laugardagur, janúar 06, 2007

My 2 cents

Greinilega ekki búin að standa mig í blogginu undanfarna daga... fór í matarboð/partý í gær. Þangað kom rosaskemmtilegur en tímabundinn leynigestur. Samt var svo gaman að hún sat hjá okkur í 3 tíma! Það var gaman.

En hér koma my 2 sent í bili:

1. Kryddsíldin var í boði Alcan. Áðan var Nokia New Year's party í sjónvarpinu. Sýndist þetta vera tónleikar frá fleiri en einum stað í heiminum... Svona er lífið okkar - ekkert sjálfstæði heldur gerum við allt og fáum allt í boði stórfyrirtækja. Þar eru völdin. Alcan bauð til að mynda ekki bara upp á Kryddsíldina - mútur og hótanir virðast vera upp á pallborðinu þar þessa dagana. Hótun þeirra um að álverið sé of lítið athyglisvert í ljósi þess að álverið á Reyðarfirði er minna. Hvað er langt þangað til þaðan koma sömu hótanir? Það verður jafnvel enn erfiðara að standa á móti þar en í Hafnarfirði því fleiri valkostir um atvinnu eru í boði á höfuðborgarsvæðinu.

Þó svo að við höfum völdin að nafninu til sem neytendur þá erum við svo smá eitt og eitt út af fyrir sig að við skiptum ekki máli og erfitt að finna samtakamáttinn. Íslendingar boycotta t.d. sjaldnast neitt saman. Samt er ekkert erfitt að boycotta og væri enn betra ef við tækjum okkur saman um að boycotta ákveðna vöru eða þjónustu sem brýtur gegn réttlætiskennd okkar af og til. Það var t.d. ekkert mál að lifa af jólin og áramótin án jólablandsins. Á jólunum fékk ég þennan fína Ginger Life drykk - sem er rosalega góður og hollari en jólablandið. Á áramótunum féll Kveðusafinn ekki eins vel í kramið - en rauðvín, vatn og freyðivín dugði ljómandi vel og það var ekki einu sinnu pínku löngun í jólabland frá "assman" og co.

2. Er mjög svo á báðum áttum út af litlu þroskaheftu stúlkunni sem er sett í massaskurðaðgerir og hormónameðferð til að koma í veg fyrir að hún stækki. Að grunninum til finnst mér þetta verulega ógeðfellt - að vera með svona meiriháttar inngrip sem er ekki tengt heilsufarsástæðum heldur til að gera líf umönnunaraðila auðveldara. Hins vegar skil ég vel það sjónarmið að það skiptir máli að það sé auðvelt að annast hana. Hvað ef t.d. foreldrar eru bakveikir - eða verða bakveikir á að lyfta henni þegar hún er orðin stærri og þyngri? Skiljanlega er auðveldara að annast hana þegar hún er lítil og létt - og jafnvel gerlegt fyrir 1 á meðan slíkt er ekki sjálfgefið fyrir manneskju í fullri stærð. Þroskahjálp sendi frá sér yfirlýsingu þar sem þetta er fordæmt. Mig langar alveg til að taka undir það... en ég er líka alltaf meðvirk með umönnunaraðilum - það er rosalega margar siðferðislegar spurningar í kringum svona mál. Í gamla daga hefði einstaklingur með sömu fötlun varla lifað lengi. Með nútímalæknavísindum, virðingu fyrir mannslífum og skyldum foreldra til að annast börn sín þýðir þetta heavy duty umönnun í áratugi. Í meirihluta tilfella er það mamman sem tekur að sér það hlutverk. Ég man eftir mynd sem ég sá fyrir nokkrum árum. Man ekki hvað hún heitir en hún var austurlensk. Minnir að aðalsöguhetjan hafi verið munkur - sem giftist og yfirgaf síðan konuna sína eftir að hafa haldið fram hjá henni. Hún birtist honum síðan í lokin og sagði að hann hefði getað valið um að fara frá henni og börnunum og sagði að hún hefði aldrei haft þetta val. Hana hefði stundum langað til að labba bara í burtu en kona getur ekki farið frá börnunum. Val hennar er sem sagt minna. Nú er ég ekki að segja að foreldrum langi til að yfirgefa börnin sín - en sumum langar til þess að losna undan ábyrðginni og skyldunum og þá er klárt mál að það er samfélagaslega viðurkenndarar fyrir karla en konur. Á móti kemur að mæðrarétturinn er sterkari - sem kemur mörgum konum vel.

Allavega - mér finnst þetta ekki klippt og skorið.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég eiginlega veit ekkert hvað mér á að finnast um þetta fyrra mál. En þú komst inná svolítið í seinna málinu sem ég hef verið að spá mikið í.

Ég hef verið að vellta svolítið fyrir mér orsök og afleiðingu frá feminisku sjónarmiði. Í feminismanum virðist þetta vera grundvallarformúla, sem er eðlilegt. Stundum er farið ansi langt til að tengja orsök og afleiðingu og stundum er það rökrétt.

Ég hef verið að spá svolítið í móðurhlutverkið og hlutverk feðra. Nú er móðurrétturinn meiri en réttur feðra í forsjámálum. Er ekki hægt að segja það að á meðan æðsti dómstóll Íslands skilgreinir mæður sem mikilvægari foreldrið sé það í raun að skapa hlutverk? Í langflestum tilfellum er það móðirin sem fer með forsjá barna og faðirinn "greiðir fyrir það" (allt réttlátt við það og mætti vera mun hærri peningur). Semsagt eftir skilnað er það hlutverk konunar að ala barnið en hlutverk karla að vinna til að geta nú borgað meðlagið. Allavega ef við horfum bara á þetta útfrá því sem dómkerfið gefur í skyn.

Nú er semsagt æðsta vald landsins búið að ákveða að hlutverk konunar sé að vera ummönnunaraðili á meðan karlinn hefur þá skildu að greiða peninga.

Nú getum við horft á hvernig þetta leiðir út í samfélagið. Ef við byrjum á börnunum og horfum á hvernig þau leika sér. Stelpur velja leik sem snýst yfirleitt um umönnun. Þær leika sér með litlar dúkkur og eru í hlutverki ummönnunaraðila og þær velja að vera í hlutverki hjúkrunarkonu og allt er tengist ummönnun. Strákarnir hinsvegar velja að leika sér með vörubíla, gröfur og allskyns tól og tæki, og þeir eru þá frekar löggur vs hjúkrunarkonur. Gæti þetta kannski stafað af því að löggjafarvaldið er búið að ákveða hlutverkin?

Þetta heldur að sjálfsögðu áfram á fullorðinsárunum. Konur og karlar halda áfram lögboðnum hlutverkum sínum. Konurnar annast karlinn og börnin á meðan karlinn hefur það lögboðna hlutverk að færa björg í bú. Hlutverkin snúast nær aldrei við.

Þetta veldur því að fyrst það er búið að skilgreina hlutverkin á þennan veg er staða karlsins á vinnumarkaðnum sterkari fyrir vikið. Það er nánast alveg sama hvað gengur á í fjölskyldulífinu þá er alltaf hlutverk karlmannsins að vera á vinnumarkaðnum. Hins vegar er staða kvenna á vinnumarkaðnum miklu meira háðari aðstæðum. Ef barnið veikist, hver er þá með hlutverk umönnunaraðila? Jú konurnar. Ef skilnaður á sér stað hver er þá með hlutverk umönnunaraðila? Jú konan. Þannig að á meðan æðsta vald Íslands skilgreinir hlutverk kynjanna mun það hafa áhrif út í samfélagið og viðhalda ójafnréttinu.

Það er því þetta mál sem mér finnst vera lykilatriði í jafnréttismálum. Konur auðvitað líta á það sem svo að þær séu að græða á því að hafa forgjöf fyrir dómstólum. En í raun og veru er þessi forgjöf að eyðileggja svo margfallt meira en þær eru að græða. Með þessu sér það sem þú kallar "karlaveldið" hag sinn í að hafa þetta svona. En á meðan konur sjá hag sinn líka í að hafa þetta svona er búið að tryggja ójafna stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Mér fannst t.a.m mjög gott move að tryggja fæðingaorlof karla. Það varð til þess að nú er félagsmálakerfið allavega ekki með jafn skýra hlutverkastefnu. Þetta ætti því að skoðast á sömu forsendum.

katrín anna sagði...

