sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól


Ég er farin í jólafrí... langt frí - alveg þangað til á næsta ári :) Á því mjög sennilega ekki eftir að blogga meira á þessu ári. Ég á örugglega eftir að sakna ykkar - allavega pínku smá.


Gleðileg jól!

föstudagur, desember 22, 2006

Þumalputtareglan

Vissir þú að þumalputtareglan á uppruna sinn að rekja til laga sem heimiluðu karlmanni að berja eiginkonu sína með priki sem var eigi sverara en þumalputti hans?

Enn eitt skrýtið - svo er ég hætt í bili

Þetta er líka óskiljanleg frétt:

Veröld/Fólk AFP 22.12.2006 14:54
Ungfrú Nevada svipt titlinum
Ungfrú Nevada hefur verið svipt titlinum vegna mynda sem hafa verið birtar af henni þar sem hún kyssir aðra stúlku. Myndirnar voru birtar á vefnum TMZ.com og á þeim sést Katie Rees, 22 ára, sem vann keppnina um ungfrú Nevada-ríki í október, kyssa aðra stúlku og þreifa á henni brjóstin.
Paula Shugart, forseti Miss Universe Organization, sem sér um keppnina um val á fegurstu konu Bandaríkjanna, segir að Rees hafi verð svipt titlinum og leyst frá skyldustörfum sem ungfrú Nevada árið 2007, samkvæmt tilkynningu frá Shugart.
Sú sem lenti í öðru sæti í keppninni mun taka við titlinum sem ungfrú Nevada og um leið keppa um titilinn ungfrú Bandaríkin.
Umboðsmaður Rees segir í yfirlýsingu að hún hafi einungis verið sautján ára þegar myndirnar voru teknar og um dómgreindarskort hafi verið að ræða.
*********
Hefði hún haldið titlinum ef hún hefði verið að kyssa strák? Hér er allavega enn ein sönnunin komin fyrir því af hverju fegurðarsamkeppnir eru fáránlegt fyrirbæri og hvers vegna það er alls ekki til fyrirmyndar að taka þátt í svona keppni...

Hvað er játningarmál?

Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju ekki er hægt að meta miska þegar um játningarmál er að ræða? Ég skil þetta ekki. Hljómar í fréttinni eins og að þar sem maðurinn hafi játað á sig verknaðinn þá sé enginn miski til staðar sem hægt sé að meta... Skil heldur ekki þetta með skilorðsbundna dóminn til 5 ára. Fékk hann lægri dóm af því að þau eru í sambúð eða fékk hann kannski hærri dóm fyrir vikið??? Ein voða bjartsýn!

Þetta er sem sagt af mbl.is í dag.
Skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á eiginkonu sína
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á eiginkonu sína og svipta hana frelsi með því að halda henni nauðugri á hótelherbergi í Reykjavík í allt að 4 klukkustundir. Þetta gerðist í september á síðasta ári.
Fram kemur í dómnum, að þegar konunni tókst að komast út úr herberginu dró maðurinn hana fáklædda eftir göngum hótelsins, á hárinu meðal annars, aftur inn í herbergið og misþyrmdi henni m.a. með því að rífa í hár hennar og stinga höfði hennar ofan í salernisskál. Hlaut konan mar og sár víða á líkamanum.
Fram kemur í dómnum að maðurinn játaði sakir. Hann gerði grein fyrir því að hann og konan væru enn í sambúð og á leið til útlanda eftir næstu áramót. Myndi konan fara í nám og hann vera fyrirvinna heimilisins á meðan. Segir dómurinn að með hliðsjón af þessu verði refsingin skilorðsbundin til 5 ára.
Konan krafðist 2 milljóna króna í bætur en dómarinn vísaði kröfunni frá á þeirri forsendu, að um játningarmál væri að ræða. Því hefði konan ekki gefið skýrslu fyrir dómi og ekki væri hægt að leggja mat á miska hennar.

Kannski ekki perri en...

Eftirfarandi frétt er að finna inn á ruv.is. Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvað lögin okkar eru karllæg - þ.e. miðuð út frá upplifun ofbeldismanninum en ekki þolandanum. Fyrir hvern var það sem kært er fyrir kynferðismök og fyrir hvern var það kynferðislegt ofbeldi? Hvoru taka lögin mið af?

Forstöðumaður Byrgisins kærður
Fyrrverandi skjólstæðingur í Byrginu hefur kært Guðmund Jónsson, forstöðumann þess, fyrir fjársvik og kynferðismök.
Félagsmálaráðherra óskaði á þriðjudag eftir upplýsingum frá Byrginu um starfsemi þess og fjármál. Þar er í sex liðum, óskað svara við ýmsum spurningum um starfsemi Byrgisins. Í 7. lið er spurt hverju stjórn Byrgisins svari þeim ásökunum sem fram hafi komið í fjölmiðlum á hendur forstöðumanni þess. Stjórnin á að svara þessum spurningum skriflega fyrir morgundaginn.
Í gær kom fram á Stöð 2 kona sem vitnaði um kynferðissamband sitt við forstöðumann Byrgisins á meðan hún dvaldi í Byrginu. Jafnframt fullyrti hún að Guðmundur Jónsson hefði stolið frá sér 4 miljónum króna. Konan lagði í morgun fram kæru á hendur Guðmundi fyrir fjársvik og kynferðismök. Það varðar við hegningarlög ef umsjónarmaður vistheimilis hefur kynferðismök við vistmann. Viðurlögin eru allt að fjögurra ára fangelsi.

Svo sagði Grétar mér að hann hefði heyrt í útvarpinu eitthvað blað vera að auglýsa fyrirsögn hjá sér sem hljóðaði svona: "Maðurinn minn er enginn perri". Neibb, hann er kannski enginn perri enda ætti umræðan frekar að snúast um hvort hann sé kynferðisbrotamaður. Það er annað en að vera perri...

Gleðileg jól


Tengdar konur

Jæja, loksins búin að uppfæra tenglasafnið. Vantar örugglega ennþá fullt af góðum í listann en nú hafa allavega nokkrar bæst við - og ein verið löguð. Kíkið endilega á þær:

Andrea Ólafs
Bryndís Ísfold
Guðfríður Lilja
Salvör

Svo skemmtilega vill til að þær eru allar í pólitík... 2 í VG, 1 í Samfylkingunni og 1 í Framsókn!

fimmtudagur, desember 21, 2006

Ætlaði að vera löngu búin að setja þetta inn...


Metingur

Á hverju ári poppa inn um bréfalúguna jólagjafir frá bönkunum. Þar sem við skötuhjúin erum hjá sitthvorum bankanum í viðskiptum er við hæfi að mesta um hvor fær flottustu jólagjöfina :)

Í ár fékk ég frá Glitni þetta fína jólaskraut. Í meðfylgjandi texta frá Glitni segir: "Hér fer saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun, ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni." Gjöfin er kertasníki eftir Siggu Heimis, ljóði eftir Sjón og ágóðinn rennur til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Grétar fékk tertuspaða frá Spron. Hann er rosaflottur - nema að hann er merktur Spron. Glætan að við bjóðum fínu gestunum okkar í afmælis- og jólaboðum upp á að nota tertuspaða sem er markaðsdót með nafni fyrirtækisins á! Kannski ágætt að koma þeirri ábendingu til Spron að stundum er fínt að gefa gjöf sem á ekki að endast sem söluáminning um ókomna ævi. Það hefur bara þveröfug áhrif þegar þessi fína gjöf poppar inn um lúguna - en mun aldrei verða notuð því hún er merkt Spron... og okkur vantar einmitt tertuspaða.

Það er sem sagt nokkuð ljóst að ég vann í metingskeppninni í ár og "minn" banki hafði betur.

ps. ef einhver veit hvernig við getum náð nafninu af endilega setjið leiðbeiningar í komment!

miðvikudagur, desember 20, 2006

Bland í poka

Á eftir að blogga um allt of margt. Er búin að fylgjast með umræðum um Byrgismálið og vona bara að löggan rannsaki þetta og komist til botns í þessu. Hef reyndar ekki náð að fylgjast með umræðunni um greiðslur til viðmælenda. Það finnst mér vafasöm taktík...

Svo er hitt heitasta málið á dagskrá - er ok að löggan noti tálbeitur eða ekki? Ef við segjum já erum við þá ekki að kalla yfir okkur lögregluríki og skert persónufrelsi? Er ekki mögulegt að með tálbeitum myndu einhverjir glepjast sem að öðru jöfnu hefði ekki gert neitt misjafnt? Mér finnst allt í lagi að löggan hangi inn á á msn og þykist vera 12, 13 eða 14 ára stelpa og handtaki þá sem sýna kynferðislega tilburði gagnvart þeim notanda. Held að með því móti náist barnaperrar og hinir séu safe - og ekki með hið stóra auga vakandi yfir þeim alltaf hreint. Finnst annað að fara inn á tölvukerfin og garfa í gögnum eða fylgjast með skeytasendingunum heldur en að vera á netinu sem tálbeita. Er nú samt fylgjandi því að þeir séu ekki of flirty í þessu hlutverki heldur láti tilvonandi brotamenn um að koma sér sjálfir í snöruna.

Svo er það Framsókn - enn og aftur. Mér finnst skemmtilegt að í efstu sætum séu 2 karlar í Reykjavík norður og 2 konur í Reykjavík suður. Mér á eftir að finnast það skemmtilegt alveg þangað til niðurstaðan verður sú að í Reykjavík norður komast 2 karlar inn en í Reykjavík suður komast engar konur inn... Held nú samt að svo fari ekki svo ég er alveg róleg.

As requested


Hvað eigum við að gera í þessu?

Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Þessi þróun truflar mig. Tek fram að það eru nokkrar vikur síðan ég sá Leikbæjarbæklinginn en það var fyrst í gær að ég fór raunverulega að bera búningana saman. Það sló mig að Leikbæjarbúningurinn er ekki bara líkur búningunum sem seldir eru í hjálpartækjaverslunum og klámbúllum - heldur er hann nákvæmlega eins! Að sama skapi er hann gjörólíkur venjulegum hjúkkubúningum - þeim sem hjúkkurnar nota.


Hjúkkubúningar fyrir börn eða fullorðna?
Af og til berast okkur fréttir af því að lögreglan hafi gert barnaklám upptækt. Útbreiðsla netsins virðist hafa auðveldað barnaníðingum að finna hvorn annan og skiptast á myndum af misnotkun á börnum. Það má segja sem svo að Internetið hafi gert vandann tengdan barnaklámi sýnilegan því útbreiðslan virðist meiri en nokkurn hafði grunað. Þessi staða ætti að vekja okkur til meðvitundar um að það er full ástæða til að vera betur á verði gagnvart þeim hlutverkum sem börn eru sett í.

Netasokkabuxur hluti af hjúkkubúningi?
Mig langar að taka sem dæmi jólabæklinginn frá Leikbæ á þessu ári. Fyrirsögnin á einni síðunni er Læknaleikur. Á henni er að finna ýmislegt dót til að fara í læknaleik, þar á meðal hjúkkubúning. En hvernig er hjúkkubúningurinn? Jú, hann er greinilega fyrir stelpur. Hjúkkubúningurinn er auglýstur með mynd af lítilli stelpu íklædd búningnum. Stelpan er stífmáluð um augun, með varalit og kinnalit. Hjúkkubúningurinn samanstendur af stuttum kjól, kappa, svuntu og netasokkabuxum.

Kynferðislegar skírskotanir
Það er hægt að túlka þessa auglýsingu á nokkra mismunandi vegu út frá jafnréttissjónarmiðum. Áður en það er gert er ágætt að bera saman hvernig hjúkkubúningarnir sem notaðir eru á Landspítalanum eru í samanburði við dótabúninginn. Hjúkrunarfræðibúningarnir á Landsspítalanum samanstanda af jakka og buxum. Kjólarnir tilheyra fortíðinni þó þeir séu stundum dregnir upp fyrir hátíðarnar. Þeir eru þó mun síðari en dótabúningurinn og netasokkabuxur eru að sjálfsögðu ekki notaðar sem fylgihlutur. Út frá þessu finnst mér eðlilegt að spyrja af hverju hjúkrunarfræðibúningur sem seldur er í dótabúð sé ekki í samræmi við þá búninga sem notaðir eru í raunveruleikanum? Hjúkkubúningurinn fyrir börn er með mörgum þekktum kynferðislegum skírskotunum sem vert er að gefa gaum að.

Hvað er læknaleikur?
Þegar börn sýna kynferðislega tilburði í leik er það oft nefnt læknaleikur. Þarna kemur fyrsta kynferðislega tilvísunin, þ.e. fyrirsögnin í Leikbæjarbæklingnum. Önnur tilvísun er búningurinn sjálfur. Stuttur kjóll, netasokkabuxur og mikil andlitsmálning. Klámiðnaðurinn hefur verið iðinn við að kynlífsvæða hjúkrunarkonur. Þess er skemmst að minnast að árið 2004 komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Fréttablaðið og Óðal hefðu gerst brotleg gagnvart jafnréttislögum þegar "hjúkkukvöld" var auglýst á Óðal. Hjúkkubúningar eru einnig algengir í kynlífshjálpartækjaverslunum. Þeir búningar eru mun nær þeim búningi sem birtist í Leikbæjarbæklingnum.

Hvað viltu verða þegar þú verður stór?
Líkindinn á milli Leikbæjarbúningsins og þeirra búninga sem seldir eru sem kynlífshjálpartæki eru sláandi. Á meðfylgjandi myndum er hægt að bera búningana saman. "Sexy nurse" búningurinn og Leikbæjarbúningurinn eru hér um bil eins. Þeir eru eins á litinn, samanstanda af stuttum kjól, svuntu og kappa og merktir krossi á sömu stöðum. Hins vegar er fátt líkt með barnabúningnum og þeim búningi sem hjúkrunarkonur raunverulega nota.
Kynferðislegu skírskotanirnar eru ekki það eina sem er gagnrýnivert. Búningurinn er ekki til þess fallinn að höfða til beggja kynja. Ef stelpan er hjúkkan hver er þá læknirinn? Hlutverkin eru fyrirfram ákveðin og í andstöðu við jafnréttissjónarmið.

