föstudagur, desember 22, 2006

Hvað er játningarmál?

Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju ekki er hægt að meta miska þegar um játningarmál er að ræða? Ég skil þetta ekki. Hljómar í fréttinni eins og að þar sem maðurinn hafi játað á sig verknaðinn þá sé enginn miski til staðar sem hægt sé að meta... Skil heldur ekki þetta með skilorðsbundna dóminn til 5 ára. Fékk hann lægri dóm af því að þau eru í sambúð eða fékk hann kannski hærri dóm fyrir vikið??? Ein voða bjartsýn!

Þetta er sem sagt af mbl.is í dag.
Skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á eiginkonu sína
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á eiginkonu sína og svipta hana frelsi með því að halda henni nauðugri á hótelherbergi í Reykjavík í allt að 4 klukkustundir. Þetta gerðist í september á síðasta ári.
Fram kemur í dómnum, að þegar konunni tókst að komast út úr herberginu dró maðurinn hana fáklædda eftir göngum hótelsins, á hárinu meðal annars, aftur inn í herbergið og misþyrmdi henni m.a. með því að rífa í hár hennar og stinga höfði hennar ofan í salernisskál. Hlaut konan mar og sár víða á líkamanum.
Fram kemur í dómnum að maðurinn játaði sakir. Hann gerði grein fyrir því að hann og konan væru enn í sambúð og á leið til útlanda eftir næstu áramót. Myndi konan fara í nám og hann vera fyrirvinna heimilisins á meðan. Segir dómurinn að með hliðsjón af þessu verði refsingin skilorðsbundin til 5 ára.
Konan krafðist 2 milljóna króna í bætur en dómarinn vísaði kröfunni frá á þeirri forsendu, að um játningarmál væri að ræða. Því hefði konan ekki gefið skýrslu fyrir dómi og ekki væri hægt að leggja mat á miska hennar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef þú lest þetta betur þá sérðu að það stendur að hún gaf ekki skýrslu fyrir dómi og þess vegna var ekki hægt að meta miskan.

katrín anna sagði...

Já en hver var ástæðan fyrir því að hún gaf ekki skýrslu? Var það vegna þess að hann játaði?

Nafnlaus sagði...

Já það er látið hljóma þannig en það er ekki dómskerfinu að kenna heldur lögfræðingnum hennar.

katrín anna sagði...

Þetta er bara mjög svo óskýrt í fréttinni... Takk fyrir útskýringuna.

Nafnlaus sagði...

Já þetta er ekki skýrt, enda eru mistökin gerð út af því að það var um játningu að ræða.