Margt til í þessu - nema reyndar að dómskerfið er ekki þannig að réttur mæðra sé mikið meiri þar. Ingólfur V. Gíslason gerði rannsókn þar sem teknar voru saman allar niðurstöður úr forsjármálum. Niðurstaðan var sú að feðrum var veitt forræði í 40% tilfella. Þeir standa því ekki eins illa fyrir vígi gagnvart lögum eins og flestir halda.

Hins vegar er það alveg rétt að í flestum tilfellum er móðirin aðalforsjáraðilinn. Samfélagsleg mótun er gífurlega sterk hvað varðar þessa hlutverkaskiptingu kynjanna og ég hef t.d. oft gagnrýnt barnaleikföng og þá kynjaskiptingu sem er þar. Í þeim er enginn undirbúningur fyrir stráka að verða feður. Þessu ætti að vera auðvelt að breyta en það furðulegasta er að margir stökkva upp á nef sér og segja að strákar eigi að fá að vera strákar - í hverju það svo sem felst. Við veljum leiki og leikföng fyrir börnin út frá kyni og þar með beinum við þeim í ákveðnar áttir á fullorðinsárum.

Nafnlaus sagði...

Nú er þessi niðurstaða mjög villandi og nánast með öllu marklaus í þessu samhengi. Það sem ber að horfa á í þessu samhengi eru þeir dómar sem eru fordæmisgefandi. Þegar karlmaður ætlar að sækja forsjá fer á stað ákveðinn prósess. Hann fer til lögfræðings og ráðleggur sig við hann. Lögfræðingurinn skoðar mál hans og reynir að sjá hvort það sé til dómur sem er fordæmisgefandi fyrir niðurstöðuna. Ef að báðir aðilar eru færir um að sjá um uppeldið veit hann að móðirin nýtur ákveðins mæðraréttar. Lögfræðingurinn vill ekki taka að sér mál sem er með fyrirfram gefnu tapi og faðirinn vill ekki leggja undir stórfjárhæðir í kostnað ef hann veit að hann tapar.

Við getum því orðað það sem svo að faðirinn þarf að hafa mjög sterka stöðu til þess að geta átt von um sigur í dómskerfinu. Staða hans þarf að vera sterkari forskotinu sem móðirin hefur í dómskerfinu. Þess vegna getum við sagt að í þeim málum þar sem faðirinn hefur sterki stöðu en móðirin mun hann samt tapa í 60% tilvika.

Það er þessvegna sem samtök feðra eru að reyna hamra á því að réttarstaða þeirra sé ójöfn á við móðurina. En í feminísku samhengi er þetta ekki síður háalvarlegt mál. Því eins og ég segi er löggjafinn að skapa þessi hlutverk karla og kvenna.

Á meðan löggjafinn skapar þessi hlutverk er eðlilegt að þeir sem eru í þessum hlutverkum finnsist fáránlegt að leyfa ekki strákum að vera strákum. Því staða karlmannsins er fyrirfram ákveðin af æðsta valdi Íslands.

katrín anna sagði...

Þetta er nú aðeins flóknara en það. Eins og fram kom þá eru dómarnir 40/60 - ekki hægt að gera dómurum upp hvernig þeir myndu dæma ef málin væru fleiri.

Það er töluverð mikil andstaða hjá karlmönnum sjálfum að skipta um hlutverk, bæði í þessu og mörgu öðru. Konur hafa t.d. sótt mun meira inn á hefðbundin karlasvið heldur en karlar inn á hefðbundin kvennasvið.

Nafnlaus sagði...

Sko það myndi engu breyta hvort dómarnir væru fleirri eða færri. Það er ekki það sem skiptir máli. Ef það hefur verið dæmt í máli þar sem forsendur eru þær sömu, telst dómsúrskurðurinn fordæmisgefandi.

Það er þannig að ef báðir aðilar eru jafn hæfir til að ala barnið, þá á ég við út frá ytri aðstæðum, þá fær móðirin forræðið. Það viðurkenna allir. Jafnvel dómarar í hæstarétti hafa sagt að í forsjámálum sé ekki jafnræði með kynjunum.

Ef dómur kemst að því að aðilar eru jafn hæfir til að ala upp barn getur dómurinn ekki látið forræðið í hendur föðursins. Það myndi brjóta gegn fordæmi annara dóma og því er það ógerlegt.

