miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Vændismálið

Kvennahreyfingin hittist í morgun... alltaf svo gott að hitta femínista. Ræddum m.a. annars drögin að nýja frumvarpinu. Seinnipartinn fór ég svo í viðtal í Síðdegisútvarpið á Rás 2 um þetta mál. Björn Bjarnason var á undan mér að ræða greiningardeildina sína og svo drögin að frumvarpinu. Mest var rætt um ákvæðið um vændi en drögin gera ráð fyrir að fella eigi út refisákvæðið um sölu - sem er gott - en ekki á að gera kaupandann refsiverðan. Björn fór mikinn í að útlista að ástæðan fyrir því að Svíar hefðu valið þessa leið hefði verið til að útrýma götuvændi og þar sem götuvændi væri ekki til staðar hér væri óþarfi fyrir okkur að elta Svíana í þessu máli. Þaðer arfavitlaust að halda þessu svona fram. Svíar voru ekki bara að tækla götuvændi (þó lögin hafi virkað vel á það) og reyndin af sænsku leiðinni hefur verið mjög góð. T.d. er Svíþjóð ekki lengur álitlegur kostur fyrir þá sem stunda mansal. Nú vantar einmitt að öll önnur lönd taki upp sænsku leiðina til að mansal verði hvergi álitlegur kostur - eða að kaupa sér vændi yfirhöfuð! Enda breytast menn í mannleysur um leið og þeir gerast vændiskúnnar.

Viðtalið á Rás 2 má hlusta á hér: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4249447/7

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá þvílík vanþekking af hálfu Björns að halda því fram að sænska leiðin hafi verið farin til að draga úr miklu götuvændi sem þar var. Þetta byggir síður en svo á því. Sorglegt að sjá að fólkið sem ræður ferðinni veit EKKERT hvað það er að tala. Einnig mjög ömurlegt að hann hafi algerlega hunsað álit þeirra sem sátu í starfshóp um þetta mál og vita meira um það en hann.

Nafnlaus sagði...

Nú verð ég líkt og Björn að lýsa fáfræði minni á þessu máli. Því ég heyrði það að þegar Danir hafi verið að kanna sænsku leiðina að það hefði komið í ljós að Hells angels og fleirri glæpasamtök hefðu fengið þarna óvænta gjöf frá stjórnvöldum.

Það átti að vekja öryggi kúnnans að vændiskonan starfaði fyrir glæpasamtök. Hann væri þá allavega viss um að vændiskonan væri ekki að leiða hann í gildru lögreglunar.

Ég veit að þetta er þekkt í þeim ríkjum USA þar sem kaup á vændi er ólöglegt. Þar eru glæpasamtök sem sjá um vændið. En í þeim ríkjum sem vændi er ólöglegt eru þær annaðhvort sjálfstæðar í þessu eða með einhvern dólg.

Það er allavega einhver ástæða fyrir því að hvorki Danir né Norðmenn hafa talið þessa leið draga úr vændi.

Ég er þó fyrst og fremst sammála Rúnu í því að einbeita okkur að því að líta á vændi sem félagslegt mein. Hertar refsingar er held ég ekki eitthvað sem á eftir að gera gæfu munin í þessum málum.
En það er mín skoðun og ég veit að við erum ekki sammála þar;)

Þetta á náttúrulega ekki að snúast um að fara endilega sænsku leiðina heldur að fara "réttu leiðina". Hver rétta leiðin er er svo aftur álitamál.

Nafnlaus sagði...

Þú skipar þér greinilega í flokki með Birni. Best að kynna sér málið. Sænska leiðin hefur einmitt hrakt glæpasamtök frá því að stunda skipulagða vændisstarfsemi og mansal. Mansal hefur minnkað mikið í Svþjóð eftir að leiðin var tekin upp og sú deild lögreglunnar sem hefur séð um slík mál þar í landi segir lögin eitt besta vopn sem þeir eigi í baráttunni við slíka þrælahaldara.
Kúninn sé oft reiðubúinn til að vitna gegn 3 aðilanum gegn því að hann fá vægari refsingu eða hún verði felld niður. Fyrir tíma sænsku laganna hafði lögreglan engann til að bera vitni í þessum málum og þriðji aðilinn náðist ekki.