Oft var þörf en nú er nauðsyn
Til eru kenningar sem segja að karlar viðhaldi völdum sínum með því að skilgreina karlmennskuna út frá því sem konur eru ekki. Karlar sem reyna að brjótast út fyrir hefðbundnar karlmennskuímyndir verða fyrir þrýstingi að haga sér eins og "sannir" karlmenn. Svipaða sögu er hægt að segja af konum. Þær eiga að halda sig í sínum fyrirfram skilgreindu hlutverkum. Hjúkkubúningarnir eru gott dæmi um þetta. Háskóli Íslands hefur farið í átak þar sem reynt er að höfða til karlmanna í auglýsingum fyrir hjúkrunarfræðinganámið. Starfsheiti stéttarinnar hefur verið breytt úr hjúkrunarkona í hjúkrunarfræðingur til að gera starfið aðgengilegra fyrir karlmenn. Þegar meðvitað er reynt að gera stéttina aðgengilega báðum kynjum til að auka jafnrétti taka andstæðu öflin til sinna ráða. Kynlífsiðnaðurinn sér um einn hlutann og leikfangaiðnaðurinn um hinn. Þannig eru hefðbundin kynhlutverk innan stéttarinnar negld niður og með kynferðislegum tengingum eru völd karla fest í sessi. Það er nógu slæmt út af fyrir sig en enn verra er þegar börn eru sett í sömu hlutverk. Ýmsar vísbendingar eru um að börn séu nú kyngerð í sífellt meira mæli. Ég vona að ekkert foreldri sé sátt við þessa þróun og að allt hugsandi fólk, hvort sem það er í hlutverki foreldra, ættingja eða markaðsaðila, taki höndum saman og spyrni við fótum af öllum mætti.

Stolið en ekki stílfært

Fann þennan afbragðs quote á blogginu hjá Berglindi. Ákvað að stela honum því hann er algjör snilld.

Pessimism of the intellect is the motor for change:
it demands that we pay attention to inequalities and injustices and rests on the belief that things do not have to be the way they are, and that they will not improve without intervention.
Optimism of the will rests on the hope that things could be changed - though not without collective effort.
(Lawler, bls. 124 - Í Feminism after Bourdieu)

Kristín - skiptu um lið!

Þetta gerir mig reiða:

Rektor segir jafnrétti virt við HÍ
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir jafnrétti virt við háskólann. Hæfni umsækjenda hafi verið metin við val í starf sérfræðings á stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Kærunefnd jafnréttisnefndar hefur úrskurðað að háskólinn hafi brotið jafnréttislög. Kristín segir að rannsóknastarf umsækjenda að loknu doktorsprófi hafi ráðið úrslitum við valið og þar hafi karlmaðurinn verið metinn hæfari. Þá segir rektor að ráðningarferlið sé í endurskoðun í samræmi við nýja stefnu skólans, til að gera ráðningarferlið gegnsærra og fljótvirkara.

Ofangreint birtist á textavarpinu. Það er óþolandi þegar æðstu stjórnendur - þeir sem standa að ráðningunum, neita að horfast í augu við að þau eru ekki að ráða hæfustu einstaklingana heldur er verið að ráða eftir kyni. Nú er HÍ búinn að fá á sig 2 álit kærunefndar um að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum eftir að Kristín tók við. Ef hún áttar sig ekki á því að hún er að brjóta á konum þá er engin von til að það breytist. Hún er nú þegar búin að klúðra 2 tækifærum á að fá mjög hæfar konur til starfa í deildum þar sem karlar eru allsráðandi. Kristín gengur inn í kynjakerfi sem hún bjó ekki til - en hún er svo sannarlega að taka þátt í því af fullum krafti. Kristín - þú ert að spila með röngu liði - við viljum fá þig yfir til okkar!!!

þriðjudagur, desember 19, 2006

Enn og aftur af Framsókn


So sorrý en nýja Framsóknarlógóið sækir á mig. Ég ímynda mér að svona hafi það orðið til... Tek fram að mér er alls ekki illa við Framsókn. Það er bara þetta fjárans lógó! Kannski er hægt að túlka það sem óð til kvenleikans?


Ps. Annars gott hjá Óskari að segja af sér öðru embættinu - mér fannst ansi hæpið að sitja beggja vegna borðs.

Eintómur áróður...

Enn eitt celebið lýsir því nú yfir að súludansinn styrki sjálfsmat kvenna. Jamm. Það er örugglega satt að súludans styrkir sjálfsmat þeirra kvenna sem byggja allt sitt sjálfsöryggi á því hversu vel þeim gengur að þóknast karlkyninu! Þeim sem finnst undirgefni kúl eru örugglega hæstánægðar þegar þær eru hvað undirgefnastar. Segir sig sjálft. Fyrir konur sem telja að sjálfsöryggi kvenna ætti að felast í því að vera manneskja á eigin forsendum og að kynin eigi að vera jafningjar gerir súludans allt annað en að styrkja sjálfsmatið. Súludansinn er partur af kynlífsiðnaði sem lítur á konur sem söluvörur. Súludansiðnaðurinn segir að konur séu ómennskar neysluvörur sem "æðra" kynið (þ.e. karlkynið) eigi að neyta en ekki njóta. Súludansiðnaðurinn segir að allir karlar, burtséð frá eigin verðleikum, geti keypt sér aðgang að líkömum kvenna því það sé þeirra réttur. Þeir eiga rétt á konum. Þeir eiga konur...

Hér er annars fréttin af mbl.is:
Kate Hudson segir súludans styrkja sjálfsmat kvenna
Leikkonan Kate Hudson hvetur allar konur til að prófa súludans því að hann hafi styrkjandi áhrif á sjálfsmatið. Hudson hefur ekki farið í launkofa með að hún hefur sótt námskeið í súludansi undanfarið og núna hefur hún lýst því yfir að þetta sé eitthvað það skemmtilegasta í heimi. Súludans sé „eitt af því sem maður veit ekki að maður getur fyrr en maður prófar það“.
Hún segir í viðtali við Cosmopolitan: „Maður fer [á námskeiðið] með mörgum stelpum og skemmtir sér konunglega. Allir koma þaðan með hárið í flaksandi og setjast upp í bílinn, kveikja á útvarpinu og manni finnst lífið æðislegt!“
Fyrr á árinu skildi Hudson við manninn sinn, rokkarann Chris Robinson. Hún segir að með því að sveifla sér á súlunni hafi hún þjálfað vöðva á stöðum þar sem hún hefði ekki vitað að væru vöðvar. Hún segist aldrei hafa verið sterkari en eftir að hún fór á súludansnámskeiðið og núna geti hún klifrað upp súluna án þess að nota fæturna.

Í uppáhaldi


Þetta er einn af uppáhaldsjólasveinunum mínum. Tinna Kristjáns á mikið hrós skilið fyrir þessa femínísku jólasveina sem kunna svo sannarlega að kalla fram bros...

Dómur #2

Jæja, þá er kominn jafnréttisdómur #2 á Háskólann. Þetta lítur ekki vel út...

Silja Bára bloggar um hversu erfitt það er fyrir konu sem er ein á toppnum að synda á móti straumnum. Mæli með þeirri lesningu. Ítreka samt enn og aftur - það er ekki nóg að vera kona til að vilja synda á móti straumnum. Því miður virðist meirihlutinn af báðum kynjum sáttur við að fljóta með straumnum þó hann sé í ranga átt.

ps. Er ég sú eina sem dettur í hug stórar bómullarnaríur og brjóstahaldari þegar ég sé nýja Framsóknarmerkið? Vill einhver plís segja þeim að taka gamla merkið upp aftur... margfalt betra.

mánudagur, desember 18, 2006

Sorrý Framsókn

Get ekki að því gert en nýja Framsóknarmerkið minnir mig á Bridget Jones...

Birgið

Af hverju er Kompás þátturinn í gær ekki ástæða til rannsóknar? Er það af því að kynferðisbrot gegn konum eru ekki litin alvarlegum augum af yfirvöldum?????

Jóla hvað?

Í gær var frétt á Stöð 2 þess efnis að jólahlaðborðin gætu verið skæð fyrir hjónabönd, þ.e. ef þau eru makalaus. Tveir prestar tjáðu sig um málið og sögðust fá til sín slatta af pörum sem eru í krísu því jólagleðin fór út böndunum og breyttist í eitthvað allt annað en gleði. Einn presturinn gekk svo langt að segja að fyrirtæki sem væru með makalaus boð væru hreinlega léleg fyrirtæki - boðið ætti að gilda fyrir tvo.

Mér finnst þetta athyglisvert mál út frá fjölskylduvænum sjónarmiðum... T.d. Einu sinni fékk ég boð í teiti sem var haldið fyrir samstarfsaðila fyrirtækis út í bæ. Að sjálfsögðu var starfsmönnum hjá samstarfsaðilunum eingöngu boðið - í svona tilfellum væri full mikið að bjóða mökum með. Þar sem ég þekkti þau sem stóðu að teitinu ágætlega sendi ég þeim jafnréttisgreiningu á auglýsingunni sem þau notuðu. Eitt af því sem ég benti á var að á einni myndinni í auglýsingunni voru karl og kona sem sátu á bekk og héldust í hendur. Undirtónninn var því svolítið rómantískur og ekki við hæfi að senda svoleiðis út fyrir makalaust vinnupartý... Því þó að fólk auðvitað ákveði sjálft hvort það heldur fram hjá eða ekki þá er óþarfi að fyrirtækin skapi rétta andrúmsloftið - vísvitandi eða óvart (og auðvitað var þetta óvart í þessu tilfelli).

Annað sem mér finnst gaman að spá í út frá fréttinni í gær og það eru þessar endalausu vinnustaðaruppákomur utan vinnutíma. Miðað við eðlilegan vinnutíma er fólk saman í vinnunni 40 klukkustundir á viku. Margir eru í stöðugu kapphlaupi við tímann og foreldrar kvarta yfir að hafa ekki nægan tíma með börnunum sínum. Ekki bætir úr skák að ofan á vinnuna séu sífelldar vinnustaðaruppákomur - til þess fallnar að efla hópefli meðal vinnufélaga sem eru að öllu jafna meira saman en fjölskyldur. Þetta minnir mig á bókina The Time Bind - when work becomes home and home becomes work. Vinnan er einhvern veginn að yfirtaka hlutverk fjölskyldunnar - eða allavega að staðsetja sig við hliðina á fjölskyldunni í félagslegu samhengi. Mér finnst t.d. miklu sniðugra að vinnustaðir hafi jólahlaðborð í hádeginu einhvern daginn þannig að vinnufélagarnir geti stundað hópefli á vinnutíma og fjölskyldan átt tímann utan hefðbundins vinnutíma. Sérstaklega finnst mér þetta eiga við um í desember þegar heimilislífið kallar á alls kyns framkvæmdir, kökubakstur, tiltekt, jólagjafainnkaup og þar fram eftir götum...

Þegar piparkökur bakast





Ef piparkökulandið Ísland bragðast eins vel og piparkökurnar sem ég bakaði skv uppskrift frá bræðrunum í Brauðhúsinu, Grímsbæ - sem bökuðu einmitt piparkökulandið - þá er þess virði að splæsa í nokkur eintök.... Svo er málstaðurinn líka góður :) og slatti af sjálfboðaliðum sem stóð á bak við piparkökugerðina. Ég klikkaði þó á því - enda búin að komast að því að ég næ ekki að anna meira sjálfboðaliðastarfi heldur en fyrir FÍ!

En hér er uppskriftin að piparkökunum. Hún birtist í Jólablaði Fréttablaðsins. Ég held satt að segja að þetta séu bara bestu piparkökur sem ég hef smakkað!

4 dl speltmjöl
4 dl sigtað spelt
3 dl reyrsykur
2 tsk engifer
4 tsk kanill
2 tsk negull
1/4 tsk pipar
2 tsk matarsódi

Blandað saman í skál
180 g smjör mulið saman við
1 dl mjólk 1 dl sykurrófusíróp
Bætt við og allt hnoðað saman.

Ég notaði venjulegt síróp og fínan hrásykur frá Rapunzel - finnst grófi hrásykurinn yfirleitt ekki góður í kökur. Notaði aðeins minna af sykrinum er uppgefið og aðeins meira af negul (finnst hann svo góður). Deigið varð líka frekar blautt svo ég þurfti að bæta við slatta af sigtuðu spelti.
Best er ef deigið fær að standa í ísskáp yfir nótt áður en bakað er. Fletjið deigið út, stingið út kökur og bakið við 200°c í u.þ.b. 10 mín.

Við prófuðum að skreyta hluta af kökunum með flórsykurbráð en þær eru betri óskreyttar...

laugardagur, desember 16, 2006

Hvað á barnið að heita

Ef þið væruð að skíra stúlkubarn, hvert af eftirfarandi yrði fyrir valinu?

1. Birta Dögg Tvö
2. Spidermann
3. Gvendólína Þyrla

Þessi nöfn voru öll á óskalista hjá systkinum og vandamönnum - nafnið sem varð fyrir valinu var Dagbjört Erla - sem mér finnst mjög fallegt nafn og vel við hæfi á litlu bróðurdóttur minni. Skírnin var heima og það var uppáhaldspresturinn minn sem sá um að skíra. Er ekki frá því að þetta hafi verið með skemmtilegri skírnum :)

DaVinci, flugdrekahlauparinn og Salvör...

Salvör skrifaði í dag um Cult Shaker... mæli með pistlinum hennar, sjá http://salvor.blog.is/blog/salvor/

Sá DaVinci lykilinn áðan - loksins. Held að það sé betra að sjá myndina svona löngu eftir að bókin er lesin. Myndin verður betri fyrir vikið. Ég man ekki nákvæmlega hvaða gagnrýni hún fékk en mér fannst hún allt í lagi - ekkert meistarastykki en mér leiddist ekkert að horfa á hana.

Las Flugdrekahlauparann um daginn. Átti alltaf eftir að blogga um hana. Vona að þið séuð öll búin að lesa hana - og ef ekki, endilega drífið í því. Þetta er rosalega góð bók og ætti eiginlega að vera skyldulesning.
Hér er brot úr viðtali sem Karl Blöndal tók við höfundinn (fann þetta á vef JPV):

Vendipunkturinn í bókinni er þegar Amir ákveður að flýja bullurnar, sem eru að pynta Hassan, fremur en að koma vini sínum til bjargar. Í grein í dagblaðinu New York Times er því lýst hvernig þessi þáttur bókarinnar hafi minnt lesanda frá Suður-Afríku á það hvernig menn litu í hina áttina á meðan aðskilnaðarstefnan var þar við lýði og lesandi, sem upplifði ofsóknir nasista á hendur gyðingum, var minntur á það hvernig þær voru látnar viðgangast.

"Þetta er lykilatriði í bókinni," sagði Hosseini. "Þetta er augnablik aðgerðarleysis. Amir er sem lamaður við það sem hann sér, það endar með því að
hann gerir ekkert og það hefur áhrif á líf hans það sem eftir er."

fimmtudagur, desember 14, 2006

Forgangsröðun

Spurning: Þú átt von á gestum eftir stutta stund. Þú átt eftir að græja heimilið og 2 valkostir eru í boði:

a) taka til
b) festa upp boxpúðann

Þú hefur bara tíma til að gera annaðhvort. Hvort verður fyrir valinu?

miðvikudagur, desember 13, 2006

Þannig er það náttúrulega...

Fór á mánudagskvöldið sem gestafyrirlesari í tíma hjá MBA nemum í HÍ. Þau eru með verkefni þar sem þau eiga að finna leiðir til að minnka launamun kynjanna. Nemendur í fyrra voru með sama verkefni og þá var haldin kynning á niðurstöðunum. Þessi hópur ætlar líka að vera með kynningar á sínum niðurstöðum þannig að endilega hafið augun opin - væntanlega verður kynningin í febrúar/mars.

Ég var sem sagt með fyrirlestur í 20-30 mín þar sem ég fjallaði um launamuninn. Ég byrjaði á að útskýra þær 3 tölur sem hafa verið í umræðunni um launamun og fór svo yfir hvað ég teldi vera rótina og birtingarmyndir - rótina sjáið þið á myndinni. Ég fór aðeins yfir heildarmyndina og hvað hefur áhrif en setti fókusinn á 3 lausnir sem ég tel vera góðar fyrir atvinnurekendur að innleiða. Auðvitað mun engin af þessum leiðum leysa allan vandann, enda er launamunurinn það margslunginn að engin ein leið mun duga. Þessar leiðir ættu samt allar að hafa eitthvað að segja. Leiðirnar eru:
1. Kyngreina laun á vinnustað og leiðrétta launamun.
2. Afnema launaleynd.
3. Stuðla að jafnari kynjaskiptingu í störfum - þ.m.t. í stjórn.
Ég setti líka fram nokkrar tillögur úr ýmsum áttum, sumar sem ég er sammála og aðrar sem ég er ekkert sérlega hrifin af... Á eftir voru umræður. Þetta var skemmtilegur hópur og margt áhugavert sem kom fram. Sumar tillögurnar sem þarna komu fram voru mun róttækari en þær sem ég setti fram. Ég hugsa að róttækasta hugmyndin sem ég hafi sett fram hafi verið kvennaverkfall. Sú róttækasta sem kom frá nemendum var að ráða bara konur í stjórnunarstörf næstu 10 árin til að jafna völd kvenna og karla. Umræðurnar fóru annars út um víðan völl og staða kynjanna var rædd út frá ýmsum sjónarhornum. Ég krossa svo bara fingur og vona að þau hafi haft jafn gaman af og ég og að þau komi með róttækar og flottar hugmyndir í verkefnunum sínum. Ég skoraði á Snjólf (kennarann) í lokin að hafa aftur kynningu á hugmyndum. Það var samþykkt og ég fæ að vera með í að velja þær hugmyndir sem verða kynntar.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Þetta segir samviskan

Það dásamlega við tæknina er hversu auðvelt er að afmá mistök. Gerði soldið sem ég er ekki að springa úr stolti yfir en hef nú afmáð öll sönnunargögn. Hið fyrra gerði ég í stundarbrjálæði en hið seinna að vel ígrunduðu máli eftir að mér var sagt að það væru fordæmi fyrir slíkri útrýmingu... Sem sagt - er komin með góða samvisku aftur :)

Fyrirmyndarjólasveinar

Jólasveinarnir streyma í bæinn. Þeir eru allir fyrirmyndarfemínistar og núna birtast þeir, 1 á dag, á heimasíðu Femínistafélagsins með jólaóskirnar sínar. Stekkjastaur kom í dag.

Hann vill þetta:





















Fylgist með á heimasíðu Femínistafélagsins.

Hvað er neyslustýring?

Pétur Blöndal var eitthvað fúll á þingi um daginn. Umræðuefnið var verð og gjöld á gosi. Hann vildi ekki neina neyslustýringu en fattaði ekki að það er neyslustýring að hafa verð á gosi lægra heldur en á ávaxtasöfum. Spurningin er ekki um hvort neyslustýringin er til staðar - heldur hvernig hún á að vera. Í Bandaríkjunum hefur skyndibitinn unnið, einfaldlega vegna þess að hann er ódýrari (og stundum fljótlegri) en almennilegur matur. Sama má segja að eigi við hér - það er dýrt að borða hollt. Tala nú ekki ef við erum að spá í lífrænt ræktað... það er dýrast, en líka hollast. Núna verður gosið ekki bara óhollast heldur líka ódýrast. Heilsusamlegt líferni er þar með farið að snúast um peninga...

mánudagur, desember 11, 2006

So you think you're a feminist?

Benji vann So you think you can dance. Þættirnir breiðast út eins og eldur í sinni og nú vilja allir dansa - eðlilega því það er svo gaman að dansa. Væri ekki tilvalið að einhver mógúllinn tæki sig til og gerði raunveruleikaþátt sem héti So you think you're a feminist? Þá væri hægt að velja saman alls konar fólk sem heldur að það sé óttalega jafnréttissinnað og leggja fyrir það kynjaðar þrautir. Mesti femínistinn vinnur - og eftir þáttinn vilja allir vera femínistar! Getur ekki klikkað... Ég myndi gera þetta sjálf nema ég er ekki mjög hrifin af reality TV conceptinu...

Hvernig á að útrýma kynbundnum launamun?

Hvernig á að útrýma kynbundnum launamun? Er að fara að flytja fyrirlestur um það á eftir og væri gaman að heyra ykkar hugmyndir :)

sunnudagur, desember 10, 2006

Skemmtilegur föstudagur

Föstudagurinn var með skemmtilegasta móti. Fór á afhendingu Ljósbera ársins 2006 á föstudagsmorguninn. Það var enginn annar en Gísli Hrafn, ráðskona karlahóps Femínistafélagsins, sem var valinn Ljósberi að þessu sinni. Gísli er vel að því kominn að vera Ljósberi - og rétt rúmlega það. Hann er óþreytandi í baráttunni, femínisti fram í fingurgóma. Hann hefur verið í ráði FÍ frá upphafi og afkastað ótrúlega miklu - ásamt hinum í karlahópi, auðvitað! En hann hefur líka gert fjölmargt í ráðinu og utan FÍ líka.

Það var mjög góð stemning í Hinu húsinu þar sem afhendingin fór fram. Svavar Knútur spilaði og söng 2 lög og Ljósberahópurinn var kynntur. Thelma Ásdísardóttir, Ljósberi 2005 flutti ræðu og afhenti Gísla Hrafni viðurkenningu sem sá Ljósberi sem tekur við af henni. Gísli flutti síðan dúndurræðu um starf sitt í jafnréttismálum, sem og um jafnrétti almennt. Bæði Thelma og Gísli eru öruggt og skemmtilegt ræðufólk svo það er ekki annað hægt heldur en að koma endurnærð og í góðu skapi eftir svona samkomu!

Til hamingju Gísli! :)

Ljósberaverðlaunin voru ekki eina samkoman sem ég fór á þennan daginn. Ég fór líka í útgáfupartýið hjá Halldóri Baldurssyni og Erni útgefanda út af bókinni sem þeir voru að gefa út. Bókin inniheldur skopmyndir Halldórs úr Blaðinu og Viðskiptablaðinu. Þeir fóru nokkuð sniðuga leið til að kynna bókina. Öllum "fórnarlömbum" Halldórs, þ.e. öllu því fólki sem hann hefur teiknað og birtist í bókinni var boðið í útgáfuteiti. Mætingin var afbragðsgóð - sem þýddi að þarna voru stjórnmálamenn, listafólk, blaðamenn og alls konar "fjölmiðlavænt" fólk - sem aftur þýddi að allir fjölmiðlar mættu á staðinn og fluttu fréttir af útgáfupartýinu! Mjög sniðugt... Ég stóðst ekki mátið og keypti eintak af bókinni. Komst að því að ég er á 2 myndum í bókinni en ekki 1 eins og ég hélt.... Ég settist niður á föstudagskvöldið og fletti í gegnum bókina. Hún er þrælskemmtileg og ég mæli hiklaust með henni. Halldór hefur skemmtilegan húmor og er hárbeittur - sem er skemmtilegra!

fimmtudagur, desember 07, 2006

Heildarsamhengi hlutanna

Ég fór á hádegisverðarfund Barnaheilla um barnaklám á netinu í dag. Fundurinn var liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og þar var farið yfir stöðuna á netinu, alþjóðasamstarf og dóma fyrir barnaklám. Það kemur varla neinum á óvart að íslenska ríkið hefur hvorki nýtt allar tillögur sem gerðar hafa verið um lagasetningu til að sporna við barnaklámi né heldur að refsiramminn í barnaklámsmálum er varla nýttur svo neinu nemi.

Fundurinn í hádeginu var fínn og brýnir á málefninu. Hins vegar langar mig að taka umræðuna lengra. Ýmsum málum var velt upp á fundinum í dag. Til dæmis myndbirtingar unglinga á netinu. Við hjá FÍ fengum t.d. póst um daginn frá áhyggjufullri móðir sem sagði frá því að unglingsstrákar væru að þrýsta á unglingsstúlkur að sýna á sér brjóstin fyrir framan web cam. Dæmin eru mörg og staðan er óhugnaleg. Á meðan við erum svona sokkin í kynlífs- og klámvæðinguna mun staðan ekki batna. Á meðan fólk ekki skoðar sitt umhverfi með gagnrýnu hugarfari mun staðan ekki batna. Á meðan kynlíf er gert að neysluvöru mun staðan ekki batna. Vandinn er að fæstir nenna eða vilja gera eitthvað í málinu. Hvað eru til dæmis margir sem sjá samhengið á milli rassaauglýsingar Ölgerðarinnar og stöðu unglinga í samfélaginu? Ok - Ölgerðarauglýsingin ein og sér hefur ekki úrslitaáhrif en Ölgerðarauglýsingin með öllu hinu hefur áhrif. Ef að börn og unglingar horfa stöðugt á efni sem er hampað eins og það sé kúl að vera með hlutgerða líkama í kynferðislegum tilgangi út um allt - af hverju eiga þau þá ekki að taka myndir af hvort öðru í sömu hlutverkum? Af hverju á strákum að detta í hug að það sé rangt af þeim að þrýsta á stelpur að fækka fötum fyrir framan web cam þegar skilaboðin sem þeir fá alls staðar frá að þetta sé "heilbrigður" áhugi á líkama hins kynsins?

Eins og ég hef sagt áður - og segi enn og aftur - auglýsingar eru hannað gagngert í þeim tilgangi að hafa áhrif á hegðun fólks. Þau áhrif ná mun lengra heldur en kauphegðun. Auglýsingar hampa ákveðnum lífsstíl, gildum og viðhorfum sem reynt er að gera "kúl" til að fá fólk til að kaupa. Við getum litið á allt okkar opinbera rými sem hluta af uppeldissamfélagi. Með því á ég við að það sem á sér stað í opinbera rýminu, þ.m.t. fjölmiðlum, hefur uppeldislegt gildi fyrir börn og unglinga. Á meðan fullorðna fólkið lítur á það sem eðlilegan hluta að troða allri klámvæðingunni upp á börn og unglinga - þá á fullorðna fólkið heldur ekki að vera hissa þegar börn og unglingar tileinka sér þau gildi. Afleiðingarnar sjáum við nú þegar í t.d. stórum hópi gerenda í kynferðisbrotamálum sem eru á unglinsaldri (skoðið heimasíðu Barnahúss ef þið efist...). Eins sést það á þrýstingnum frá strákum á stelpur að fækka fötum og eins frumkvæði stelpna í að sitja fyrir á alls kyns myndefni. Þeim er sagt að þetta sé kúl. Og þeim er sagt það af fullorðnu fólki.

Þetta er aðeins hluti af afleiðingunum. Þyrfti helst að skrifa heila bók til að útskýra þetta nánar. Geri það kannski einn daginn.... Aðalmálið er að fólk átti sig á því að fegurðarsamkeppnir, klámvæðing, kynlífsvæðing, útlitsdýrkun, staðalímyndir, neysluhyggja og þar fram eftir götum - eru ekki aðskilin fyrirbæri sem hafa afmörkuð áhrif heldur eru þetta allt hlutir sem stuðla að samfélagi misréttis og hafa áhrif á hluti eins og kynferðisofbeldi, barnaklám, launamisrétti o.s.frv.

Og - gleymdi einu varðandi Ölgerðarauglýsinguna. Tengingin á milli áfengis og kynlífs - í áfengisauglýsingum er óþolandi. Talandi um ábyrgðarleysi....

miðvikudagur, desember 06, 2006

Umferðin

Ég vona að krafan um tvöföldun Suðurlandsvegar nái í gegn. Þessi leið er ekki beint sú skemmtilegasta að keyra, sérstaklega ekki í hálku eða snjó. Frænka mín lenti einu sinni í því á heiðinni að keyra á mann sem var þvert á veginn að snúa við. Hann hafði nýlega lent í árekstri og ákvað því að snúa við og keyra aftur í bæinn. Það var snjóstormur og skyggni ekkert svo frænka mín vissi ekkert af honum fyrr en hún lenti á bílnum hans. Þau lögðu bílunum út í kant og settust upp í aftari bílinn til að fylla út tjónaskýrslu - og búmm. Einhver keyrði aftan á þau. Á örstuttum tíma hafði grey maðurinn lent í 3 árekstrum og frænka mín í 2. Ungur frændi minn lét lífið á Suðurlandsveginum fyrir nokkrum árum. Leiðin er ekki í lagi eins og hún er núna og vonandi verður hún lagfærð. Ég vona líka að öll þau sem eiga um sárt að binda í kjölfarið á slysinu í síðustu viku finni huggun með tímanum.