Þess vegna segji ég að það sé vissulega og án nokkurs vafa ákveðinn "mæðraréttur". Hann er þó ekki skrifaður í neinar lagabækur. Mér langar að benda þér á að lesa athyglisverða grein sem byrtist á vefsíðu fáf http://www.abyrgirfedur.is/displayer.asp?page=215&Article_ID=314&NWS=NWS&ap=NewsDetail.asp&p=ASP\~Pg215.asp

Það kemur mér svolítið á óvart að þú skulir ekki hafa vitað af þessu ójafnrétti. Það var t.a.m fyrir kannski 5-7 árum að hæstaréttarlögmaður sagði í fjölmiðlum frá því að það væri svona óskrifuð meiginregla að kona fengi forsjá í forsjármálum. Það myndaðist töluverð umræða og nú fyrir stuttu var aftur töluverð umræða um þetta þar sem alþingi fór með mál þess efnis að það yrði fest í lög að meiginreglan í forsjármálum yrði sameiginlegt forræði. En hún tryggir að sjálfsögðu samt ekki jafna stöðu kynjanna ef sú lausn gengur ekki upp.

Feður hafa kvartað mikið undan því að þeim hafi verið bent á það af lögmönnum að sækja ekki forsjámál nema geta sýnt fram á að móðirin sé í raun vanhæf í uppeldi. Lagaumhverfið er þeim ekki hliðhollt. Það kann að skýra það að miklu leyti af hverju feður sækja ekki forsjármál.

katrín anna sagði...

Það er í sjálfu sér hvorki óeðlilegt né skrýtið að mæður njóti meiri réttar þegar staðan er sú að þær sitja uppi með megnið af ábyrgðinni. Til að ná fram jafnrétti eftir skilnað þarf jafnrétti fyrir skilnað að vera til staðar. Mér þætti í hæsta máta óeðlilegt að kona sem hefur gengið með barn í 9 mánuði, vera heima 6 mánuði af fæðingarorlofinu og jafnvel lengur, unnið styttri vinnudag til að hugsa um börnin (þ.e. fórnað starfsframanum og tekjumöguleikum), farið með börnin til læknis, fylgst með heimanáminum, mætt á foreldrafundi, verslað föt á barnið og þar fram eftir götum ætti svo allt í einu að vera í þeirri stöðu við skilnað að foreldrar séu álitnir eiga sama tilkall til forræðis.

Týpískt feðraveldi væri við þær aðstæður ef við fæðingu barns tekur mamman að sér alla umönnun en við skilnað getur faðirinn ráðið hvort hann tekur barnið með sér eða skilur það eftir. Það væri ekki sanngjarnt.

Hins vegar ef báðir foreldrar skipta á milli sín umönnun og axla jafna ábyrgð á uppeldinu jafnframt þá er komin allt önnur staða upp og þá er eðlilegt að kynin sitji við sama borð. Þess vegna finnst mér krúsíalt í baráttu feðra fyrir auknum rétti eftir skilnað - að jöfn ábyrgð fyrir skilnað fylgi með í pakkanum. Reyndar er ég fullviss um að þegar sú staða er komin upp að fólk nái jafnrétti í samböndum þá fækki skilnuðum líka þannig að færri feður verða í þessari stöðu...

Nafnlaus sagði...

Þá erum við komin með umræðuna um eggið og hænuna. Ég var alls ekki að nálgast þetta mál á þeim forsendum að karlar búi við ójafnrétti í réttarkerfinu, þó ég hafi nefnt það til útskýringar.

Hvað verður til þess að þessi ábyrgð sem þú taldir upp er nánast alltaf í höndum konunar en ekki karlsins? Það er það sem málið snýst um. Ég vill meina að á meðan réttarkerfið er þannig að það skilgreinir hlutverkin þannig að móðirin sé umönnunaraðilinn og karlinn fyrirvinnan mun þessi ábyrgð sjálfkrafa falla á hendur konunni.

Af hverju er karlinn alltaf útivinnandi á meðan konan þarf að fórna starfsframanum fyrir börnin? Gæti það kannski stafað af þeirri ástæðu að það er búið að skilgreina hlutverkin? Gæti það verið vegna þess að æðsta vald Íslands er búið að gefa skýr skilaboð um hvert hlutverk kynjana eru? Konan á að annast börnin því hlutverk konunar er umönnunarstörf. Karlinn á að greiða henni peninga því hlutverk karlsins á að vera að vinna og búa til peninga. Þannig eru hlutverkin og ég vill meina að réttarkerfið sé ábyrgt fyrir þessu.

Það má líka eins og ég sagði færa þetta út í hvað kemur fyrst? Er löggjafinn svona vegna þess að hlutverkin eru svona, eða eru hlutverkin svona af því að löggjafinn er svona.

Það er deginum ljósara í mínum huga að minni afskipti feðra af uppeldi sé tilkomið vegna hlutverka. Ég sé strax mikil áhrif af feðraorlofinu og það finnst mér hafa verið skref í rétta átt.

Auðvitað hefði verið alveg réttlátt að konur fengju lengra fæðingaorlof en karlar, rétt eins og það þykir eðlilegt að konur fái forræðið. Þau rök að konan þarf að ganga með barnið í 9 mán. og svo eftir fæðingu að sinna brjóstagjöf eru næg til að réttlæta lengra fæðingaorlof kvenna. Við vitum hinsvegar að þá hefði það ekki skilað tilsettum árangri.

Mér finnst þá rökin fyrir því að konur eigi meiri rétt á forræði vegna þess að þær gengu með börnin og voru lengur heima með börnin eftir fæðingu ekki ganga upp í þessu tilviki. Þetta tvennt feðraorlof og forsjármál eru því mótsögn við hvort annað.

En forsjárdeilur eru að sjálfsögðu það alversta sem fráskilin hjón geta gert gagnvart börnum sínum. Því er auðvita sameiginleg forsjá besti kosturinn komi hjón sér saman um það fyrirkomulag.

Nafnlaus sagði...

ps'
... og auðvitað ber ekki æðsta vald Íslands eitt og sér alla ábyrgð á þessum hlutverkum. En hann svo sannarlega viðheldur þeim.

katrín anna sagði...

Ég held að fólk sé ekki með dóma í forsjármálum í huga þegar verkaskiptinging ræðst í upphafi. Hlutverkin eru samfélagslega skilgreind og aðeins lítill hluti kemur úr dómskerfinu - eða frá hinu opinbera. Heimgreiðslur sem Kópavogur og Reykjanes tóku upp og Framsókn var með á stefnuskrá sinni er skref í ranga átt - handaflsaðgerð stjórnvalda til að koma konum inn á heimilið.

Dúkkur og alls kyns eldhúsdót fyrir stelpur og skortur á þeim fyrir stráka er partur af prógrammet. Það að sjálfsmynd karla sé svo nátengd því hvað þeir vinna og hvað þeir fá í launaumslagið, vanmat á uppeldisstörfum og þar fram eftir götum, leggur allt sitt af mörkum. Ef feður vilja auka sína ábyrgð á uppeldi - fyrir og eftir skilnað er eitt af því besta sem þeir geta gert að vinna styttri vinnudag, sjá meira um börnin og krefjast þess að fá að skúra, skrúbba og bóna!

katrín anna sagði...

ps. já æðsta valdið leggur sitt af mörkun - en verkaskiptingin byrjar áður en æðsta valdið byrjar að skipta sér af!

Nafnlaus sagði...

Nei ég átti heldur alls ekki við að þegar fólk byrjar sambúð skoði það verkaskiptingu með hliðsjón af dómum í forsjármálum á Íslandi. Þetta ásamt mörgu öðru heldur boðskap um hlutverk sem síast inn ómeðvitað. Skilaboðin eru send með óbeinum hætti inn í samfélagið. Þessi þrýstingur á að konan sjái um umönnunarstörf eru til komin vegna þess að samfélagið gerir óbeint þá kröfu. Mér finnst mjög skýr skilaboð sem réttarkerfið setur.

Þetta er kannski ekki stærsti áróðurinn í að viðhalda hlutverkum. En ef yfirvaldið spornar gegn þessum hlutverkum er það að senda skilaboð út í samfélagið. Mæður fara þá kannski að hætta að undibúa dætur sínar fyrir lífið með því að láta þær hafa dúkkur og svona því í raun myndi umönnunarhlutverkið vera jafnt ætlað körlum sem konum. En í dag ætlar yfirvaldið konum það hlutverk að sinna börnunum, sem þær og gera.

