miðvikudagur, desember 06, 2006

Umferðin

Ég vona að krafan um tvöföldun Suðurlandsvegar nái í gegn. Þessi leið er ekki beint sú skemmtilegasta að keyra, sérstaklega ekki í hálku eða snjó. Frænka mín lenti einu sinni í því á heiðinni að keyra á mann sem var þvert á veginn að snúa við. Hann hafði nýlega lent í árekstri og ákvað því að snúa við og keyra aftur í bæinn. Það var snjóstormur og skyggni ekkert svo frænka mín vissi ekkert af honum fyrr en hún lenti á bílnum hans. Þau lögðu bílunum út í kant og settust upp í aftari bílinn til að fylla út tjónaskýrslu - og búmm. Einhver keyrði aftan á þau. Á örstuttum tíma hafði grey maðurinn lent í 3 árekstrum og frænka mín í 2. Ungur frændi minn lét lífið á Suðurlandsveginum fyrir nokkrum árum. Leiðin er ekki í lagi eins og hún er núna og vonandi verður hún lagfærð. Ég vona líka að öll þau sem eiga um sárt að binda í kjölfarið á slysinu í síðustu viku finni huggun með tímanum.

Það er margt sem þarf að laga í umferðinni á Íslandi. Það var allt öðruvísi að keyra í Bandaríkjunum heldur en hér. Vegirnir voru betri, betur merktri og breiðari. Þar er líka meiri kurteisi í umferðinni - betri umferðarmenning og meiri ró. Nema í New York auðvitað. Þar er þetta bara klikkun. Vandamálið með USA er samt sem áður langar vegalengdir og allir þessir bílar - þar með talið flutningabílar... sem er full ástæða til að óttast.

Ég er hlynnt þeirri hugmynd sem kom upp hér um daginn að setja tæki í alla bíla sem kemur í veg fyrir að hægt sé að fara upp fyrir ákveðinn hraða. Það er ekkert vit í því að bílar komist upp í 300 þegar hámarkshraðinn er 90. Ég held samt að hækkun á ökuleyfisaldrinum skili litlu - æfingin skapar meistarann og það verður alltaf þetta fyrsta ár með óreyndum ungum ökumönnum sem eru nýbúnir að fá prófið - sama hvort prófið kemur við 17 ára aldur, 18 eða 19... Ég vona líka að það verði ekkert af þeirri hugmynd að banna ungum ökumönnum að keyra á vissum tímum sólahrings. Held stundum að það sé hugmynd sem ég sá í einhverjum grínþætti en ekki í alvörunni! Bílaauglýsingar þurfa að breytast. Hér er keyrð hver herferðin á eftir annarri þar sem reynt er að vekja athygli ökumanna á hættum í umferðinni og hvetja þá til að fara varlega. Þessi skilaboð eru þó ekki nærri eins oft keyrð og bílaauglýsingarnar - sem margar hverjar ganga út á hraða sem er tengdur við frelsi, gleði og töffaraskap. Á meðan auglýsingarnar sem ganga út á að sýna hvað er hipp og kúl eru ekki ábyrgar þá smita þær út frá sér. Auðvitað ekki einar og sér heldur með svipuðu áreiti úr mismunandi áttum.

Svo er það spurningin um hvort við erum tilbúin til að keyra á löglegum hraða, hafa bil á milli bíla, keyra ekki örþreytt og þar fram eftir götum ef við vitum að með því móti getum við bjargað mannslífum? Það þarf reyndar ekki stór slys til að valda varanlegum meiðslum á fólki og árlega slasast yfir 1000 Íslendingar í umferðarslysum.

En allavega - málið er mér hugleikið þar sem ég er sjálf slysabarn. Þar voru engin stórslys á ferð, bara ósköp venjulegar aftanákeyrslur - eins og gerast mörgum sinnum á dag...

Akið varlega!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Almennt verður fólk skynsamara með aldrinum og reynslumeira. Hraðakstur ungra ökumanna hefur ekkert með reynslu að gera. Ég tel því að hækkun bílprófsaldurs myndi skila árangri. Ég vil sjá hvort akstur ungmenna hafi batnað eða versnað með reynsluakstri með foreldrum. Ekki mikil von að ungmennin verði til fyrirmyndar í umferðinni ef þau læra af misvitrum "reyndum" ökumönnum.

Nafnlaus sagði...

Við félagarnir ræddum það um fyrir stuttu þegar við fengum bílprófið. Við vorum bestu ökumenn á landinu þegar við vorum komnir með skírteinið og gátum látið bílana snúast eins og bíómyndum með handbremsunni og keyrt á öðru hundraðinu. Við vorum fljótir að skella okkur utan vega þegar við fengum jeppana frá foreldrunum lánaða og engin hindrun var of stór til að teljast áskorun. Á þeim tíma töldu jafnvel sumir okkar að þeir væru bara betri bílstjórar eftir nokkra bjóra.

Ég held eins og kókó að hækkun bílprófsaldurs myndi skila árangri. Þroski 17 ára barna er einfaldlega ekki nægur og þá einna síst hjá strákum til að ráða við bíl. Á þeim aldri eru áhyggjur lífsins ekki enn byrjaðar og allt snýst um að vera stórhuga. Hugsunin hvað er gaman við að keyra bíl sem kemst upp í 200Km/h á 50 km/h er of algeng.

17 ára aldurinn er sá aldur sem krakkar byrja að stunda kynlíf, byrja að drekka, byrja að prófa hina og þessa hluti sem þeim þykir spennandi. Aldrei heyrir maður um krakkana sem drekka bara einn bjór og láta það gott heita. Það þarf að ganga alla leið og hrynja í'ða. Við hverju á maður öðru að búast þegar þeir fá bíl í hendurnar?