Það er margt sem þarf að laga í umferðinni á Íslandi. Það var allt öðruvísi að keyra í Bandaríkjunum heldur en hér. Vegirnir voru betri, betur merktri og breiðari. Þar er líka meiri kurteisi í umferðinni - betri umferðarmenning og meiri ró. Nema í New York auðvitað. Þar er þetta bara klikkun. Vandamálið með USA er samt sem áður langar vegalengdir og allir þessir bílar - þar með talið flutningabílar... sem er full ástæða til að óttast.

Ég er hlynnt þeirri hugmynd sem kom upp hér um daginn að setja tæki í alla bíla sem kemur í veg fyrir að hægt sé að fara upp fyrir ákveðinn hraða. Það er ekkert vit í því að bílar komist upp í 300 þegar hámarkshraðinn er 90. Ég held samt að hækkun á ökuleyfisaldrinum skili litlu - æfingin skapar meistarann og það verður alltaf þetta fyrsta ár með óreyndum ungum ökumönnum sem eru nýbúnir að fá prófið - sama hvort prófið kemur við 17 ára aldur, 18 eða 19... Ég vona líka að það verði ekkert af þeirri hugmynd að banna ungum ökumönnum að keyra á vissum tímum sólahrings. Held stundum að það sé hugmynd sem ég sá í einhverjum grínþætti en ekki í alvörunni! Bílaauglýsingar þurfa að breytast. Hér er keyrð hver herferðin á eftir annarri þar sem reynt er að vekja athygli ökumanna á hættum í umferðinni og hvetja þá til að fara varlega. Þessi skilaboð eru þó ekki nærri eins oft keyrð og bílaauglýsingarnar - sem margar hverjar ganga út á hraða sem er tengdur við frelsi, gleði og töffaraskap. Á meðan auglýsingarnar sem ganga út á að sýna hvað er hipp og kúl eru ekki ábyrgar þá smita þær út frá sér. Auðvitað ekki einar og sér heldur með svipuðu áreiti úr mismunandi áttum.

Svo er það spurningin um hvort við erum tilbúin til að keyra á löglegum hraða, hafa bil á milli bíla, keyra ekki örþreytt og þar fram eftir götum ef við vitum að með því móti getum við bjargað mannslífum? Það þarf reyndar ekki stór slys til að valda varanlegum meiðslum á fólki og árlega slasast yfir 1000 Íslendingar í umferðarslysum.

En allavega - málið er mér hugleikið þar sem ég er sjálf slysabarn. Þar voru engin stórslys á ferð, bara ósköp venjulegar aftanákeyrslur - eins og gerast mörgum sinnum á dag...

Akið varlega!

Íslenska ríkið er víst femínisti...

Mæli með viðhorfinu hennar Höllu í Mogganum í dag. Hún kemst að því að íslenska ríkið er femínisti. Ekki nóg með það - heldur femínisti samkvæmd skilgreiningu Femínistafélags Íslands.

Þar hafið þið það!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Hvað ef?

Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu 8. nóv. 06. Staðan miðað við prófkjör er breytt - núna myndi fækka um 3 en ekki 2, eins og segir í pistlinum.

Smá viðbót - var víst búin að setja þennan pistil inn áður - en sýnist að það sé allt í lagi að rifja hann upp m.v. kynjakvótaumræðuna hér fyrir neðan og úrslitin hjá VG!

Hvað ef?
Hvað ef karlmenn þessa lands ákvæðu allt í einu að þeir vildu svipta konur kosningarétti, kjörgengi, fjárhagslegu sjálfstæði eða tækifæra til menntunar? Hvað ef karlmenn þessa lands ákvæðu að þeir vildu skilgreina vændi sem löglega atvinnugrein? Hvað þá? Eins og staðan er í dag er fátt sem gæti stöðvað þá. Valdið er í höndum karla, þeir eru í meirihluta á þingi, í ríkisstjórn og hæstarétti.

Konum fækkar um 2
Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að núna eru prófkjör og uppstillingar á lista í fullum gangi hjá öllum flokkum enda styttist í kosningar. Í dag eru 23 konur á þingi og 40 karlar. Ef miðað er við að fjöldi þingmanna í hverjum flokki og í hverju kjördæmi verði óbreyttur í næstu kosningum mun konum fækka um tvær miðað við úrslit prófkjara. Úrslit liggja ekki fyrir í öllum kjördæmum né hjá öllum flokkum þannig að þessi staða getur breyst og auðvitað eru allar líkur á að niðurstöður næstu kosninga verði ekki nákvæmlega þær sömu og síðast. Engu að síður er það mynstur sem er að birtast í prófkjörunum áhyggjuefni út frá jafnréttissjónarmiðum.

Á að kenna krökkum frá Vestfjörðum að sauma og krökkum frá Austfjörðum að smíða?
Sumir vilja meina að kyn skiptir ekki máli og að hæfni einstaklinganna séu aðalatriðið. Auðvitað er ekki annað hægt en að taka undir að við eigum að kjósa hæfustu einstaklingana á þing en það væri afar karlrembulegt að halda því fram að ástæðan fyrir skökku kynjahlutfalli á þingi sé vegna þess að karlar séu hæfari en konur. Þar að auki skiptir kynið meira máli en flest annað í þessu lífi. Við eigum að kjósa hæfustu konurnar og hæfustu karlana – í jöfnum kynjahlutföllum. Ef einhver er í vafa um að kyn hafi meiri áhrif á líf einstaklinga heldur en t.d. búseta mega þeir hinir sömu spyrja sig hvort að á fæðingardeildinni sé viðhaft að klæða börn í sitthvora litina eftir búsetu? Hversu margir hafa séð leikfangabæklinga þar sem dótinu er úthlutað til barna eftir búsetu? Bílar fyrir börnin frá Vestmanneyjum, puntudótið fyrir börnin frá Siglufirði, verkfærasettið fyrir börnin frá Vestfjörðum og dúkkurnar fyrir börnin frá Reykjavík. Skyldu margir Vestmanneyingar verða fyrir því að ef þeim skyldi detta í hug að verða leikskólakennarar eða hjúkrunarfræðingar þá sé hlegið að þeim? Eða þeim alltaf hrósað fyrir að vera eldklárir snillingar á meðan krökkunum frá Siglufirði er hrósað fyrir að vera dugleg, stillt og prúð? Er þörf á að setja í lög að Selfyssingar, Reyðfirðingar og Ísfirðingar eigi að fá sömu laun ef þeir vinna hlið við hlið í sama starfi? Er einhvern tímann talað um að hafa mismunandi námsskrá fyrir krakka eftir því hvaðan þau eru af landinu? Kenna öllum krökkum á Vestfjörðum að sauma en krökkunum á Reyðarfirði að smíða? Nei. Þetta er ekki raunin. Samt eru enn til þeir sem vita að búseta hefur töluverð áhrif á fólk en vill afneita þeim áhrifum sem kyn hefur þó sá munur sé mun augljósari í öllu okkar umhverfi.

Karlar á þing fyrir tilstilli kynjakvóta?
Það er sorglegt að fylgjast með hverju prófkjörinu á fætur öðru þar sem konum er hafnað og karlar raða sér í efstu og öruggu sætin. Ekki nóg með að hlutur kynjanna sé kolrangur heldur getur hæglega farið svo í komandi kosningum að einhverjir karlar komist inn fyrir tilstilli kynjakvóta. Ef Vinstrihreyfingin grænt framboð heldur áfram að vera með kynjakvóta fyrir hvert kjördæmi gæti vel farið svo að karlar komist inn fyrir tilstilli kynjakvóta í Reykjavík og þannig skekkt kynjahlutfallið á þingi enn frekar, körlum í vil.

Sigur fyrir hvern að karlar raðist í efstu sætin?
Slæm staða í jafnréttismálum kristallast ekki eingöngu í niðurstöðum prófkjara heldur einnig orðræðunni í kringum þau. Haft er eftir Björgvini G. Sigurðssyni sem vann prófkjör Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi “Mér líst afar vel á útkomuna úr prófkjörinu og er viss um að Samfylkingin nær góðum árangri í kosningunum næsta vor. Ég get ekki annað en litið á þessi úrslit sem persónulegan sigur fyrir mig og Samfylkinguna í heild." Jú, jú, persónulegi sigurinn er óumdeildur en er það sigur fyrir Samfylkinguna að karlar röðuðust í þrjú efstu sætin, kona í það fjórða og karl í það fimmta? Samfylkingin er eins og er með fjóra þingmenn í Suðurkjördæmi, þrjá karla og eina konu. Það er borin von að þar verði framför. Svipaða sögu er að segja eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Þar gekk Sigurður Kári Kristjánsson meira að segja svo langt að kenna konum um sitt slæma persónulega gengi. Sigurður Kári lenti í 8. sæti prófkjörsins og sagði “Svona spilaðist þetta bara. Það komu nokkrir nýjir inn í þetta prófkjör sem náðu góðum árangri. Ég held að það hafi kannski líka verið pressa á að kjósa konur í sæti ofarlega. Kannski hafa einhverjir liðið fyrir það." Tvær konur og fimm karlar lentu ofar á listanum en hann og honum dettur í hug að konum hafi verið hyglað en ekki körlum? Sjálfstæðisflokkurinn er eins og er með níu þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum og miðað við úrslit prófkjörsins þar sem 2 konur eru meðal níu efstu mun kynjahlutfallið hjá þeim verða óbreytt.

Verða karlarnir góðir?
“Eiga þá stelpur alltaf að þegja / og aðeins vona að strákar túlki þeirra mál?” Þetta er brot úr textanum við lagið “Hvers vegna þegjum við...?” af plötunni Áfram stelpur sem kom út 1975. Það má yfirfæra þennan texta yfir á stöðu kvenna og karla í stjórnmálum. Eiga konur bara að þegja og vera sáttar við að fá að vera memm en ekki sem helmingur valdhafa á Alþingi Íslendinga? Fjölmargar lagagreinar og aðgerðir á vegum stjórnvalda hafa mismunandi áhrif á kynin. Það skiptir máli að konur og karlar hafi sömu völd í samfélaginu. Í dag er Ísland karlaveldi þar sem karlmenn geta gert það sem þeim sýnist og við konurnar erum háðar því að karlarnir ákveði að vera góðir við okkur. Það er ekki ásættanlegt en því miður er ekki mikil von til bjartsýni fyrir komandi alþingiskosningar.

Fórnarlambið


Ég er fórnarlamb og af því tilefni er mér boðið í partý. Spurning hvort ég verð þar í vondum eða góðum félagsskap...

mánudagur, desember 04, 2006

Hvað finnst mér um kynjakvóta VG?

Vegna spurningar í innlegginu á undan... set hér inn póst sem ég sendi á femínistapóstlistann í kvöld. Hann var svar við athugasemd um að Gestur væri að setja fordæmi í þá veru að konur yrðu líka að afsala sér kynjakvótasætum í framtíðinni. Tek fram að ég er ekki áköf kvótakona. Er fylgjandi honum á 5 mínútna fresti... Stærsti gallinn við kynjakvóta er auðvitað að hann útilokar að konur muni nokkurn tíma verða í meirihluta á þingi. Ég spái því að fylgi karlmanna við kynjakvóta eigi eftir að aukast eftir því sem konum fjölgar á þingi!

En hér er pósturinn:
****************
Ég er alls ekki sammála því að þetta sé fordæmisgefandi í hina áttina - ekki á meðan staðan inn á þingi er 2/3 á móti 1/3. Í síðustu viku birtist skýrsla um stöðu Íslands. Staða kvenna í pólitík var sterk - en það var út af því að Vigdís var forseti í 16 ár. Ef miðað er við hlutfall kvenkyns ráðherra erum við í sömu sporum og Afríkuríki, sem er ekki það viðmið sem við höfum hingað til leitast við að bera okkur saman við. Það væri hreinn skandall að láta það berast að hér væru konur karlar í yfirgnæfandi meirihluta á þingi og að af þessum stóra meirihluta væru 1 eða 2 karlar. Það er nefnilega ekki bara VG á höfuðborgarsvæðinu sem er aðalatriðið heldur heildarstaðan á þingi.

Konur geta ennþá þegið sæti fyrir tilstilli kynjakvóta með góðri samvisku á þeirri forsendu að hlutfall kvenna er svo skakkt á þingi.

En frábær úrslit hjá VG og gott fordæmi hjá Gesti. Vonandi verður kjörstjórn á sama máli. Ég á orðið nógu erfitt með að segjast vera Íslendingur eftir að við komumst á lista staðfastra þjóða, Kárahnjúka, ójöfnuð á svip stundu, barn á listanum yfir kynþokkafyllstu konurnar, smánarlega dóma (eða enga) í kynferðisbrotamálum... Ég hreinlega myndi ekki meika karla á þingi vegna kynjakvóta ofan á þetta allt saman!

Loksins gott prófkjör

Frábær úrslit hjá VG um helgina. Loksins kom prófkjör þar sem konum vegnaði vel! Reyndar hefði ég viljað sjá Kristínu Tómas og Andreu Ólafs ná allavega 4. sæti... enda eru þær fyrirmyndarfemínistar.

Lærum af Filippseyjum

Þeir kunna þetta á Filippseyjum. Íslenskt löggjafarvald og dómsstólar ættu kannski að fara í vettvangsferð og læra hvernig þetta er gert? Reyndar eru Filippseyjingar ekki fullnuma enn því þeir sýknuðu hina 3 en þeir eru allavega 40 árum á undan Íslendingum samt sem áður....

