þriðjudagur, janúar 02, 2007

Ertu að spá í megrun eftir jólasukkið?

Ef já - Hér er mín tilraun til að tala þig ofan af því... Birtist í Fréttablaðinu 27. des á síðasta ári.

Ef nei - sjúkkit...

Heilsuspillandi barátta
Það er til siðs að borða yfir sig á jólunum, fá samviskubit eftir jólin og byrja strax að plana megrun. Líkamsræktarstöðvarnar taka þátt og bjóða alls kyns tilboð á nýju ári og reglulega birtast fréttir um það sem sagt er vera mesta ógn hins vestræna heims – offituna. Okkur er sagt að fitan sé eitthvað sem við eigum að óttast og grípa til allra tiltækra ráða til að gera hana brottræka úr samfélaginu. Ég vil hins vegar beina sjónum frá fitunni á þeirri forsendu að sú umræða og forvarnir sem gripið er til séu óheilsusamlegar. Þau skilaboð að fitan sé slæm gera fátt annað en að búa til fordóma og óhóflegan þrýsting á fólk að vera ofurgrannt.

Með þessu er ég ekki að segja að það sem er að gerast í hinum vestræna heim varðandi óhollustu og tilheyrandi sjúkdóma sé ekki vandamál. Það er eitthvað að gerast hér sem við þurfum að berjast gegn. Með því að einblína á fituna sem óvin leysum við hins vegar ekki vandamálið heldur búum til nýtt. Höfuðáherslan hjá mörgum verður að losna við fituna með öllum tiltækum ráðum. Gallinn við fituna er að hún er sýnileg og þar með heldur fólk að það sé komið með mælikvarða á heilbrigði. Saman-sem-merki er sett á milli þess að vera grannur og heilsuhraustur og að sama skapi eru aukakíló og heilsuleysi sett undir sama hatt. Þessi mælikvarði er hins vegar ekki marktækur en verður mörgum leiðarljós.

Baráttan gegn fitunni leiðir til alls kyns óhollustu. Meðal afleiðinga eru sífelldir megrunarkúrar, átröskunarsjúkdómar og matur verður að óvini sem er elskaður og hataður til skiptis. Konur verða sérstaklega illa úti varðandi fitufordómana þar sem kynþokki þeirra er mældur út frá stífum útlitsstöðlum þar sem viðmiðið er svo strangt að konur í kjörþyngd eru oft á tíðum álitnar of þungar. Baráttan við fituna verður ærið vonlaus þegar markmiðin eru ekki einu sinni raunhæf.

Samspilið á milli fitufordóma, staðalímynda, heilsu og baráttunnar gegn offitu er flókið. Það er samt hægt að draga þá ályktun að baráttan fyrir grennri heimi sé heilsuspillandi því kílóafjöldi er ekki mælikvarði á heilsu.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hvet allar konur og karla sem þurfa að létta sig, þurfa að styrkja sig, vilja líða betur eða í raun hvað sem er að að drífa sig í líkamsrækt. Ef konur setja sér þau markmið að líta út eins og Madonna, Tina Turner, Oprah, Sirrý, Vigdís Finnbogadóttir eða Sólveig Pétursdóttir þá er það bara frábært, alveg jafn frábært og ef strákar setja sér þau markmið að líta út eins og Beckham, Friðrik Sófusson, Kennedy, Páll Magnússon eða Björn Ingi eftir að hafa tekið á því í ræktinni eftir lengri eða skemmri tíma. Þá hafa viðkomandi einstaklinga amk. að einhverju að keppa.

Að setja þetta upp í einhverskonar varnarstöðu eins og er gert hér er náttúrlega bara sorglegt eins og svo margt sem kemur frá blessuðum femínistunum.

Munið bara að það eru engar afsakanir fyrir því að drífa sig ekki í ræktina og ná árangri en til þess þarf maður aga, aga og aftur aga. Hugurinn ber þig aðeins hálfa leið, munum það.

Kveðja,
Ingi Bragason.

katrín anna sagði...

Ég hins vegar vil hvetja alla til að hreyfa sig og borða hollan mat - bara sem part af heilbrigðum lífsstíl óháð kílóafjölda. Passa sig á að fara ekki í megrun - sem er bæði heilsuspillandi og fitandu... Sérstaklega er mikilvægt að taka ekki inn á sig þrýstingin um að vera undir kjörþyngd.