Einnig hafa rannsóknir sýnt ( þú getur fengið nánari upplýsingar um þessar rannsóknir hjá þeim sem hafa vit á málinu eins og stígamótum) að þar sem vændi er löglegt eins og í Hollandi og Ástralíu er mun meira um barnavændi, mansal og vændishringjum rekna af glæpagengjum. Þetta er því kolrangt að ástæða þess að Danir fari ekki sænsku leiðina sé sú að það sé einhver gjöf til glæpasamtaka. Það er frekar á hinn vegin, lögleiðin auðveldar glæpasamtökum að fara illa með fólk sem neyðist út í vændi.

Ástæðan fyrir því að Danir og Norðmenn taka ekki upp þessa leið er einfaldlega sú að það er ekki raunverulegt jafnrétti í þessum löndum og fólk er ekki tilbúið til að láta þá sem beita ofbeldinu axla ábirgðina á því. Reyndar er mikill vilji fyrir sænsku leiðinni hjá fjölda fólks í Noreigi en þar er líka bara einn "Björn Bjarna "sem ræður ferðinni. Danir eru hinsvegar meira almennt á móti þessari leið.

Fólki sem neyðist út í vændi þarf svo að hjálpa með félagslegum úrræðum og þar er ég sammála þér.

Nafnlaus sagði...

Ok! Ég vissi svo sem ekkert hvort þetta ætti við rök að styðjast. Heyrði þetta bara frá félaga mínum í Svíþjóð þegar ég var að spurja hann út í hvernig þetta væri eftir þessa breytingu. Ég veit ekkert hvaðan hann hefur þetta.

Það er eitt sem ég þoli ekki. Danir og Norðmenn hafa verið að velta þessari leið fyrir sér í fullri alvöru. Þessar þjóðir eyddu miklum fjármunum í að rannsaka hvort þessi leið væri að virka í Svíþjóð. Þetta segir mér það að þessi lönd leggja upp úr því að reyna finna sem bestu lausnina á þessu máli. Eftir allann þann tíma og alla þá fjármuni sem þeir hafa lagt í rannsóknina varð ígrunduð niðurstaða þeirra á þá leið að þetta væri ekki að virka. Ég persónulega tek meira mark á þessari óháðu rannsóknarvinnu frekar en rannsóknum hagsmunaaðila í Svíþjóð.

Hvert er svo svar feminista við þessu?

"Ástæðan fyrir því að Danir og Norðmenn taka ekki upp þessa leið er einfaldlega sú að það er ekki raunverulegt jafnrétti í þessum löndum"

Það er þetta gamla góða "ef þið eruð ekki sammála okkur feministunum í einu og öllu þá eru þið íhaldsamar karlrembur". Auðvitað er verið að hugsa um jafnrétti í þessum löndum. Kommon! Þau ákveða að rannsaka hvort sænska leiðin hafi borið árangur til að sjá hvort það væri rétt að taka upp þessa leið í þeirra löndum. Rannsóknavinnan leiddi í ljós að þetta væri ekki físilegur kostur. Áttu þau að fara gegn þessari niðurstöðu og taka ranga ákvörðun (að þeirra mati) bara til að ganga í augun á feministum?

Nafnlaus sagði...

Að mínu mati er það óafsakanlegt að líkami fólks gangi kaupum og sölu. Það að það séu konur sem séu til sölu og karlar kaupa þær í flest öllum tilfellum gerir þetta mál kynbundið. Ef það væri jafnrétti þá væri konur til jafns á við karla í ákvörðunartökum sem varða þessi mál og þá myndi af mínum dómi niðurstaða þessara rannsóknanefnda hafa verið önnur. Þess vegna segi ég að þessi ákvörðun hafi verið tekin í Noreigi og Danmörku vegna þess að það er ekki fullkomið jafnrétti í þessum löndum (eins og það er reyndar hér og í Svíþjóð líka). Það er þinn vilji að túlka þetta sem "ef þú er ekki sammála mér ertu karlremba".

Það er reyndar óþolandi að fólk eins og þú skulir leyfa þér að kalla svör einnar konu á netinu sem svar feminista, eins og allir séu á sama máli. Þetta eru mín svör og mínar skoðanir ekki allra annarra feminista.

En áfram að málinu.

Reyndar var það svo í Noreigi að það voru 3 í nefndinni sem stóð að skoðun þessara mála. Tveir karlmenn og ein kona. Konan var ósammála körlunum og skilaði séráliti, hún taldi sænsku leiðina besta. Niðurstaða Norsku nefndarinnar var sú með 2 á móti 1 atkvæðum að bíða eftir betri reynslu og sjá og ætla þeir því að hafa ástandið óbreytt í bili. Þeir hafa ekki útlokað að fara þessa leið.

Hér á landi vann líka nefnd að því að rannsaka þessi mál. Sú nefnd hefur verið að vinna að þessari rannsókn í meira en ár. Meirihluti þeirrar nefndar var að fara skyldi sænsku leiðna hér á landi. Skrýtið að þú skulir ekki geta tekið mark á þeirri rannsóknarvinnu og fjármunum sem í hana var veitt. Það kaus Björn Bjarna ekki heldur að gera. Hann hunsar niðurstöðu þessarar nefndar og gerir eins og honum sýnist. Það hentar honum betur að hafa þetta svona og þá gerir hann það. Þetta er bara dæmigerð valdnýðsla íslenskar stjórnmala.

Danir hafa ekki skoðað þessi mál eins vel og Norðmenn svo ég viti. Ég hef ekki séð neina niðurstöðu frá þeim í þessu máli á pappír. Þeir virðast bara hafa ákveðið sig fyrirfram. Ég er þó ekki viss um það en ég hef fylgst töluvert með þessu og ekki séð þeirra úttekt enn.
Veit hins vegar að andstaðan við þetta fyrirkomulag er mun meira meðal almennings í Danmörku en í Noreigi.

Svo má geta þess að Finnar hafa einnig gert rannsóknarvinnu varðandi þetta og komist að sömu niðurstöðu og Svíar og nefndin íslenska. Það liggur því fyrir sjórnarfrumvarp sem felur í sér að kaup á kynlífsþjónustu verði refsiverð í Finnalandi. Þú þarf því ekki að hlusta bara á hagsmuanaðila í Svíþjóð varðandi þessi mál.

Einnig er vert að geta þess að fagfólk sem vinnur með einstaklingum sem eru í vændi. T.d hreiðrið í Danmörku. Eru flest á því að sænsku leiðina skuli fara. Ég held að ég taki mest mark á þessu fólki sem vinnur í innsta hring og sér afleiðingarnar á degi hverjum. Þess vegna held ég að Björn og fleiri ættu að hlusta á Stígamót og þeirra ráðleggingar varðandi þessi mál.

Nafnlaus sagði...

Svíþjóð er talið fremst í heimi þegar kemur að jafnréttismálum - Danmörk, Noregur og Ísland eru eftirbátar. Sumir hafa sagt að það sé lýsandi fyrir stöðu jafnréttismála að Svíar séu fremstir - því þar er enn langt í land.

Er á því að það séu allt aðrir hagsmunir sem hafðir eru að leiðarljósi þegar kemur að tregðunni við að gera kaupendur refisverða. Karlaveldið sér um sína... og þeir sem eru við völd vilja ekki styggja karlana sem veita þeim völdin - t.d. með því að taka af þeim réttinn til að kaupa sér konur!