mánudagur, desember 18, 2006

Jóla hvað?

Í gær var frétt á Stöð 2 þess efnis að jólahlaðborðin gætu verið skæð fyrir hjónabönd, þ.e. ef þau eru makalaus. Tveir prestar tjáðu sig um málið og sögðust fá til sín slatta af pörum sem eru í krísu því jólagleðin fór út böndunum og breyttist í eitthvað allt annað en gleði. Einn presturinn gekk svo langt að segja að fyrirtæki sem væru með makalaus boð væru hreinlega léleg fyrirtæki - boðið ætti að gilda fyrir tvo.

Mér finnst þetta athyglisvert mál út frá fjölskylduvænum sjónarmiðum... T.d. Einu sinni fékk ég boð í teiti sem var haldið fyrir samstarfsaðila fyrirtækis út í bæ. Að sjálfsögðu var starfsmönnum hjá samstarfsaðilunum eingöngu boðið - í svona tilfellum væri full mikið að bjóða mökum með. Þar sem ég þekkti þau sem stóðu að teitinu ágætlega sendi ég þeim jafnréttisgreiningu á auglýsingunni sem þau notuðu. Eitt af því sem ég benti á var að á einni myndinni í auglýsingunni voru karl og kona sem sátu á bekk og héldust í hendur. Undirtónninn var því svolítið rómantískur og ekki við hæfi að senda svoleiðis út fyrir makalaust vinnupartý... Því þó að fólk auðvitað ákveði sjálft hvort það heldur fram hjá eða ekki þá er óþarfi að fyrirtækin skapi rétta andrúmsloftið - vísvitandi eða óvart (og auðvitað var þetta óvart í þessu tilfelli).

Annað sem mér finnst gaman að spá í út frá fréttinni í gær og það eru þessar endalausu vinnustaðaruppákomur utan vinnutíma. Miðað við eðlilegan vinnutíma er fólk saman í vinnunni 40 klukkustundir á viku. Margir eru í stöðugu kapphlaupi við tímann og foreldrar kvarta yfir að hafa ekki nægan tíma með börnunum sínum. Ekki bætir úr skák að ofan á vinnuna séu sífelldar vinnustaðaruppákomur - til þess fallnar að efla hópefli meðal vinnufélaga sem eru að öllu jafna meira saman en fjölskyldur. Þetta minnir mig á bókina The Time Bind - when work becomes home and home becomes work. Vinnan er einhvern veginn að yfirtaka hlutverk fjölskyldunnar - eða allavega að staðsetja sig við hliðina á fjölskyldunni í félagslegu samhengi. Mér finnst t.d. miklu sniðugra að vinnustaðir hafi jólahlaðborð í hádeginu einhvern daginn þannig að vinnufélagarnir geti stundað hópefli á vinnutíma og fjölskyldan átt tímann utan hefðbundins vinnutíma. Sérstaklega finnst mér þetta eiga við um í desember þegar heimilislífið kallar á alls kyns framkvæmdir, kökubakstur, tiltekt, jólagjafainnkaup og þar fram eftir götum...

2 ummæli:

kókó sagði...

Ef jólahlaðborðin eru með mökum eru þau líka ágætis afslöppun og uppbygging. Því miður hef ég reynslu af því að fjölþreyfnir karlmenn láta hvorki maka sína né maka þeirra sem þeir leita á - stoppa sig :(
Hef lent í slíku á tveimur vinnustöðum.

katrín anna sagði...

Já þeir fjölþreifnu finna sér ávallt stað og stund...

Jólahlaðborð og alls kyns uppákomur geta verið hin ágætasta skemmtun - er ekki að bera á móti því. Er frekar að velta upp þessum félagslega þætti sem vinnan er farin að sinna og hvort hann sé á kostnað fjölskyldunnar eða hvort þetta sé viðbót. Held nefnilega að vinnustaðurinn sé farinn að teygja sig inn á fjölskyldusviðið þar sem sósíallinn, vinskapurinn og félagslega netið tengist vinnustaðnum og vinnufélögunum - og er stundum í forgang fram yfir fjölskylduna. Auðvitað er síðan mismunandi hvort slíkt sé gott eða slæmt eftir aðstæðum - s.s. fjölskylduaðstæðum, aldri og jafnvel kyni...