Og auðvitað er það sem kemur frá femínistunum alltaf það sem mesta vitið er í ;)

Nafnlaus sagði...

Þetta er eins rangt og það verður Katrín. Megrun og svelti er ekki það sama. Það að fara í ræktina borða heilbrigt og lifa heilbrigt eru hjá mörgum leiðir til megrunar, þannig að ætla að segja fólki að fara ekki í megrun er svipað og að mæla með óhóflegri drykkju því það stoði ekkert að hætta því.
Pressan á konur er alveg jafn mikil og á karlmenn í að halda fituni af sér til að viðhalda kynþokka, þar sem ætlast er til þess að bæði kynin séu grindhoruð til þess að líta vel út.
Það er hinsvegar mikilvægt fyrir fólk sem vill leggja af og missa fitu að borða nóg, því ef líkaminn er svelltur heldur hann í fituna.
Það er hægt að vera með einhverja fitu og vera samt heilsuhraustur, en það er ekkert að því að vilja líta út á einhvern hátt einn eða annan.
Fólk á fyrst og fremst að hreifa sig, forðast viðbættan sykur, borða ca 50% kolvetni 30% prótein og 20% fitu. Og hreyfa sig. Það er engar skyndilausnir til, en ég hvet alla til að halda sér vel við, líkamlega og andlega.
PS. mæli með að feministar haldi sig við að vinna að jafnrétti, ekki heilbrigði í þjóðfélaginu.

katrín anna sagði...

Heilsa kvenna og heilbrigðismál almennt eru háfemínísk málefni.

Megrun er heilsuspillandi - segi það og skrifa!!!! Það er mjög óhollt fyrir líkamann að sveiflast oft til í þyngd. Það eru til rannsóknir um áhrif þess á heilsu - og þær benda einmitt á að það er ekki fitan sem er orsakavaldurinn að heilsuvandamálunum. Eins er sífellt tal um fitu - að bendla hana við agaleysi, skort á sjálfsstjórn, heilsuleysi og þar fram eftir götum - þess valdandi að búa til fitufordóma og gera baráttunni fyrir bættri heilsu enn erfiðari. Eins og ég sagði í pistlinum þá er fita eða fituleysi ekki sá mælikvarði sem við eigum að nota til að dæma heilsu fólks.

Megrun er algjörlega óþörf í baráttu fyrir bættri heilsu og, eins og ég segi hreinlega heilsuspillandi. Mun betra er fyrir fólk að huga hreinlega að heilsunni og láta allar pælingar um kílóafjölda lönd og leið. Í því felst að borða hollt í hæfilegu magni og hreyfa sig nóg. Annað þarf ekki að gera. Um leið og baráttan fer að snúast um útlit, kílóafjölda og þess háttar verður heilsan aukaatriði. Þá er fókusinn ekki á rétta matinn heldur rétta magnið - og alls konar kúra eins og Herbalife, Atkins og þar fram eftir götum. Ef fólk er fylgjandi þessu "thin ideal" sem nú tröllríður öllu er líka hætta á að það að vera í kjörþyngd þyki hreinlega vera of feitt og fólki líðar illa - ekki heilsunnar vegna heldur útlitsins vegna. Þá er stutt í skyndilausninar, að borða of lítið, að borða of einhæft, að borða of mikið og þar fram eftir götum.

Ef fólk vill einbeita sér að heilsunni þá er heldur alls ekki nóg að tala um prótein, kolvetni og fitu... í ákveðnum hlutföllum. Líka þarf að tala um aukaefni, vinnsluaðferðir matvæla og fleira.

Nafnlaus sagði...

Þessi pistill þinn á jafn um bæði kynin þannig að ég sé ekki feminisman í honum.
Það er ekkert óholt við megrun ef hún er framkvæmd rétt og það að segja að fitumagn líkamans skifti ekki máli er rugl frá a til ö. Hún er hins vegar ekki aðalatriði. Og það að borða rétt og hreifa sig eins og þú talar um er MEGRUN á sinn hátt.
Skyndilausnir eru og verða óhollar.
Ég segi það aftur, haltu þig við það sem þú hefur vit á, ekki halda að þú vitir allt.

katrín anna sagði...

Það vill svo til að þetta er akkúrat eitt af þeim málum sem ég hef vit á. :) Hvað með þig - hefur þú vit á öllu eða blaðrar bara um hvað sem er?

Nafnlaus sagði...

