mánudagur, janúar 15, 2007

Börnin eiga líka að púla

Nú er World Class búið að opna líkamsræktarsal fyrir börn á aldrinum 8 - 14 ára. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta ekki góð hugmynd. Það er ástæða fyrir því að líkamsræktarstöðvar eru með 16 ára aldurstakmark og hún er sú að það er skaðlegt börnum að lyfta lóðum.

Fréttakonan hjá RUV stóð sig vel í fréttum þegar hún spurði Björn í World Class hvort að þetta myndi ekki bara ýta undir útlitsdýrkun hjá börnum og auka hættuna á megrun og átröskun hjá þeim. Ég held nefnilega að það sé akkúrat málið. Án þess að gera lítið úr mikilvægi hreyfingar þá er eitthvað bogið við að senda börn á líkamsræktarstöð svo þau geti hamast á hlaupabraut og í tækjum. Þá er þetta orðið vinna en ekki leikur - og sú vinna getur alveg beðið þangað til þau eru orðin stærri. Boðskapurinn hjá Birni var sá sami og dynur á fullorðna fólki - offita. Þetta er sem sagt enn eitt innleggið í að útmála fituna sem það versta sem til er í þessum heimi og byrja nógu snemma að láta börnin berjast gegn þessum hræðilega óvini. Ég segi bara enn og aftur - það er ekki hollt. Ef börn hreyfa sig ekki nóg og borða of óhollan mat þá er lausnin að láta þau borða hollari mat og fara út að leika... Flóknara þarf það ekki að vera.

Annars bíð ég spennt eftir auglýsingum frá World Class þar sem okkur er sagt hversu auðvelt það sé að skella sér í ræktina núna því hægt sé að kippa krökkunum með og henda þeim inn í gymið fyrir börn á meðan...

Engin ummæli: