fimmtudagur, janúar 11, 2007

Þingsæti á 2 millur

Ég hlustaði agndofa á fréttir í gær þar sem sagt var frá því að einn frambjóðandi í prófkjöri Framsóknarflokksins í NA kjördæmi ætlaði að greiða Framsókn 2 milljónir ef hann næði 3ja sæti á lista. Hann þvertekur fyrir að um mútur sé að ræða en tekur skýrt fram að "gjöfin" sé skilyrt við að hann nái 3. sætinu.

Í mínum bókum heitir þetta mútur. Það athyglisverða er að sérfræðingurinn sem rætt var við í fréttum þorði ekki að taka sterkar til máls en að segja að þetta væri á gráu svæði... Ég er svo búin að bíða spennt eftir viðbrögðum frá Framsókn í dag. Eitthvað hljóta þau nú að segja... Ég sé að Björn Ingi er búinn að blogga um málið en hann kallar þetta verulega vonda hugmynd. Á að láta þar við sitja? Ég trúi ekki að Framsókn gangi til prófkjörs með þetta "kosningaloforð" í loftinu. Þetta á að taka fyrir - flokkurinn getur ekki verið þekktur fyrir það að hægt sé að kaupa sér þingsæti fyrir skitnar 2 millur! Framsókn er núna með 4 þingmenn í kjördæminu. Þar fyrir utan - vill Framsókn fá mann á þing sem ekki sér að tveggja milljón króna greiðsla fyrir þingsæti er mútur?

Það skýrist alltaf betur og betur hvers vegna sagt er að það sé svona lítil spilling á Íslandi - hér er spillingin framkvæmd fyrir opnum tjöldum og kölluð frelsi til að gera það sem manni sýnist...

ps. Ég sé að Silja er heldur ekki hrifin.

3 ummæli:

Silja Bára sagði...

ég sá svo í fréttunum á Stöð2 í kvöld að hann ætlar að borga þetta af þingfararkaupi sínu - þ.e. hann borgar þetta bara ef hann kemst á þing! Mér finnst þetta góð ástæða til að kjósa ekki framsókn í vor og er verulega svekkt með Valgerði að fordæma þetta ekki.

Fatima sagði...

a) Einhvernveginn finnst mér Ísland krystallast í Framsóknarflokknum á svo margan hátt...

b) til hamingju með afmælið um daginn

c) hvernig tókst okkur að hittast bara í 35 sek. um jólin?? Skandall...

katrín anna sagði...

a) Úff já.... Það var hrikalegt að heyra í Valgerði í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hún sagði að allir ættu rétt á sínum skoðunum! Ég skil heldur ekki að RUV skuli ekki hafa tekið þetta upp. Hef ekki séð neitt um þetta í fréttum þar og svo heyrði ég umræður í Morgunútvarpinu í morgun þar sem farið var yfir lista Framsóknar í NA, talið upp hverjir væru líklegir til að ná sætum á listanum o.s.frv. - en ekki minnst orði á þetta. Ég skil þetta ekki því mér finnst það svo gróf aðför að lýðræðinu ef það er látið óátalið að fólk geti keypt sér þingsæti!

b) Takk

c) Held það sé vegna þess að þú stakkst af ;) Þegar ég kom tilbaka með matinn minn varst þú bara farin. Hvenær kemurðu heim næst? Er ekki tilvalið að skella okkur í kaffi þá?