Vísir, 04. des. 2006 10:05

40 ára fangelsi fyrir nauðgun
Bandarískur hermaður hefur verið dæmdur í 40 ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað filippeyskri konu þann 1. nóvember síðastliðinn. Konan sagði að hún hefði verið ölvuð og að á meðan hefði maðurinn nauðgað henni en hann bar því við að kynmökin hefðu verið með hennar samþykki.

Er þetta talið mikilvægt mál fyrir kvenréttindafólk og á sama tíma er það talið staðfesta sjálfstæði eyjanna gagnvart fyrrum nýlenduveldi sínu, Bandaríkjunum. Höfðu um 100 manns safnast saman fyrir framan dómshúsið til þess að styðja við konuna og var ákaft fagnað þegar dómurinn var kveðinn upp

laugardagur, desember 02, 2006

Moggablogg

Jæja, ég skilaði prófinu mínu í Kyn og fjölmiðlar morgun. Meðal efnis sem ég las fyrir prófið var um netið. Í einni greininni kom fram að meðal þess sem var talinn einn af stærstu kostum netsins í upphafi var hversu auðvelt, ódýrt og aðgengilegt það væri fyrir alla að setja upp eigin netsíðu. Hins vegar hefði þróunin orðið sú að vegna þess hversu stjór og fjársterk sum fjölmiðlafyrirtækin eru þá kostar það orðið ekki undir einni milljón dollara að koma á koppinn vinsælli vefsíðu. Sem sagt ekkert mál að koma einhverju á koppinn en ef síðan á að vera vel sótt og vinsæl þá er eins gott að hafa djúpa vasa.

Mér finnst þetta áhugaverð umræða - hvernig virkar netið í að auka lýðræði og jafnrétti á milli allra hópa? Búin að vera að velta þessu fyrir mér þar sem ein prófspurningin kom inn á þetta atriði. Getur verið að netið nýtist þeim best sem nú þegar hafa völdin? Þar sem þetta er mál málanna akkúrat í augnablikinu ákvað ég að tékka á hverjir væru listaðir upp í "vinsælu bloggunum" á mbl.is. Rak augun í fyrirsögnina þegar ég var að krúsa fréttirnar... og viti menn og konur... tatatata.... vinsælustu bloggin eru karlkyns!


Mér finnst þetta skipta máli í því samhengi að nú er Mogginn einn vinsælasti vefur landsins. Á bak við vefinn standa fjársterkir aðilar - og nokkuð stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þeir auglýsa hvaða blogg eru vinsæl á vel sótta vefnum sínum. Sem sagt - þeir stýra aðsókn inn á ákveðna vefi. Þarna finnst mér að kynjasjónarhornið eigi að fá að njóta sín og Mogginn eigi að jafna kynjahlutfallið. Það hljóta einhverjar konur að blogga hjá þeim og varla vill Mogginn senda þau skilaboð að þjóðin nenni ekki að hlusta á konur!? Ekki einu sinni eina????? :-o

föstudagur, desember 01, 2006

Aftur og nýbúinn!

Frjálslyndi flokkurinn er að skandalisera enn eina ferðina... Í þetta sinn ákváðu þeir að losa sig við konuna í flokknum - Margréti Sverrisdóttur. Margrét er búin að vera framkvæmdastjóri flokksins og hefur þar að auki lagt á sig ómælda vinnu fyrir flokkinn í hverjum kosningunum á fætur öðrum en sjálfri hefur henni verið skóflað til hliðar. Núna segir formaður flokksins að henni sé sagt upp vegna þess að hún muni leiða annan hvort Reykjavíkurlistann. Það er augljóst að þetta er helbert kjaftæði. Ef það hefði stangast og allt væri í góðu hefði verið rætt við hana og fundin sameiginleg lausn á því hvort og hvenær hún myndi hætta. Í staðinn er henni hent til hliðar - í kjölfarið á því að hún hefur verið eina manneskjan í flokknum sem hefur tjáð sig af viti um hin rasísku ummæli Magnúsar Þórs.

Það er þekkt að konur og karlar fá sitthvora meðferðina. Í pólitík er t.d. talað öðruvísi um konur, þær eru gagnrýndar á persónulegri nótum en karlar, miklu meira er spáð í útlit kvenna og svo eru þær þaggaðar. Þær þurfa líka oftar að segja af sér og fyrir minni syndir en karlarnir - sem sést vel á öllum afsögnum ráðherra á hinum Norðurlöndunum. Nú er Margrét greinilega fyrir körlunum og þá er henni sparkað til hliðar - og ekki einu sinni reynt að fara pent að.

Ég vona að Margrét segi sig úr flokknum og finni sér góðan flokk við hæfi - eða fari bara í sérframboð. Ég er viss um að hún yrði kosin á þing ef hún væri ein á báti! Fengi líklega bara betri kosningu heldur en í fylgitogi með þessum *beep*

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Bréfið til Ölgerðarinnar...

Góðan dag.

Ég má til með að senda ykkur póst vegna auglýsingu fyrir Egils Lite sem ég sá á Skjá 1 í gærkvöldi. Auglýsingin samanstendur af skjáskotum af fjölmörgum afturendum, mismunandi mikið klæddum. Ég sé ekki að auglýsingin sé í samræmi við þau gildi sem þið setjið fram á heimasíðu ykkar þar sem segir meðal annars (undir fyrirsögninni Heiðarleiki):

* Hegðun og framkoma okkar styrkir orðspor fyrirtækisins.
* Við virðum viðskiptavini okkar og væntum þess að þeir geri það sama gagnvart okkur.

Mig langar líka til að benda ykkur á 18. grein jafnréttislaga þar sem segir:

18. gr. Auglýsingar.Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

Í kjölfarið á þessari auglýsingu frá ykkur höfum við á mínu heimili ákveðið að hætta að versla vörur frá Ölgerðinni. Okkur líkar ekki það viðhorf sem fram kemur í auglýsingunni og teljum hana lítilsvirðandi fyrir Ölgerðina og þá sem að henni standa. Okkur þykir miður að Ölgerðin hafi valið þessa leið þar sem jólablandið hefur verið ómissandi partur af jólahefðinni hingað til. Mest keypta vínið hér hefur verið frá Rosemount sem við sjáum á heimasíðu ykkar að þið eruð með umboð fyrir. Einnig hefur Egils Kristal verið það vatn sem hér hefur verið keypt - enda er Vífilfell á lista yfir þau fyrirtæki sem við sniðgöngum eftir að þau gerðu svipaða auglýsingu og þá sem hér um ræðir, nema að þá voru brjóst í aðalhlutverki í staðinn fyrir bossa.
Ég mun hér eftir beina mínum viðskiptum til aðila sem ekki stunda sömu leiðir í markaðssetningu. Ég tel að það sé hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja að stuðla að auknu jafnrétti og virðingu í okkar samfélagi en að Ölgerðin hafi ákveðið að fara í þveröfuga átt með þessari markaðssetningu.

Með kveðju,
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Ps. Ég tel skylt að geta þess að ég er talskona Femínistafélagsins - þó þetta bréf sé ekki sent í nafni félagsins heldur mínu eigin.

Wish me luck!

Jæja, er byrjuð í heimaprófinu fyrir kyn og fjölmiðla. Ætla að byrja á að fara upp, laga kaffi og setjast niður með prófið og lesefnið í rólegheitum. Verð í prófi til hádegis á morgun. Wish me luck!

Meira Boycott

Fyrir nokkrum árum skemmdi Vífilfell fyrir mér jólablandið með því að búa til hallærislegustu og asnalegustu Trópí auglýsingu ever. Ég missti samstundis lyst á Trópí og sendi kvörtunarbréf á markaðsdeildina. Þeirra viðbrögð voru að afsala sér ábyrgð og sendu bréfið á Saga Film og þaðan fékk ég eitthvað lame svar. Eftir það hefur heimilið sniðgengið vörur frá Vífilfelli eftir bestu getu. Það hafði meðal annars þau áhrif að jólablandið hætti að að vera kók, appelsín og malt og varð bara malt og appelsín. Í kvöld sá ég auglýsingu fyrir Egils Lite sem gerir það að verkum að ég hef misst áhugan á að versla við Ölgerðina.... Er ekki búin að senda þeim bréf en það stefnir allt í að jólaöl sé siður sem heyrir sögunni til á þessu heimili - sem er algjör bömmer. Eftir skoðun á heimasíðunni þeirra held ég að það sé tvennt sem ég á eftir að sakna frá þeim:

1. Jólablandið (sem betur fer er ég ekki mikið í gosinu aðra mánuði ársins...).
2. Rosemount vínið - sem er mest keypta vínið á þessu heimili... en ekki vikulegur gestur þannig að við hljótum að lifa það af að þurfa að skipta um tegund...

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Fyrirmyndir og annað fólk

Trúi ekki að Herra Ísland keppnin hafi að mestu leyti farið fram hjá mér. Ég sem er svo mikil áhugamanneskja um svona konu og karla sýningar - enda eðlilegasti hlutur í heimi að fólk sem fer í atvinnuviðtal þurfi að spranga um á sundfötum og spariskóm áður en hægt er að ákveða hvort eigi að ráða það í vinnu. Það er svo sem ágætis mælikvarði á hver er líklegastur til að hlýða....

Annars finnst mér ein flottasta fyrirmyndin núna vera Dagný Kristjáns sem þorði að skrifa grein um Latabæ - óskabarn þjóðarinnar - sem var ekki stútfull af h-vítamíni! Mæli með lestrinum í Fréttablaðinu en TMM greinin er lengri og ítarlegri. Ég er bara rétt búin að glugga í þá grein en hlakka til að lesa hana alla :)

Tilkynningaskyldan hvetur svo alla til að lesa 5 bestu og 5 verstu bókatitlana á þessu ári sem birtast í Fréttablaðinu á morgun eða næstu daga (gleymdi að spyrja...). Yours truly er í hópi hinna hæstvirtu álitsgjafa fyrir þennan háalvarlega dóm. Þarf varla að taka fram að farið var rækilega yfir kynjahlutföllin áður en listinn var sendur...

ps. trúi ekki að enginn sé búinn að kommenta á fína endurskinsmerkið sem ég gerði fyrir Umferðarstofu - þau gleymdu óvart að hafa það með!

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Prófkjör VG

Prófkjör VG er á laugardaginn. Það verður örugglega góður dagur því þá á mamma mín afmæli :) Það eru margir fyrirmyndarfemínistar að taka þátt í prófkjörinu. Mér telst svo til að það séu 10 konur í framboði en það má kjósa í 12 sæti allt í allt. Ég er að rembast við að vera hlutlaus talskona... hahaha - gengur ekki vel því ein af mínum uppáhalds konum er í framboði. Það er Guðfríður Lilja, skákdrottning með meiru. Hún er auðvitað femínisti, hrikalega klár og frábær í alla staði. Ég fer að gráta ef hún kemst ekki á þing... Svo eru fleiri af mínum uppáhalds femínistum í framboði. Bæði Kristín Tómas og Andrea Ólafs hafa verið ötular í Femínistafélaginu. Eru báðar róttækar, klárar og skemmtilegar. Svo er auðvitað Kolbrún Halldórs sem hefur verið sá þingmaður sem hefur staðið sig einna best í að koma femínískum málum að. Mæli pottþétt með henni í 1. sætið. Katrín Jakobs er líka rosaklár - þó ég viti ekki alveg ennþá hversu mikill femínisti hún er. Hún er allavega með umhverfismálin á hreinu og ég hef dáðst að henni leynt og ljóst síðan ég heyrði hana lýsa því hvernig hún hreinsar tau-kúkableiurnar sem hún notar á barnið sitt í staðinn fyrir pappableiurnar... Svo eru þarna fleiri kjarnakonur sem ég hef heyrt margt gott um en þekki ekki sjálf. Það verður greinilega úr vöndu að ráða hvernig á að velja í sætin...

Dansandi glöð og ánægð...

Búin að laga það sem fór úrskeiðis í uppfærslunni í beta blogger. Bætti inn nokkrum tengiliðum í leiðinni - sem ég er búin að vera lengi á leiðinni að setja á listann...

Nýbúin að senda pistilinn í Viðskiptablaðið. Að sjálfsögðu er hann um 16 daga átakið. Hvað annað? Er nokkuð beinskeytt í pistlinum hvað varðar þátttöku karla í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Reikna með að mörgum þeirra eigi ekki eftir að líka það vel... en ætli ég orði það bara ekki þannig að það þýðir ekkert að pakka karlkyninu inn í bómull þegar kemur að baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Þetta kemur þeim við rétt eins og okkur konunum.

Annars var Ingólfur Ásgeir með skemmtilega nálgun á málþinginu á laugardaginn. Þar viðraði hann enn og aftur þá hugmynd sína að kenna ætti börnum dans þar sem bæði kyn fá að stjórna - og vera stjórnað. Á þann hátt læra strákar að vera stjórnað af konum og konur læra að vera við stjórnvölinn. Ég hef nokkrum sinnum minnst á þessa hugmynd hans Ingólfs og yfirleitt eru undirtektir blendnar. Oft heyrist æ, látið nú eitthvað í friði. Mér finnst þetta samt bráðsmellin hugmynd, sérstaklega þar sem ég á mjög erfitt með að láta að stjórn í dansi (ok - líka á öðrum sviðum...). Einnig finnst mér þetta áhugavert í ljósi hugmynda um leiðtoga og hversu kynjað það hugtak er. Sjá til dæmis niðurstöður úr prófkjörum undanfarinna vikna þar sem "eðlilegt" þykir að kjósa karla í fyrsta sætið og konur í besta falli í næstu sæti á eftir. Þannig er kosið eftir kyni en ekki hæfni - rétt eins og í dansinum. Þar er stjórnandinn valinn eftir kyni en ekki eftir hæfni. Er eitthvað vit í því?

Bara að gamni...


mánudagur, nóvember 27, 2006

Frá konum til karla

Fór á málþingið Frá konum til karla á laugardaginn og á mótmælastöðuna fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur. Málþingin voru bæði frábær og ég skil ekki af hverju mætingin var ekki meiri. Sérstaklega finnst mér athyglisvert að þetta var auglýst sérstaklega til karla en fáir þeirra létu sjá sig. Það er auðvelt að mæla hvort kynið er að standa sig betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi - og það er ekki strákarnir. Sem betur eru þeir strákar sem láta sig málið varða þó framúrskarandi frábærir :)

Fyrra málþingið var haldið af konum. Fókusinn þar var á sektarkennd og skömm þeirra kvenna sem verða fyrir kynferðisofbeldi og mikil áhersla lögð á að þolendur verða að losna við þessar tilfinningar. Sá sem ber ábyrgð á ofbeldinu er sá sem beitir því. Sú (eða sá) sem fyrir því verður ber ekki ábyrgð á því, hefur ekkert til að vera með samviskubit yfir eða skammast sín fyrir. Sektarkenndin og skömmin eru samfélagslega tilbúin fyrirbæri og tilfinningar þolandans mótast af þeim skilaboðum sem samfélagið sendir henni (honum). Gott dæmi til dæmis fréttaflutningur af nauðgununum fyrir nokkrum vikum. Konur í öllum tilfellum einar á ferð og hún þáði far hjá ókunnugum manni. Ekki má gleyma í sumar þegar einhver bareigandinn lýsti því yfir í fjölmiðlum að konur ættu bara að hætta að þiggja glas af karlmönnum! Á Stígamótum hangir upp á vegg blað sem á standa ýmsar setningar um það sem konur eiga að hætta að gera - listinn endar á því að til að sleppa við nauðganir verði konur einfaldlega að hætta að vera til. Lestur listans setur málið vonandi í samhengi hjá þeim sem vaða í þeirri villu og svíma að það sé á ábyrgð kvenna að loka sig inni, hætta að tala við karlmenn o.s.frv. til að koma í veg fyrir að vera nauðgað. Nær væri að senda út skilaboð til þeirra sem nauðga - og þeirra sem skapa það umhverfi sem nauðganir þrífast í.

En aftur að málþinginu. Seinni hlutinn fjallaði um ábyrgð karla. Karlarnir sem sagt tóku við kyndlinum frá konum og gerðu málið að sínu. Þeir voru auðvitað æði - rétt eins og allar konurnar í málþinginu á undan. Mér fannst samt afar forvitnilegt að hlusta á sálfræðinginn sem vinnur með kynferðisbrotamönnum. Hann var með tilbúinn prófíl af þeim... sem er í andstöðu við skilaboðin sem hafa verið að koma frá Stígamótum um að þetta séu alls konar menn, í öllum stéttum þjóðfélagsins og ekki sé hægt að þekkja þá af útliti og karakter einu saman. Man ekki heildarprófílinn sem kæri sálinn skellti upp en hluti af honum var svona: 80% kynferðisbrotamanna eiga við einhvers konar geðveilu að stríða, 40-80% þeirra hafa sjálfir verið beittir kynferðisofbeldi, þeir eru feimnir og ná yfirleitt betra sambandi við börn en fullorðna. Þekkir þú einhvern svona mann???? Við vorum nokkrar að velta því fyrir okkur hvort það gæti verið að þetta ætti bara við þá menn sem eru sakfelldir - sem kannski segir okkur eitthvað um bias í dómskerfinu? Það er spurning.

Bensínælandi bíll og snilldar rökhugsun

Bíllinn hans Grétar er búinn að láta mig vita að hann kærir sig ekkert sérstaklega um að ég sé að þvælast á honum. Ætlaði að vera voða góð við hann í dag og setja á hann bensín en viðbrögðin voru þau að hann spúaði því yfir mig... Ekki gaman - og ekki vel lyktandi!

Verð að setja hér inn snilldardæmi um rökvísi. Er ekki sagt að karlmenn séu einstaklega góðir í rökhugsun á meðan við konurnar stjórnumst af tilfinningum? Hér er eitt gott dæmi - karlinn með rökin og konan ég sýndi frekar sterk tilfinningaviðbrögð þegar ég las þetta. Þið megið giska á af hvaða sort þau voru...

"Hvers vegna eru nashyrningar í Afríku í útrýmingarhættu, en ekki sauðir á Íslandi? Vegna þess að sauðirnir eru í einkaeigu. Eigendur þeirra hirða um þá, merkja sér þá, girða þá af. Enginn á hins vegar nashyrningana svo að enginn gætir þeirra."


Fréttablaðið 10. nóv 2006, bls. 30. Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

16 daga átakið að hefjast

Tíminn er svo fljótur að líða... og nú er 16 daga átakið að byrja á morgun. Hefst með morgunverðarfundi UNIFEM. Á laugardag er svo karlahópur FÍ með ráðstefnu í samvinnu við Stígamót og Bríeti. Endilega að mæta :)

Alla dagskránna er að finna hér.

"Frá Konum til Karla"
Ráðstefna um kynferðisofbeldi
Stígamót, Bríet og Karlahópur Femínistafélagsins munu halda tvenn málþing í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi

Tjarnarbíó 25. Nóvember 2006

kl 12:00-13:30 „Þær sem ekki passa sig þær eru sekar"
Konur hlaða táknræna steinvörðu – takið með steina!

kl 14:00-16:00 Málþing um ábyrgð karla í umræðunni um kynferðisofbeldi

kl 16:00-16:30 Tekið þátt í mótmælastöðu við Héraðsdóm Reykjavíkur
Gengið verður að Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg þar sem þögul mótmæli eru í gangi vegna lélegrar nýtingar á refsiramma laganna gagnvart nauðgurum.

kl 17:00-19:00 Lokaspjall
Að mótmælastöðunni lokinni er fólki boðið aftur upp í Tjarnarbíó þar sem samantekt verður gerð á málþingunum tveimur.

Boðið verður upp á veitingar og ljúfa tóna frá trúabdorunum Lay Low og Þóri

Aðgangur ókeypis.

Nánari upplýsingar og ítarlegri dagskrá má finna á http://karlarsegjanei.net/, http://www.stigamot.is og http://www.jaaframstelpur.blogspot.com

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Happy IVGLDSW Day!

Happy IVGLDSW Day!

Today is International Very Good Looking, Damn Smart Woman's Day,
So please send this message to someone you think fits this description.

And remember this motto to live by: Life should NOT be a journey to the grave with the intention of arriving safely in an attractive and well preserved body, but rather to skid in sideways, chocolate in one hand, wine in the other, body thoroughly used up, totally worn out and screaming "WOO HOO what a ride!" Have a wonderful day!

To the Girls:

Inside every older person is a younger person -- wondering what the hell happened?
-Cora Harvey Armstrong-

Inside me lives a skinny woman crying to get out. But I can usually shut the bitch up with cookies.
(Unknown)

I refuse to think of them as chin hairs. I think of them as stray eyebrows.
-Janette Barber-

A man's got to do what a man's got to do. A woman must do what he can't.
-Rhonda Hansome-

If you can't be a good example -- then you'll just have to be a horrible warning.
-Catherine-

When women are depressed they either eat or go shopping. Men invade another country.
-Elayne Boosler-

Behind every successful man is a surprised woman.
-Maryon Pearson-

Nobody can make you feel inferior without your permission.
-Eleanor Roosevelt-

Ný frænka og framboð

Ég er búin að eignast splunkunýja frænku :) Megakrútt!

Ég á eftir að uppfæra Excelskjalið mitt góða með niðurstöðum úr framboðum og hvernig staðan lítur út varðandi fjölda kk og kvk. Miðað við úrslitin stefnir í stórskandal í næstu þingkosningum. Held jafnvel að það sé kominn tími til að skora á konur að íhuga sérframboð! Held það sé eina leiðin til að eiga séns í að fjölga konum á þingi næsta vor - eða jafnvel eina leiðin til að standa í stað...

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Mikill er máttur femínista...

Be afraid - be very afraid. Datt þetta í hug þegar ég slysaðist (alveg óvart...) inn á malefnin.com. Las þar þráð um fyrrverandi rektor á Bifröst og skilst að það séu þessir helvítis femínistar sem komu því til leiðar að hann varð að segja af sér. Jamm og jæja - í stjórn skólans er ein kona og held að það sé líka ein kona sem varamaður. Hitt eru allt karlar - en helv*#%& femínistarnir hafa samt meiri völd en þeir. Jibbý - er að velta fyrir mér hvernig við getum notað öll þessi völd. Uppástungur?

Believe it or not...

...en ég er lent og ekkert flugslys! ;) Flugið heim gekk bara fínt þó veðrið hafi verið með besta móti. Ég var fegin að ég fékk lítið af fréttum af veðri út. Upplýsti alla í Finnlandi um það að veðrið á Íslandi væri bara ósköp svipað og væri þar - í kringum 0 gráður en kannski aðeins meiri vindur. Segi mér til varnar að ég hreinlega vissi ekki betur...

Er rétt að lenda og ná áttum. Er bíllaus því bíllinn minn er enn á sumardekkjum og lokaður inni af gríðarstórum snjóskafli. Hef því enga afsökun til að vera ekki afkastamikil í dag... Einhverjar hugmyndir að efni fyrir pistil??? Er reyndar að lesa gífurlega áhugaverða bók - en langar að spara efnið úr henni þangað til ég er búin að lesa hana. Bókin heitir Business, not Politics og er um markaðssetningu inn á Gay markaðinn. Mér sýnist að höfundurinn hafi gert svipaða rannsókn og ég ætla að gera fyrir MA ritgerðina mína - nema ég skoða annað sjónarhorn, þ.e. markaðssetningu til barna og unglinga.

Frábærar fréttir með að Sigríður Guðmarsdóttir (presturinn minn hér í Grafarholtinu) vann málið fyrr hæstarétti. Týpísk viðbrögð frá biskupi og einhver sagði að einhver hefði skrifað í blöðin og sagt að það væri dónalegt að lögsækja biskup! Er hann sem sagt hafinn yfir lög? Röksemdarfærsla er stundum svolítið á reiki í þessu samfélagi finnst mér... Sá sem trúir mest á guð má brjóta lögin eins og honum sýnist! Einhvern veginn ekki í þeim kristna anda sem ég hefði búist við...

föstudagur, nóvember 17, 2006

Kveðja fra Oslo

Ok - pant fá vont veður í fluginu á leiðinni heim! Nú er komin reynsla á þetta með góða verðið og vonda veðrið og það er pottþétt betra og skemmtilegra að fljúga í vondu veðri. 3 flug af 4 búin svo það fer að styttast í heimför...

Sit hér í góðu yfirlæti hjá Sóley í Osló. Loksins komin að heimsækja hana :) Kom í gærkvöldi og hér er búið að vera rosafínt. Ætlum að skella okkur í bíó í kvöld en röltum í bæinn í dag.

Það var rosagaman í Finnlandi. Mikið rosalega er Helsinki falleg borg! Námskeiðið sem ég var á var mjög áhugavert - allt öðruvísi en ég bjóst við en ég hef slatta af efni til að moða úr í framhaldinu. Námskeiðið hét Feminist Approaches to the Analyzis of Visual Cultures. Fyrsta daginn var rætt um arkitektúr, dag 2 um emotionalization og dag 3 um sexualization - hvort það væri allt slæmt eða hvort það leyndust tækifæri inn á milli. Parturinn um emotionalization innihélt mest af nýju efni fyrir mig. Eftir hádegi fyrstu 2 dagana voru workshops þar sem allar kynntu ph.d. verkefnin sín (nema ég með MA verkefnið mitt...). Verkefnin voru mjög fjölbreytt og áhugaverð, allt frá greiningu á the L-Word, pólitíkinni í kringum fæðingar, cyborgs og þar fram eftir götum. Við vorum 6 í mínum hóp og mér finnst verst að geta ekki gengið að því vísu að sjá lokaniðurstöðuna úr hverju verkefni fyrir sig... Hópurinn var mjög fjölbreyttur. Þarna voru konur frá Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Eistlandi, Rússlandi, Póllandi og svo ég Íslandi.

Sé að það er heilmikið að gerast heima. Kona má ekki skreppa burt í nokkra daga án þess að rektor segi af sér, fólk sé að skipuleggja stærri skemmdarverk en Kárahnjúka og þar fram eftir götum. Hvað er í gangi á Íslandi? Stjórnvöld minna á einhvern brjálaðan mass murderer með keðjusög í lélegri c-mynd... plís kjósið eitthvað annað í næstu kosningum!!!

By the way - einhvern tímann var L-Word til umræðu á þessu bloggi en með frekar óræðar niðurstöður. Eftir dvölina í Finnlandi er ég farin að halda töluvert upp á L-Word. Þátturinn er kannski ekki breakthrough í löndum eins og Íslandi en í Póllandi og víðar eru víst hópar af lesbíum sem taka sig saman, downloada þættinum af netinu (því hann er ekki sýndur í Póllandi) og horfa á hann saman, annaðhvort í heimahúsi eða á einhverjum bar. Þar gegnir þátturinn veigamiklu hlutverki í baráttu samkynhneigðra. Það er sem sagt ekki sama inn í hvaða aðstæðum þátturinn er veginn, metinn og gagnrýndur...

ps. KRFÍ er með vefborða inn á mbl.is sem segir: Kjósum konur. Óhætt að mæla með því :) Flott hjá KRFÍ.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Kjósa, kjósa, kjósa

Jæja, þá fer að styttast í væntanlega utanferð... það er að segja ef veðrið á eftir að batna! Búið að fresta fluginu mínu til kl. 12. Það þýðir að ég þarf ekki að vakna kl. 4 í nótt - sem er gott - en á móti kemur að ég missi líklega af upphafi fundarins sem ég er að fara á - sem er mjög vont :(

Fór í kvöld á kosningafund hjá Kristrúnu Heimis. Var búin að samþykkja að tala í 1 mín um hvað ég myndi gera ef ég mætti ráða öllu í einn dag á Íslandi. Var að hugsa um að hætta við upphaflega planið og fá að vera veðurguð í einn dag og hafa gott veður á morgun. En það dugar víst ekki! Hélt mig við upprunalegu áætlunina sem var að fylla ríkisstjórn og þing af femínistum - þannig væri hægt að láta daginn endast miklu lengur :) Gleymdi samt í restina að segja frá því að það væri alveg hægt að vinna í því að láta þetta rætast með því að kjósa femínistana núna í kosningunum ;) Ég ætla að upplýsa að ég kaus Bryndísi Ísfold, Ingibjörgu og Kristrúnu. Segi svo ekki meir - en það var erfitt að geta ekki kosið allar konurnar.