Varðandi það síðasta þá er það eins og ég segi umræða um hvað kemur fyrst. Eru lögin svona vegna hlutverkanna eða eru hlutverkin svona af því að m.a æðstavaldið hefur þetta svona. Myndu karlar vinna styttri vinnudag og skúra og bóna ef þeir vissu að ef skilnaður yrði ættu þeir sama tilkall til barnanna? Það held ég. Þeir vilja frekar leggja aðaláherslu á það hlutverk sem þeim er ætlað ef skilnaður á sér stað.

Í raun held ég að það sé miklu auðveldara að breyta lögum en heilu samfélagi. Með því að breyta þessari meginreglu held ég að það verði hugarfarsbreyting í samfélaginu og samfélagið fylgir. En það eitt og sér er ekki nóg, rétt eins og feðraorlofið eitt og sér er ekki nóg í þessari baráttu. En því fleirri forsendur fyrir hlutverkunum sem hverfa því ótraustari verða þessi hlutverkaskipting.

katrín anna sagði...

Ertu ekki að grínast????? ;) Ég held það væri mjög varasamt að fara að deila út forræði eftir einhverju öðru heldur en hver hefur séð um umönnunina. Eins og kom fram áðan þá fá karlar forræði í 40% tilfella mála sem fara fyrir dómstóla. Það þarf því ekki miklar breytingar þar. Á öðrum stigum þarf að stíga varlega til jarðar. Það væri partur af bakslagi ef konur þurfa að horfa upp á það að þær séu aðalumönnunaraðilar barnanna, axla ábyrgðina, gefa starfsframann upp á bátinn og svo geti faðirinn bara ákveðið hvernig hann vill hafa hlutina eftir skilnað upp á sitt einsdæmi - tekið börnin ef hann vill, skilið þau eftir ef hann vill. Þetta væri ekki framför í jafnréttisátt heldur bakslag í átt til feðraveldis. Konur fengu ekki forræði yfir börnum sínum fyrr en eftir aldamótin 1900 þannig að þessi réttur er nýtilkominn. Reyndar þekki ég ekki lögin og er alls ekki viss um að mæður hafi eitthvað sterkari rétt í lagabókstafnum.

Eins og ég sagði áður. Feður þurfa að byrja á því að axla ábyrgðina jafnt heima fyrir frá degi 1.

kókó sagði...

Er móðurrétturinn sterkari?
Skv. lögum hafa báðir foreldrar framfærsluskyldu með börnum sínum og ég get alveg fullyrt að mín framfærsla er þyngri en föðurins. Ég borga íbúðarlán af stærri íbúð en ella. Ég hef minni möguleika á aukavinnu/yfirvinnu þar sem ég sæki barnið alltaf á ákveðnum tíma.

Unknown sagði...

Mér finnst umræðan af hálfu Félags ábyrgra feðra oft vera á of neikvæðum nótum og gefist upp fyrirfram. Það er staðreynd að úrskurðir falla í 40% tilvika feðrum í vil, þegar þeir sækjast eftir forræði. En ef menn ákveða fyrirfram að það þýði ekki að sækja um forræðið nema þeir hafi eitthvað sérstakt fram yfir móðurina, þá fá þeir auðvitað ekki forræðið.

Þetta er svipað og að segja konum að það þýði ekki fyrir þær að sækja um yfirmannsstöður, af því að karlmenn fái þær í meirihluta tilvika, nema konan hafi eitthvað mikið fram yfir karlkyns umsækjendur.

Vissulega er það rétt að karlar hafa eitthvað forskot á vinnumarkaði og konur hafa eitthvað forskot í forsjármálum. En ef fólk sækir ekki rétt sinn og sækir ekki um, fær það heldur ekkert.

En það er rétt að samfélagið viðheldur þeirri hugmynd að konur eigi fyrst og fremst að sjá um börnin og karlmenn eigi að afla peninga. Ég þekki dæmi um t.d. leikskólastarfsmenn sem hringja alltaf í mömmuna þó að símanúmer beggja foreldra hafi verið gefin upp, og atvinnurekendur sem hafa það leynt og ljóst sem stefnu að borga körlum hærri laun en konum. Það er erfitt að breyta ríkjandi viðhorfum í samfélaginu og gerist ekki á einni nóttu.