laugardagur, janúar 06, 2007

Kosningabaráttan

Og má til með að bæta því við.... Allar tilraunir til að líkja bók Margrétar Frímannsdóttur við heimilis- eða kynferðisofbeldi finnst mér vera ósmekklegar. Það var fínt að sjá að Katrín Jakobs viðurkenndi að þau á Múrnum hefðu jafnvel farið yfir strikið. Slíkt finnst mér alltaf virðingarvert og mun betra heldur en þegar fólk neitar að það hafi tekið ranga ákvörðun. Mér skilst að "brandarinn" á Múrnum eigi rætur að rekja í ritdóm eftir Jón Baldvin um bókina. Þó svo sé er þessi brandari yfir strikið. Fólk má ekki alveg tapa sér í kosningaslagnum. Mér finnst útskýringin á murnum.is út af brandaranum líka vera einstaklega léleg. Þar er andstöðunni við þennan brandara lýst sem tilraunum pólitískra andstæðinga til að sverta VG. Þeir benda meira að segja á Atla Gísla til að sýna fram á baráttu gegn kynferðisofbeldi. Atli Gísla skrifaði ekki þennan brandara og ég verð stórkostlega hissa ef honum myndi detta það í hug. Ég er ekki pólítískur andstæðingur VG en þessi brandari finnst mér fyrir neðan allar hellur - og hann á alls ekki heima í femínískum flokki. Vona að þau sem kvittuðu undir brandarann á Múrnum átti sig á því og hreinlega biðjist afsökunar. Það væri við hæfi. Stimpillinn "femínískur flokkur" og kvenfrelsisstefna er ekki ávísun á friðhelgi um að mega gera hvað sem er - eða að allt sem er gert sé í femínískum anda.

Annars er áhugavert að velta fyrir sér hvernig kosningabarátta fer fram. Á tíðum vill hún einkennast af skítkasti, að rakka andstæðinginn niður og upphefja sjálfan sig. Slíkar aðferðir ganga þvert á uppeldi kvenna og ég veit að margar konur eru afhuga pólitík vegna þess að þeim líkar þessi kúltúr engan veginn. Hvort á nú að breyta uppeldinu eða kosningabaráttunni til að jafna hlut kynjanna í pólitík - og þar með lýðræðinu?

1 ummæli:

kókó sagði...

Gasalega lélegur brandari sem þarf að útskýra tvist og bast. Við hin erum e.t.v. ekki nógu vel gefin (sbr. áramótaskaupið - sem ég hló rosalega að).