Kjósa svo!

ps. Veit ekki hvenær ég verð næst í tölvupóstsambandi svo það verður bara að koma í ljós hvenær ég næ næst að setja eitthvað skemmtilegt hér inn - eins og t.d. hvernig gekk að fljúga.... :-/

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Hvort er betra: Sól og blíða eða rok og rigning?

Mér finnst ekkert sniðugt að spá roki og leiðindaveðri áður en flughrædda konan fer að fljúga. Er einhver til í að hnippa í veðurstofuna og panta sól og blíðu?

Það er af sem áður var - að sitja í flugvél og lesa um flugslys. Útsýnisflug yfir Reykjavík í sól og blíðu með flugstjóra í síðasta fluginu sínu geta rústað svoleiðis skemmtilegheitum. Mæli sem sagt ekki með útsýnisflugum! Come to think of it - kannski er bara minni hætta á útsýnisflugi í roki og rigningu :)

Hvað ef?

Viðskiptablaðið, 8. nóv.

Hvað ef?
Hvað ef karlmenn þessa lands ákvæðu allt í einu að þeir vildu svipta konur kosningarétti, kjörgengi, fjárhagslegu sjálfstæði eða tækifæra til menntunar? Hvað ef karlmenn þessa lands ákvæðu að þeir vildu skilgreina vændi sem löglega atvinnugrein? Hvað þá? Eins og staðan er í dag er fátt sem gæti stöðvað þá. Valdið er í höndum karla, þeir eru í meirihluta á þingi, í ríkisstjórn og hæstarétti.

Konum fækkar um 2
Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að núna eru prófkjör og uppstillingar á lista í fullum gangi hjá öllum flokkum enda styttist í kosningar. Í dag eru 23 konur á þingi og 40 karlar. Ef miðað er við að fjöldi þingmanna í hverjum flokki og í hverju kjördæmi verði óbreyttur í næstu kosningum mun konum fækka um tvær miðað við úrslit prófkjara. Úrslit liggja ekki fyrir í öllum kjördæmum né hjá öllum flokkum þannig að þessi staða getur breyst og auðvitað eru allar líkur á að niðurstöður næstu kosninga verði ekki nákvæmlega þær sömu og síðast. Engu að síður er það mynstur sem er að birtast í prófkjörunum áhyggjuefni út frá jafnréttissjónarmiðum.

Á að kenna krökkum frá Vestfjörðum að sauma og krökkum frá Austfjörðum að smíða?
Sumir vilja meina að kyn skiptir ekki máli og að hæfni einstaklinganna séu aðalatriðið. Auðvitað er ekki annað hægt en að taka undir að við eigum að kjósa hæfustu einstaklingana á þing en það væri afar karlrembulegt að halda því fram að ástæðan fyrir skökku kynjahlutfalli á þingi sé vegna þess að karlar séu hæfari en konur. Þar að auki skiptir kynið meira máli en flest annað í þessu lífi. Við eigum að kjósa hæfustu konurnar og hæfustu karlana – í jöfnum kynjahlutföllum. Ef einhver er í vafa um að kyn hafi meiri áhrif á líf einstaklinga heldur en t.d. búseta mega þeir hinir sömu spyrja sig hvort að á fæðingardeildinni sé viðhaft að klæða börn í sitthvora litina eftir búsetu? Hversu margir hafa séð leikfangabæklinga þar sem dótinu er úthlutað til barna eftir búsetu? Bílar fyrir börnin frá Vestmanneyjum, puntudótið fyrir börnin frá Siglufirði, verkfærasettið fyrir börnin frá Vestfjörðum og dúkkurnar fyrir börnin frá Reykjavík. Skyldu margir Vestmanneyingar verða fyrir því að ef þeim skyldi detta í hug að verða leikskólakennarar eða hjúkrunarfræðingar þá sé hlegið að þeim? Eða þeim alltaf hrósað fyrir að vera eldklárir snillingar á meðan krökkunum frá Siglufirði er hrósað fyrir að vera dugleg, stillt og prúð? Er þörf á að setja í lög að Selfyssingar, Reyðfirðingar og Ísfirðingar eigi að fá sömu laun ef þeir vinna hlið við hlið í sama starfi? Er einhvern tímann talað um að hafa mismunandi námsskrá fyrir krakka eftir því hvaðan þau eru af landinu? Kenna öllum krökkum á Vestfjörðum að sauma en krökkunum á Reyðarfirði að smíða? Nei. Þetta er ekki raunin. Samt eru enn til þeir sem vita að búseta hefur töluverð áhrif á fólk en vill afneita þeim áhrifum sem kyn hefur þó sá munur sé mun augljósari í öllu okkar umhverfi.

Karlar á þing fyrir tilstilli kynjakvóta?
Það er sorglegt að fylgjast með hverju prófkjörinu á fætur öðru þar sem konum er hafnað og karlar raða sér í efstu og öruggu sætin. Ekki nóg með að hlutur kynjanna sé kolrangur heldur getur hæglega farið svo í komandi kosningum að einhverjir karlar komist inn fyrir tilstilli kynjakvóta. Ef Vinstrihreyfingin grænt framboð heldur áfram að vera með kynjakvóta fyrir hvert kjördæmi gæti vel farið svo að karlar komist inn fyrir tilstilli kynjakvóta í Reykjavík og þannig skekkt kynjahlutfallið á þingi enn frekar, körlum í vil.

Sigur fyrir hvern að karlar raðist í efstu sætin?
Slæm staða í jafnréttismálum kristallast ekki eingöngu í niðurstöðum prófkjara heldur einnig orðræðunni í kringum þau. Haft er eftir Björgvini G. Sigurðssyni sem vann prófkjör Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi "Mér líst afar vel á útkomuna úr prófkjörinu og er viss um að Samfylkingin nær góðum árangri í kosningunum næsta vor. Ég get ekki annað en litið á þessi úrslit sem persónulegan sigur fyrir mig og Samfylkinguna í heild." Jú, jú, persónulegi sigurinn er óumdeildur en er það sigur fyrir Samfylkinguna að karlar röðuðust í þrjú efstu sætin, kona í það fjórða og karl í það fimmta? Samfylkingin er eins og er með fjóra þingmenn í Suðurkjördæmi, þrjá karla og eina konu. Það er borin von að þar verði framför. Svipaða sögu er að segja eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Þar gekk Sigurður Kári Kristjánsson meira að segja svo langt að kenna konum um sitt slæma persónulega gengi. Sigurður Kári lenti í 8. sæti prófkjörsins og sagði "Svona spilaðist þetta bara. Það komu nokkrir nýjir inn í þetta prófkjör sem náðu góðum árangri. Ég held að það hafi kannski líka verið pressa á að kjósa konur í sæti ofarlega. Kannski hafa einhverjir liðið fyrir það." Tvær konur og fimm karlar lentu ofar á listanum en hann og honum dettur í hug að konum hafi verið hyglað en ekki körlum? Sjálfstæðisflokkurinn er eins og er með níu þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum og miðað við úrslit prófkjörsins þar sem 2 konur eru meðal níu efstu mun kynjahlutfallið hjá þeim verða óbreytt.

Verða karlarnir góðir?
"Eiga þá stelpur alltaf að þegja / og aðeins vona að strákar túlki þeirra mál?" Þetta er brot úr textanum við lagið "Hvers vegna þegjum við...?" af plötunni Áfram stelpur sem kom út 1975. Það má yfirfæra þennan texta yfir á stöðu kvenna og karla í stjórnmálum. Eiga konur bara að þegja og vera sáttar við að fá að vera memm en ekki sem helmingur valdhafa á Alþingi Íslendinga? Fjölmargar lagagreinar og aðgerðir á vegum stjórnvalda hafa mismunandi áhrif á kynin. Það skiptir máli að konur og karlar hafi sömu völd í samfélaginu. Í dag er Ísland karlaveldi þar sem karlmenn geta gert það sem þeim sýnist og við konurnar erum háðar því að karlarnir ákveði að vera góðir við okkur. Það er ekki ásættanlegt en því miður er ekki mikil von til bjartsýni fyrir komandi alþingiskosningar.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Minni á Hittið

PERSÓNUFRELSI - KYNFRELSI – FRIÐHELGI EINKALÍFS- HVERNIG ER REFSAÐ FYRIR BROT?

Hittið 7. nóv kl. 20 á Thorvaldsenbar

Allt of lengi hefur verið litið á kynbundið ofbeldi sem náttúrulögmál á Íslandi. Á allra síðustu vikum hefur þó skapast mikil umræða um þessi mál. Þá er oft litið fram hjá því að um árabil hefur ríkt neyðarástand á Íslandi. Neyðarástand vegna þess að réttarkerfið, löggjöfin og löggæslan hafa verið vanbúin til þess að taka á kynbundnu ofbeldi. Á Alþingi liggur fyrir frumvarp um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Á næsta hitti Femínistafélagsins sem haldið verður þriðjudaginn 7. nóvember kl. 20.00 á Thorvaldsenbar (Bertelstofu) skoðum við hvort frumvarpið gangi nógu langt til verndar þeim sem beitt hefur verið kynbundna ofbeldi.

Á hittinu verður einnig fjallað um hugtakið kynfrelsi, hugmyndir samfélagsins um kynhvöt karla annars vegar og kvenna hins vegar og þau tvöföldu skilaboð sem kynin fá um kynlíf, hvað sé leyft, hvað viðurkennt og hvað ekki. Síðast en ekki síst verður fjallað um friðhelgi einkalífs í tengslum við kynfrelsishugtakið.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir mannfræðingur og M.A. í kyn- og kynlífsfræðum.Karlar frá Mars og konur frá Venus? Ríkjandi orðræða um kynverund kynjanna.

Atli Gíslason, lögmaður og Jóhanna Katrín Magnúsdóttir, laganemi Mannréttindi og réttarvernd kynfrelsis.

Kyn kyn og meira kyn

Jæja þá fer að styttast í Noregs og Finnlandsför. Fer á föstudaginn... og hef alltof mikið að gera þangað til... En búin að klára sumt. Fór og kaus í prófkjöri Samfylkingarinnar í gær. Vona að ég hafi kosið rétt! Átti í stökustu vandræðum með að gera upp á milli fólksins á listanum og harðneita þess vegna að gefa upp hvað ég kaus! Bíð svo bara með í maganum eftir úrslitum. Eina sem ég gef upp er að ég kaus Ingibjörgu í fyrsta - ekki annað hægt. Varð samt ferlega spæld þegar ég kom heim og sá hana skælbrosandi yfir "sterkum" lista í Suðurkjördæmi. Listinn er karl - karl - karl - kona - karl. Veikur listi að mínu mati út af hörmulegu kynjahlutfalli og hún hefði átt að vera furious!!!

Horfði á myndina Iron Jawed Angels í síðustu viku - var horft á hana í tíma (auðvelt að vera kennari þá...). Mæli með að allir femínistar nær og fjær horfi á þessa mynd. Mæli líka með henni fyrir konur í stjórnmálum sem þurfa smá spark til að koma sér í jafnréttisbaráttu gír. Jafnrétti næst ekki með því að brosa blítt til strákanna og treysta þeim til að fara með öll völd í landinu! Ég reiknaði út hvernig staðan yrði á þingi miðað við þau úrslit prófkjara sem nú liggja fyrir en að öðru leyti óbreyttri stöðu.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Egill - taka 2

Hér kemur svarbréfið mitt til Egils - eftir póstana 4 sem hann sendi. Honum er greinilega mikið niðri fyrir. Kannski ég setji bara bréfið hans hérna líka - þetta sem hann bað mig um að senda inn á póstlistann. Það er opinbert bréf. Djö... væri nú gaman ef einhver færi svo vandlega yfir þáttinn hans með hliðsjón af frambjóðendum, kynjahlutfalli, hversu margir kk og kvk frambjóðendur koma oftar en einu sinni og hversu langan tíma þau fá. Það kom nefnilega innlegg inn á póstlistann til að véfengja aðeins þessa upptalningu hjá honum. Hann ku víst hafa gleymt nokkrum körlum...

Hér er hans bréf:

Sælt veri fólkið

Ég þarf ekki að standa upp til að mótmæla ofbeldi. Ég er á móti morðum en ég er ekki að mótmæla þeim á reglulegum basís.

Ég er alveg á móti nauðgunum. Ég vil að þeim sé fremja slíka glæpi sé komið bak við lás og slá og þeir geymdir þar lengi.

Ég er á móti stríði en ég fer ekki reglulega í mótmælagöngur gegn stríði. Ég beiti ekki sjálfur ofbeldi - finn enga hvöt hjá mér til þess - reyni að ala barnið mitt upp þannig að það fái skömm á ofbeldi.

Ég hef aldrei viljað umgangast ofbeldismenn, forða mér ef ég verð var við eitthvað slíkt.
Ég lifi lífi mínu þannig að ofbeldi á þar engan þátt. Það er besta aðferðin til að vera á móti ofbeldi.

Ekki alls fyrir löngu tók ég þátt í atriði á V-deginum. Ég var beðinn um það - gott og vel. Það var ekkert mál. Þetta er gott málefni. Myndi ábyggilega gera það aftur ef ég væri beðinn um. Væri kannski ekki viss um að það gerði mikið gagn - myndi samt vona það.

Mér finnst hins vegar að Þórunn Sveinbjarnardóttir þingkona hafi komist óheppilega að orði í grein sinni sem bar yfirskriftina "Takið ykkur á strákar". Ég fer ekki ofan af því. Að gera mig að einhvers konar kóara með nauðgunum fyrir vikið er náttúrlega fráleitt.

