við hin lágu laun. Þess vegna finnst mér ánægjulegt að láglaunastéttir á dvalar- og hjúkrunarheimilum eru nú í setuverkfalli og íhuga fjöldauppsagnir ef launakjör þeirra verða ekki bætt. Ég bíð hins vegar eftir því hvort hinir sömu herrar og predíka sífellt að þetta sé allt konum að kenna hefji nú ekki bráðum um raust til að höfða til samkenndarinnar, ábyrgðakenndarinnar, sektarkenndarinnar - og síðast en ekki síst - dragi upp verðbólgudrauginn - til að sýna þessum sömu konum fram á að ef þær ekki sætta sig við hin lágu laun þá muni þjóðfélagið hreinlega hrynja, verðbólgan éti upp launinn þeirra og þær verði verr staddar eftir á.
Ég lýsi hér með yfir stuðningi við setuverkfallið og vona að stjórnvöld sjái sóma sinn í því að greiða þeim sómasamleg laun! Mér finnst líka áhugavert að fylgjast með þessu máli út frá einkavæðingu - ef ég skil þetta rétt eru þetta einkavæddar stofnanir sem þó eru háðar fjárframlögum frá ríkinu - og sjá hvernig allir ráðherrar vísa málinu frá sér og lýsa sig valdlausa í þessu máli.

2 ummæli:

ErlaHlyns sagði...

Þetta eru fínar pælingar. Ég er líka afar ánægð með tilkynninguna sem Femínistafélagið sendi frá sér vegna málsins.

katrín anna sagði...

Já - en skrýtið hvað fjölmiðlar ákváðu að sniðganga þá ályktun!!!