Þú virðist amsk ekki hafa mikið vit á þessu miðað við þenna pistil og það sem á eftir honum hefur komið hjá þér.
Ég hef verið í líkamsrækt og íþróttum stærstan hluta af minni æfi, og hef tekið mörg námskeið og séráfanga í framhaldskóla fyrir þetta. Ég hef verið í einkarekstri með fæðubótarefni og heilsuvörur, og hef tekið að mér þjálfanir á einstaklingum. Já ég tel mig vita um hvað ég er að tala.

katrín anna sagði...

Jamm og hvað hefurðu tekið mikið um útlits- og æskudýrkun, áhrif staðalímynda, átraskanir oþh?

katrín anna sagði...

ps. óþarfi að taka því sem árás á íþróttir og hollan mat þegar mælt er á móti megrun - heilsa og útlit er bara tvennt ólík á okkar tímum.

Nafnlaus sagði...

Ég hef enga tíma setið um þessi atriði sem þú taldir upp, enda tengjast þeir ekki þörfinni á hollustu.
Útlitsdýrkun er kominn í öfgar, en fita er og verður óholl í óhófi samaþó svo að aðrir hlutir sem snúi að heilsu séu eins og þeir eigi að vera.
Og já heilsa og útlit eru tvennt ólíkt en þetta tvennt er þó tengt sterkum böndum.

katrín anna sagði...

Það er nefnilega málið - þessir hlutir tengjast mjög náið allri þeirri umræðu sem nú er í gangi um offitu. Ég held að við séum sammála um að það sé þörf á heilbrigði og hollustu. Mitt point er að áhersla á kílóafjölda er ekki rétti mælikvarðinn á heilbrigði og hollustu og með því að tala sífellt í neikvæðum tón um fitu og hampa fyrirmyndum sem eru undir kjörþyngd eru búnir til fitufordómar sem leiða ekkert gott af sér.

Í staðinn fyrir að leggja áherslu á útlit og kílóafjölda væri nær að leggja áherslu á gildi þess að hreyfa sig og borða hollt - án áherslu á kílóafjölda. Þá væri hægt að draga úr öllum þessum skyndilausnum, ofuráherslu á að grenna sig með öllum tiltækum ráðum og hægt væri að styrkja sjálfsmynd þar sem ekki væri reynt að steypa öllum í sama mót.

Heilsa og útlit eru að færast sífellt nær því að verða andstæður en ekki hliðstæðupör. Hér koma nokkur dæmi:

Súpergrannt útlit - mjög óheilsusamlegt þar sem það byggir á skorti.

Hvíttaðar tennur - getur leitt til tannkuls og í raun er verið að draga úr vörn tannanna með því að þynna/rispa glerunginn.

Brúnka - sólböð, ljósalampar og brúnkukrem - ekkert af þessu er heilsusamlegt en getur þvert á móti leitt til krabbameins, sérstaklega sólböðin og ljósalamparnir. Efnið sem veldur brúnku er kannski skaðlaust en það er aldrei sett í krukku eitt og sér heldur fylgja fullt af aukaefnum, t.d. er erfitt að finna brúnkukrem sem ekki inniheldur paraben en það er krabbameinsvaldandi efni.

Litað hár - þarf varla að tíunda skaðsemi hárlitunarefna.

"Fegrunaraðgerðir" - öllum aðgerðum fylgir áhætta og það getur verið lífshættulegt að ná sér í stærri brjóst, sléttan maga, hrukkulausa húð eða minni rass. Auk þess geta alls kyns aukaverkanir fylgt aðskotahlutum sem settir eru í líkamann, s.s. sílikonpúðum. Botox er líka skaðlegt efni.

Ofangreint eru allt hlutir sem tengjast góðu útliti skv tískunni og staðalímyndunum. Hins vegar tengjast þeir ekki heilsu heldur eru þvert á móti skaðlegir fyrir heilsuna. Væri nær fyrir okkur að fara að tala um þetta frekar heldur en að vera tönglast á offitu - það sem er óhollt er allt súkkulaðið, skyndibitinn, djúpsteikti maturinn og þar fram eftir götum. Hreyfingaleysi er líka slæmt fyrir heilsuna. Með því að fókusa á fituna er dregið úr vægi þessara þátta því þeir verða minna sýnilegir og lausnirnar eftir því. Ég er til dæmis gallhörð á því að áherslan á kílóafjölda er einn af þeim þáttum sem leiðir til aukinnar þyngdar hjá þjóðinni.