Það er líka allsendis ómaklegt sem kemur fram í bréfi Önnu Katrínar Guðmundsdóttur að ég hleypi ekki kvenkyns frambjóðendum í þáttinn, þvert á móti. Á sunnudag er 5. þáttur Silfurs Egils á þessum vetri, að honum meðtöldum hafa þá eftirtaldir í prófkjörum komið í þáttinn:

Anna Sigríður Guðnadóttir
Dögg Pálsdóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Þórhildur Þorleifsdóttir
Valgerður Bjarnadóttir
Ragnheiður Ríkharsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Sæunn Stefánsdóttir
Bryndís Ísfold
Ásta Möller
Helga Vala Helgadóttir
Sigríður Andersen
Kristrún Heimisdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Guðfinna Bjarnadóttir
Illugi Gunnarsson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Gísli Tryggvason
Magnús Norðdahl
Glúmur Baldvinsson
Borgar Þór Einarsson
Paul Nikolov
Árni Páll Árnason
Guðmundur Steingrímsson
Bjarni Harðarson
Ellert Schram
Árni Johnsen
Eins og sjá má eru þetta fleiri konur en karlar, það hefur beinlínis verið meðvituð ákvörðun hjá mér. Ég hef líka heldur miðað við að hleypa í þáttinn frambjóðendum sem sitja ekki á þingi, sækjast eftir sæti fremur en þeim sem eru þar fyrir.

Með bestu kveðju
Egill Helgason

Hér er mitt bréf:

Sæll Egill.

Missti því miður af símtalinu þínu. Ég las pistilinn hennar Þórunnar og ég las pistilinn þinn. Skilaboðin hennar Þórunnar eru skýr. Hún tekur skýrt fram að það sé fjarri því að allir karlmenn séu ofbeldismenn - en skorar á alla karlmenn að hefja upp raust og mótmæla. Allir sæmilega læsir menn sjá hver skilaboðin eru enda fátt að misskilja í þessu: "Takið ykkur á , strákar! Hvort sem þið eruð 16, 46 eða 76 ára gamlir, skora ég á ykkur að mómæla ofbeldi gegn konum hvar sem þið hafið tækifæri til. Það er mikið í húfi fyrir ykkur sjálfa ekki síður en eiginkonur ykkar, mæður og dætur." Minni á í þessu samhengi að rannsóknir sýna að allt að þriðjungi íslenskra kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi.

Þess vegna er pistillinn þinn eins ósanngjarn og hann getur verið þar sem þú snýrð út úr og gerir henni upp skoðanir - nokkrum dögum fyrir prófkjör. Ég ætla þér að teljast til sæmilegra læsra manna og tek því þínum pistli sem vísvitandi útúrsnúningum. Ef þú skoðar þau áhrif sem þinn pistill mun hafa þá er hann ekki til þess fallinn að styðja við málstað þeirra sem berjast gegn nauðgunum. Hann er hins vegar til þess fallinn að þagga niður í þeim og breiða út andúð gegn þeim hópi. Þú getur síðan spurt sjálfan þig að því hvaða hópi slíkt er í hag.

Baráttan gegn nauðgunum snýst um að koma ábyrgðinni þangað sem hún á heima - á gerendur. Hún snýst líka um að skoða hvað það er í samfélaginu sem gerir það að verkum að svona glæpir gerast og þrífast. Í því sambandi bendi ég þér á stórgóða grein Guðrúnar Margrétar "Af hverju nauðga karlar?" sem þú getur nálgast hér: http://www.kistan.is/efni.asp?n=2952&f=3&u=43

Það er mjög mikilvægt að karlar taki opinbera afstöðu gegn nauðgunum - og eins er það mikilvægt að karlar taki ekki afstöðu gegn þeim sem berjast gegn nauðgunum. Mér finnst mjög áhugavert að spá í af hverju í ósköpunum þú ert í svo mikilli vörn að þú stekkur upp þegar karlar eru hvattir til að mótmæla ofbeldi - er það ekki sjálfsagt mál að mótmæla? Getur líka íhugað að ástæðan fyrir því að svona margar konur eru að kalla eftir mótmælum karla eru vegna þess að opinberar raddir karla gegn ofbeldi eru svo fáar og svo lágar að þær heyrast varla. Þess vegna er synd og skömm að lesa þinn pistil - þú gætir gert svo miklu betur.

Kær kveðja
Katrín Anna
ps. búin að senda bréfið frá þér inn á póstlistann

Eftir þetta bréf fékk ég þetta frá honum:

VAR ÞETTA KOMIÐ INN Á PÓSTLISTANN? ÉG BAÐ ÞIG UM AÐ SETJA ÞETTA Á PÓSTLISTANN, MÉR FINNST ÞAÐ MIKILVÆGT. KV EGILL - og á eftir fylgdi sama bréfið og áður frá honum, þ.e. opinbera bréfið.

Ætli hann hafi vísvitandi öskrað eða bara óvart? Eins og sjá má er Egill ekki í uppáhaldi í dag. Vill einhver veðja um hvort ég poppi upp í pistli hjá honum sem source of all evil?

Egill Helga hvetur karla til að mótmæla ekki naugðunum

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifaði pistil um nauðganir þar sem hún hvetur karlmenn til að taka sig á og mótmæla nauðgunum. Hún segir:


"Karlar geta hins vegar ekki lengur setið hjá og látið konur einar um að mótmæla ofbeldinu. Sem betur fer hefur karlahópur Femínistafélagsins og Jafningjafræðslan gengið fram fyrir skjöldu og konfronterað karlana en meira þarf til.

Takið ykkur á , strákar! Hvort sem þið eruð 16, 46 eða 76 ára gamlir, skora ég á ykkur að mómæla ofbeldi gegn konum hvar sem þið hafið tækifæri til. Það er mikið í húfi fyrir ykkur sjálfa ekki síður en eiginkonur ykkar, mæður og dætur."

Þetta er meira en karlvinurinn mikli Egill Helgason þolir. Hann þolir reyndar ekki ofbeldi en svei Þórunni fyrir að hvetja karlmenn til að mótmæla ofbeldinu. Það er nú fulllangt gengið að mati Egils því honum koma þessi mál bara hreint ekki við. Egill er þar með ekki bara að halda sig við það að hleypa hér um bil eingöngu karlkyns frambjóðendum að í þáttinn sinn og hafa þannig áhrif á kynjahlutfall á þingi heldur fer hann fram fyrir skjöldu og reynir að draga úr fylgi við kvenkyns frambjóðanda. Ekki er heldur hægt að skilja pistil Egils þannig en sem hvatningu til karlmanna um að láta sig ofbeldismál engu varða - þetta er greinilega "kvennamál".

Hér eru orð Egils sjálfs:

"Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar á vef Samfylkingarinnar grein undir yfirskriftinni Takið ykkur á strákar. Hún beinir orðum sínum til okkar karlmanna - sem hóps - við verðum að taka okkur á varðandi nauðganir, segir hún.

Nú skil ég ekki alveg hvað þingkonan er að fara. Hvað á ég sammerkt með þeim mönnum sem nauðga annað en að ég er af sama kyni og þeir? Segjum nú að morðalda gangi yfir Reykjavík, myndi þá einhver hvetja mig til að "taka mig á"

Ég vil hafa skikkanlegt og friðsamlegt samfélag eins og flest fólk, karlar og konur. Ég þoli ekki ofbeldi. Ég beiti konur ekki ofbeldi. Og mér finnst hallærislegt að vera settur í sama flokk og ofbeldismenn, bara af því ég er karl."

Ok Egill - við náum skilaboðunum. Það er þinn réttur að halda áfram á sömu braut að draga úr þeim sem berjast gegn ofbeldi og skilja út á hvað málið gengur. Mundu bara að þar með ertu ekki hlutlaus heldur búinn að taka afstöðu.

Við vonum svo bara að aðrir karlmenn séu ekki svona viðkvæmir eins og Egill og þori að taka sig á og mótmæla ofbeldi!

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Árin 628 á alþingi

Varð óvænt þess heiðurs aðnjótandi að minnst var á mig á Alþingi okkar Íslendinga í dag :) Því miður átti ég heiðurinn ekki skilið - en mér var eignað að hafa reiknað út að miðað við þann gír sem við erum í núna verður launajafnrétti fyrir sömu störf ekki komið á fyrr en eftir 628 ár. Það er atvinnu- og stjórnmálahópur Femínistafélagsins sem á heiðurinn af þessari tölu og kem ég því hér með á framfæri. Hef grun um að nafnið mitt blandist inn í þetta út af þessum pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu 25. okt síðastliðinn:

628 ár í launajafnrétti
Þegar ég skrifa þennan pistil er eitt ár liðið frá Kvennafrídeginum 2005. Eitt ár frá því að 60.000 konur víðs vegar um landið lögðu niður vinnu kl. 14:08 og kröfðust þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá sömu laun og karlar fyrir sína vinnu. Eitt ár síðan ég stóð á Ingólfstorgi og hélt ræðu um hvað þyrfti að gera til að ná fram jafnrétti. Eitt ár frá því að ég var svo stressuð að ég rauk út úr húsi í óðagoti til að verða ekki of sein niður í bæ og skildi dyrnar eftir galopnar.

Hver græðir á launamun?
Baráttan fyrir launajafnrétti hefur varað í yfir 100 ár. Samt miðar okkur lítið miða áfram. Frá því 1994 hefur launamunur kynjanna minnkað úr 16% í 15,7%. Hverjum finnst þetta ásættanlegt? Miðað við tilvitnun í Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA á forsíðu Morgunblaðsins 20. október virðast hann vera sáttur við núverandi stöðu og reynir sitt besta til að afneita staðreyndum. Ef hann er trúverðugur talsmaður atvinnurekenda má túlka það sem svo að atvinnurekendur séu þeir sem álíta sig vera að græða á launamun kynjanna. Allavega virðast þeir ekki tilbúnir til að gera neitt til að leiðrétta hann heldur eru alsælir með að komast upp með að brjóta lög á hverjum degi.

Ekki hægt að tala um háleit markmið
Árið 1961 fengu atvinnurekendur sex ára aðlögunartíma til að leiðrétta launamun kynjanna. Því miður hafa stjórnvöld ekki lagt mikið á sig til að tryggja að atvinnurekendur framfylgi þeim lögum. Í fyrra sendi þáverandi félagsmálaráðherra yfirmáta kurteist bréf til atvinnurekenda þar sem þeim var vinsamlega bent á að það væri vinsælt ef þeir myndu náðarsamlegast muna eftir jafnréttislögum og kannski íhuga að draga úr launamun kynjanna. Núverandi ráðherra jafnréttismála er það nýr í starfi að enn er hægt að binda vonir við að hann grípi til róttækra aðgerða. Hann virðist þó vera á því róli að semja við atvinnurekendur um að draga hægt og rólega úr launamun og semja þannig við þá um að áframhaldandi friðhelgi frá armi laganna. Í hvaða öðrum brotaflokki tíðkast það að semja við lögbrjótanna á þann hátt að gefa þeim formlegt leyfi til að halda áfram að brjóta lögin, bara örlítið minna?

Hægvirkari en snigillinn
Atvinnu- og stjórnmálahópur Femínistafélagsins reiknaði út að miðað við núverandi hraða við að minnka launamun kynjanna munu karlar og konur njóta sömu launa fyrir sömu störf eftir 628 ár. Þessum útreikningi fylgdi áskorun á atvinnurekendur að leiðrétta launamuninn. Konur hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að ná fram sanngjörnum launum með sanngjörnum aðferðum. Konur hafa tekið kröfuna um aukna menntun alvarlega svo ekki er hægt að tala um að karlkynið sé betur menntað í dag. Konur hafa sótt ótal námskeið, beðið um launahækkanir og ítrekað sýnt kröfuna um að fá sanngjörn laun í verki. Sum stéttarfélögin hafa unnið að launajafnrétti kynjanna en þau virðast öll hafa valið mjúku leiðina. Auglýsingaherferðir, námskeið í hvernig á að bera sig að í atvinnuviðtölum og hvatning til kvenna um að biðja um launahækkun einu sinni á ári eru sýnilegustu leiðirnar.

Launaleynd eykur launamisrétti kynjanna
Á allt þetta er greinilega ekki hlustað og því miður hafa fæstar aðgerðir beinst gegn atvinnurekendum sjálfum, þrátt fyrir að lagalega skyldan hvíli á þeirra herðum og þeir hafi aðgang að öllum upplýsingum um laun kynjanna hjá sínum fyrirtækjum. Atvinnurekendur geta sótt upplýsingar og fræðslu til Jafnréttisstofu og eins er hægt að leita til Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands og ráðgjafarfyrirtækja til að reikna út launamun. Atvinnurekendur virðast ekki vera áfjáðir í að styðja aðgerðir eða leiðir sem geta dregið úr launamun. Launaleynd er til dæmis viðtekin venja hér á landi og flestir atvinnurekendur sem ég hef heyrt frá vilja halda henni. Launamunur kynjanna er hins vegar meiri hjá fyrirtækjum þar sem launaleynd ríkir, eins og fram kom í nýafstaðinni könnun sem Félagsmálaráðuneytið lét gera. Þar segir:
“Flestir töldu að launaleynd ýtti undir mismunun en 75% svarenda í Gallupvagni töldu launaleynd hafa mikil áhrif á launamun kynjanna. Niðurstöður launakönnunarinnar benda til þess að heldur meiri munur sé á launum karla og kvenna þar sem launaleynd er fyrir hendi eftir að tekið hefur verið tillit til annarra þátta.” (bls. 11)

Komum í kapp
Spurningin er hversu mikið frumkvæði ætla atvinnurekendur að hafa til að leiðrétta launamuninn? Er verið að bíða eftir að konur fari í hart og fari einfaldlega í verkfall? Sjálf verð ég hlynntari verkfalli með hverri launakönnuninni sem birtist. Það er ekki ásættanlegt að bíða í 628 ár í viðbót eftir launajafnrétti. Það er búið að þrautreyna mjúku leiðirnar. Það er búið að höfða til sanngirni, það er búið að setja lög og konur hafa uppfyllt allar kröfur sem gerðar hafa verið á þær. Því miður efast ég um að samstaða náist um kvennaverkfall akkúrat í augnablikinu en ég held að það sé vel þess virði að koma hugmyndinni í loftið og sjá til hvort hún öðlast ekki meiri vinsældir með tímanum. Kannski er líka ágætt að fara í kapp. Hvort ætli komi á undan – kvennaverkfall eða aðgerðir atvinnurekenda sjálfra til að gerast löghlýðnir borgarar?